Sáttmáli milli hestafólks og annarra vegfarenda um umferðaröryggi var undirritaður á blaðamannafundi í Fáksheimilinu Víðidal, laugardaginn 8. maí. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, opnaði fundinn. Við það tilefni tilkynnti ráðherra fyrirhugaða aukafjárveitingu til reiðvegamála sem liggur fyrir Alþingi.
Síðan kynnti Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, nýja fræðslumynd um umferðaröryggi, m.a. um eðli hestsins og möguleg viðbrögð hans við fólki og farartækjum. Myndin er nú komin í dreifingu og er hægt að horfa á hana hér.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, með Guðna Halldórssyni, formanni LH.
Að undanförnu hefur umræða um árekstra milli hestafólks og annarra vegfarenda verið áberandi, sérstaklega á samfélagsmiðlum. Í sumum tilfellum hafa ásakanir gengið á víxl og varpað skugga á uppbyggilega gagnrýni og lausnamiðaða umræðu.
Á síðasta ári urðu tíð slys á hestafólki, sum þeirra alvarleg, og oft á þeim stöðum þar sem umferð ríðandi fólks og önnur umferð skarast. Árið 2020 voru 160 hestaslys skráð hjá Bráðamóttöku Landspítalans en almennt eru slík slys talin vanskráð.
Orsökin er yfirleitt þekkingarleysi og skortur á því að hestafólk setji sig í spor annarra og að aðrir vegfarendur setji sig í spor hestafólks. Nú hefur hestafólk og fulltrúar annarra vegfarendahópa tekið höndum saman um að fræða almenning um það hvernig allir þessir hópar geti stundað heilbrigða og örugga útiveru í sátt og samlyndi.
Ætlunin með fræðsluátakinu er upplýsa fólk um eðli hesta og möguleg viðbrögð þeirra við fólki og farartækjum og einnig að vekja athygli á þörfum mismunandi vegfarendahópa og rétti allra til að stunda útvist og komast leiðar sinnar með öruggum hætti.
Eftirfarandi hópar hafa komið sér saman um „Sáttmála hestafólks og annarra vegfarenda“: Landssamband hestamannafélaga; Hljólreiðasamband Íslands; Landssamtök hjólreiðamanna; FÍB – Félag íslenskra bifreiðaeigenda; Ökukennarafélag Íslands; Sniglarnir; Slóðavinir; Félag ábyrgra hundaeigenda, Skíðasamband Íslands; Skíðagöngufélagið Ullur; Frjálsíþróttasamband Íslands; og Vegagerðin.
Fulltrúar þessa hópa undirrituðu sáttmálann á fundinum með það að leiðarljósi að við öll tileinkum okkur tillitssemi, varúð og kurteisi. Að við setjum okkur í spor hvers annars.
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Einar Magnús Magnússon.