Engir gestir máttu vera viðstaddir stóðréttir á Íslandi í ár vegna COVID-19 faraldursins. Bændur skemmtu sér þó vel sem endranær og vonir standa til að ferðamenn geti fylgst með réttunum aftur að ári liðnu.

Árstíðirnar breytast þótt heimurinn virðist kannski standa í stað. Þegar haustar á Íslandi er kominn tími fyrir leitir og réttir, að sækja hrossin og sauðféð sem hefur notið frelsisins í fjalladölum allt sumarið. Tilgangurinn með því að reka dýrin á afrétti er að hlífa beitarlandinu í sveitunum, en einnig að styrkja þau og efla heilbrigði þeirra, andlegt og líkamlegt.

Freyja Amble Gísladóttir, sem býr á Hofsósi, fór ásamt nokkrum öðrum hestaeigendum að sækja stóð í Unadal síðustu helgina í september. Hún segir þau hafa skemmt sér vel þrátt fyrir fámennið í ljósi COVID-19 faraldursins. „Stemmningin var mjög góð og það var virkilega gaman. Það er ekki margt annað í gangi, þannig að bændur sem áttu hross komu allir,“ segir hún um réttarstörfin. „Það var líka „eðlilegt“ magn af fólki að sækja hrossin. Yfirleitt eru fleiri en þarf.“ Það voru tæplega 200 hestar á afréttinum sem tilheyrðu 10 bæjum og nokkrum aðilum í viðbót. „Það var mjög gott veður. Við vorum virkilega heppin með það.“ Ferlið tók tvo daga. „Fyrra daginn riðum við alla leið inn í botn og rákum hrossin mest alla leiðina heim. Síðan voru þau geymd og sótt síðasta spottann í réttina daginn eftir. Við rétt ýttum á eftir þeim. Þau vissu alveg hvert þau voru að fara.“

Um 20 stóðréttir fara fram í september og byrjun október ár hvert, allar á Norðurlandi. Þær laða að fjölda gesta, innlenda sem erlenda, sérstaklega stærstu og frægustu réttirnar: Laufskálaréttir í Hjaltadal, sunnan við Unadal. Þar koma saman um 500 hross og 2000–3000 manns! Það er sannarlega mögnuð sjón að sjá hundruði lausra hrossa koma hlaupandi niður hlíðina. Síðan taka lífleg réttarstörfin við, bændur syngja raddaða ættjarðarsöngva og gleðin er við völd. Þetta er sannkölluð íslensk sveitahátíð.

Í ár hurfu bændur aftur til upphafsins, ef svo má segja, því vegna samkomutakmarkana mátti enginn utanaðkomandi taka þátt í eða fylgjast með réttarstörfum. Þess vegna urðu réttirnar smærri í sniðum í ár, eins og þær voru áður en þær urðu svona vinsælar meðal ferðamanna. Hins vegar gerði nútímatækni áhugasömum um allan heim kleift að fylgjast með, því Freyja tók yfir samfélagsmiðla Horses of Iceland og sendi út myndbönd á Instagram frá leitum og réttum í Unadal. Útsendingarnar reyndust mjög vinsælar, en allt að 1300 manns horfði á hvert myndband.

Á næsta ári geta ferðamenn vonandi snúið aftur, riðið með bændum inn á afrétt, fylgst með réttunum og upplifað íslenska sveitamenningu eins og hún gerist best.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Freyja Amble Gísladóttir.

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: