Lokamótið í Meistaradeild KS í hestaíþróttum er framundan, en það verður haldið í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki föstudaginn 7. maí kl. 18. Keppt verður í tölti og flugskeiði. Hægt verður að horfa á keppnina í beinu streymi eða eftir á með því að kaupa aðgang á Tindastóli TV.
Sigurvegarar í T2.
„Við verðum með einhverja leynigesti, allavega í skeiðinu,“ upplýsir Andrea Þorvaldsdóttir, formaður stjórnar KS-deildarinnar. „Það hafa verið að koma stórstjörnur. Í fyrra komu Steggur og Siguroddur og sigruðu töltið og Sigursteinn kom með Krókus frá Dalbæ í skeiðið“.
Siguroddur Pétursson sigraði töltið í fyrra á Stegg frá Hrísdal. Konráð Valur Sveinsson sigraði hins vegar flugskeiðið á Kjarki frá Árbæjarhjáleigu II og sló í leiðinni hallarmetið á tímanum 4,62 sekúndum, eins og segir á Facebook-síðu viðburðarins.
Meistaradeild KS er eins og norðlenska útgáfan af Meistaradeildinni í hestaíþróttum og uppsetningin er mjög svipuð. Í KS-deildinni eru átta lið og fimm knapar í liði. Fimm mót eru haldin yfir veturinn (vanalega eru fjögur þeirra haldin á Sauðárkróki og eitt á Akureyri en í ár voru þau öll á Sauðárkróki) og keppt er í sex greinum. Ekki er keppt í útiskeiði eins og í Meistaradeildinni.
Frá keppni í T2.
„Þetta er mjög svipað og fyrir sunnan, en neðsta liðið dettur út og svo er úrtaka og þeir sem sigra komast inn, þannig að það er alltaf einhver endurnýjun,“ útskýrir Andrea.
„Við vorum fyrst að prufa nýju gæðingafimina og gekk það mjög vel. Í deildinni kemur saman mikill metnaður, góðir hestar og bestu knaparnir frá þessu svæði,“ bætir hún við. Knapar koma reyndar víðar að en frá Norðurlandi, frá Reyðarfirði og sunnan að frá Borgarfrði.
„Knapar eru að stóru leyti Hólaskólakennarar og -nemendur, krakkar sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessum bransa svo þetta er mikil kynning fyrir þau,“ segir Andrea.
Í lok mótsins verða svo sigurvegari Meistaradeildar KS ársins 2021 krýndur ásamt stigahæsta liðinu.
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Bjarney Anna Þórsdóttir.