Íslenski hesturinn er eitt hreinræktaðasta hrossakyn heims. Hesturinn hefur verið einangraður á Íslandi síðan landið var numið fyrir meira en þúsund árum síðan. Á þeim tíma hafa íslenskir hestar ekki blandast öðrum hestakynjum. Fyrstu landnámsmennirnir gátu aðeins tekið takmarkaðan fjölda húsdýra með sér og vönduðu val þeirra dýra sem þeir fluttu með sér til landsins. Íslenski hesturinn á því rætur að rekja til vandlega valinnar hjarðar, hesta sem urðu að hafa lundarfar og kraft til að þola krefjandi ferð yfir hafið á langskipum. Síðan fengu þeir hlutverk „þarfasta þjóns“ fyrstu Íslendinganna við erfiðar aðstæður í ókunnu landi.
Landfræðileg einangrun landsins hefur það í för með sér að lítið er um smitsjúkdóma hjá hestum og engin þörf er á bólusetningum. Bannað er að flytja hross til landsins sem þýðir að þeir hestar sem fara frá landinu, til dæmis til að keppa á mótum, geta aldrei snúið þangað aftur. Hestamenn sem vinna með hestum í öðrum löndum og ferðamenn sem koma til landsins eru hvattir til að flytja ekki með sér notaðan búnað, svo sem hanska, skálmar og skófatnað, og sótthreinsa allan búnað (sérstaklega hjálma).
Íslenski hesturinn er einstakur að mörgu leyti, ekki aðeins vegna þessarar óvenjulegu sögu. Á þessari síðu getur þú eflaust lært sitthvað um hið heillandi íslenska hestakyn. Sæktu þér innblástur og skelltu þér síðan á bak.
-
Gangtegundir
Íslenski hesturinn býr yfir 5 gangtegundum þ.m.t. skeiði og tölti. Lesa meira -
Litir
Litbrigði íslenska hestsins eru líklega með því fjölbreyttasta sem finnst. Lesa meira -
Eiginleikar
Íslenski hesturinn er vinalegur, ævintýragjarn, gáfaður og fljótur að læra. Lesa meira -
Markmið ræktunar
Hið opinbera ræktunarmarkmið miðar að því að rækta heilbrigðan, frjósaman og endingargóðan hest – hraustan íslenskan hest. Lesa meira