Í dag, 13. júní, hófst Sverigeritten, boðreið frá nyrsta til syðsta hluta Svíþjóðar, á eyjunni Gotland. Fimmtíu og fimm dögum og 1748 km seinna mun síðasti hópurinn ríða í „mark“ í Ystad þann 16. ágúst.

„Ég er að fara til Gotland! Það er búið að slaka á ferðatakmörkunum! Ég hef aldrei farið áður og ég er svo spennt!“ Marie Svensson, formaður frístundareiðdeildar sænsku Íslandshestasamtakanna (SIF), var í skýjunum yfir því að hún myndi loks sjá afrakstur nærri tveggja ára skipulagsvinnu þegar Horses of Iceland tók hana tali tveimur dögum fyrir reiðina miklu.

Í dag, 13. júní, hófst Sverigeritten – 55-daga boðreið frá nyrsta til syðsta hluta Svíþjóðar. Til þess að skilja engan hluta landsins út undan, mun fyrsti hópur reiðmanna ferðast þvert yfir Gotland, stærstu eyju Svíþjóðar, á sex dögum (með hléi til að halda miðsumarshátíð). Þeir munu síðan afhenda næsta hópi í Kiruna í Norður-Svíþjóð „keflið“. Það er í raun farsími og allir hópar nota hann til að taka myndir af ævintýrum sínum og deila þeim á samfélagsmiðlum.

Marie með hestunum sínum. Mynd: Johan Svensson.

„Ég hef farið í hestaferðir á Íslandi í sjö ár núna, og þær eru stórkostlegar. En mér finnst þær alltaf of stuttar og verð ergileg þegar þeim er lokið. Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera hægt að gera eitthvað svipað í Svíþjóð,“ segir Marie þegar hún útskýrir tilkomu boðreiðarinnar og hlær spennt: „Þannig að ég ætla mér að ríða stærsta hluta leiðarinnar sjálf!“ Hún bætir við: „Það er gott að ég sem formaður kem á staðina og hitti fólkið í félögunum, sýni áhuga og hjálpi til við að sýna fram á að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ég vona að samfélag frístundareiðmanna muni stækka og að fólki líði eins og það sé velkomið.“

Stærsta ástæða þessa risaframtaks er að virkja og sameina frístundareiðmenn frá gjörvallri Svíþjóð. Þegar Marie tók við sem formaður árið 2018 (frá því snemma á þessu ári hefur hún einnig verið í frístundareiðnefnd FEIF) áttaði hún sig á því að mjög fáir frístundareiðmenn voru virkir í SIF vegna þess að mörgum finnst sem samtökin einbeiti sér meira að keppnum en frístundareið.

Frá Gotland. Myndir: Ingrid Wahlén.

„Ég velti því fyrir mér hvað við gætum gert sem gæti tengst öllum reiðfélögunum í landinu, sem allir gætu tekið þátt í og verið með, og þannig að enginn gæti sagt að það væri ekkert í gangi.“ Marie leggur áherslu á að Sverigeritten gæti aldrei hafa átt sér stað nema vegna þess að Íslandshestafélög á allri leiðinni tóku þátt í undirbúningi.

„Ég hef verið mjög pirrandi, alltaf að hvetja fólk og hringja reglulega til að spyra hvort það sé búið að gera hitt og þetta og skipuleggja það sem þarf að skipuleggja.“ Marie hlær. „Það er mikilvægt að félögin á hverjum stað fyrir sig skipuleggi reiðina sjálf, hvert eigi að fara, hvar eigi að sofa, hvort bjóða eigi upp á mat, skemmtiatriði, o.s.frv.“

Núna er allt að smella saman og þeir sem vilja taka þátt í boðreiðinni geta skoðað kortið á Fésbókar-síðu viðburðarins og skráð sig í þá eða þær leiðir sem hentar þeim best. Eina skilyrðið er að þeir séu meðlimir SIF, en hægt er að ríða hvaða hesti eða hestum sem er.

Fjölbreytt landslag. Myndir: Alice Akkermann.

Sautján Íslandshestafélög hafa tekið þátt í að skipuleggja boðreiðina. Í nyrsta hluta Svíþjóðar voru of fá félög og of miklar vegalengdir til þess að hægt væri að ríða samfleitt. Í staðinn verður riðið í nærsveitum hvers félags í nokkra daga fyrir sig og síðan heldur hin eiginlega boðreið áfram 5. júlí frá Örnsköldsvik. Þaðan verður riðið samfleitt 1067 km leið til Ystad í suðri, þar sem áætluð koma er 16. ágúst. Þegar reiðleiðirnar á Gotland og í Norður-Svíþjóð eru teknar inn í dæmið, verður Sverigeritten 1748 km til samans. Reiðmennirnir munu upplifa ótrúlega fjölbreytt landslag: Fjalllendi og þétta skóga, hvítar strendur og gula hveitiakra.

Öllum sem ríða með er boðið að taka þátt í ljósmyndakeppni og deila myndum af sjálfum sér og hestinum eða hestunum sínum á töfrandi augnabliki sem endurspeglar gleðina sem felst í samveru og ástríðu þeirra fyrir íslenska hestinum. Allir þátttakendur vinna netnámskeið og sigurvegarinn fær ferð til Íslands í boði Horses of Iceland í verðlaun.

Bestu vinir. Mynd: Kristin Widmark Engebro.

Íslenski hesturinn er afar hentugt hrossakyn fyrir hestaferðir, segir Marie: „Að mínu mati er íslenski hesturinn glaðlynt, léttlynt, vinnusamt og vingjarnlegt hrossakyn, sem kvartar ekki, gerir ekki mál úr hlutunum og er besta og vinsamlegasta „farartækið til utanvegaaksturs“ sem til er!“

Auk þess að kynna íslenska hestinn og sameina frístundareiðmenn frá öllum landshlutum Svíþjóðar, er einnig verið að safna fé fyrir góðgerðarsamtökin Min store dag, sem gefur langveikum börnum tækifæri til þess að uppfylla drauma sína.

Íslenski hesturinn nýtur mikilla vinsælda í Svíþjóð. Þar eru 65 Íslandshestafélög, 7000 meðlimir og 30.000 hestar, sem gerir Svíþjóð þriðja fjölmennasta samfélag íslenska hestsins í heimi (á eftir Íslandi og Þýskalandi). SIF var stofnað árið 1975, svo Sverigeritten er einnig haldið til að halda upp á 45 ára afmæli samtakanna.

Ef COVID-19 ástandið leyfir verður sérstakur viðburður haldinn í Ystad til þess að taka á móti síðasta hópi reiðmannanna þegar þeir ríða „í mark“. Kaldhæðnislega hefur kórónuveiran óbeint vakið athygli á boðreiðinni. „Þetta er næstum því eini viðburðurinn sem getur átt sér stað núna. Öllum öðrum viðburðum hefur verið aflýst fyrir utan GæðingaSM, sem við erum að vonast til að geti verið haldið í september. Sverigeritten er veiru-vænn viðburður; við höldum samskiptafjarlægð, við erum úti og það verða aldrei fleiri en 50 í reið í einu!“

Hægt er að fylgjast með framvindu boðreiðarinnar á Facebook og Instagram með myllumerkinu #sverigeritten.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir.

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: