Þú hefur sennilega heyrt talað um „réttir“. Í dag köfum við aðeins dýpra í þá hefð að leyfa hrossum að ganga lausum hluta úr ári.

Aldalöng hefð

Haustið á Íslandi er mikilvægur tími ársins fyrir marga hrossaræktendur og hesteigendur: það er tíminn þegar þeir fá nokkur af dýrmætustu hrossunum sínum aftur til byggða eftir nokkurra mánaða lausagöngu í víðerninu sem náttúra Íslands hefur upp á að bjóða.

Sú hefð að leyfa hestum að ganga frjáls hluta úr ári kom með víkingum og hófst líklega um leið og Ísland byggðist á 9. og 10. öld. Hinir hörðu vetur gerðu það að verkum að búfénaðurinn geymdi fitu yfir sumarmánuðina og hvað er betra en frjáls hagabeit á þessu tímabili?

Eins og þú kannski veist voru hestar ómissandi fyrir afkomu Íslendinga allt þar til fyrir tæpri öld. Hestar voru ekki aðeins notaðir til alls kyns vinnu á bæjum heldur voru þeir líka eini ferðamátinn á eyjunni. Það skipti því sköpum fyrir hrossin að vera í góðu formi fyrir veturinn og einnig að þau væru örugg og gáfuð. Hestur sem gæti komið eiganda sínum heim á öruggan hátt í snjóstormi, án nokkurra mistaka, gæti skilið á milli lífs og dauða.

Að alast upp í hjörðum og þurfa að takast á við náttúruöflin á eigin spýtur leiddi til þess að íslenski hesturinn lærði hvernig ætti að komast af á þessu landi. Þekking á samfélagsreglum hjarðarinnar ásamt því að greina á hvaða landslagi væri öruggt að ferðast eða hvaða plöntur væri óhætt að éta eða jafnvel hvar hægt væri að finna æti var lykillinn að því að hestar lifðu af á hálendi Íslands.

Hefðin er enn við lýði

Í dag treysta landsmenn ekki lengur á hestinn til að komast af. Engu að síður er haldið í þá  hefð að láta ungviðið og þungaðar hryssur ganga laus yfir sumarmánuðina, sérstaklega á Norðurlandi.

Folöld fæðast venjulega í maí, júní og júlí. Ræktendur ákveða síðan hvaða stóðhest á að para við hverja hryssu og er hún ásamt folaldinu færð til þess stóðhests. Þegar þungun hefur verið staðfest er hryssan og folald hennar flutt í dali, fjarri byggðum, þar sem þau geta gengið frjáls ásamt öðrum hryssum og folöldum þeirra. Ungir hestar sem ekki hafa enn verið þjálfaðir eru einnig með í hópnum sem og einstaka eldri hestar sem njóta sumarfrís yfir sumartímann. Hundruð hrossa frá mörgum ræktendum og eigendum blandast saman í þeim dölum og mynda hjörð yfir sumarið.

Mikill ávinningur

Þetta er auðvitað falleg hefð sem orðin er aldagömul en fyrir marga er þetta meira en bara hefð.

Meðal ræktenda er almennt talað um að hross sem alast upp við þessar aðstæður öðlist dýrmæta færni. Þau lenda í ýmis konar aðstæðum þar sem þau þurfa að nota hyggjuvitið og einnig læra þau mikilvæg félagsleg mörk í hjörðinni. Einnig er líklegt að hestar sem eiga þess kost að ráfa um hálendið séu mjög fótvissir, enda hafi þeir farið um alls kyns landslag.

Öll þessi reynsla er ómetanleg fyrir framtíðarþjálfara þeirra, sem gerir þjálfunarferlið auðveldara. Félagslegu reglurnar sem þessir hestar hafa lært eru notaðar til að kenna þeim mörk í samskiptum við manninn. Hæfni þeirra til að leysa vandamál auðveldar námið og reynsla þeirra á fjölbreyttu landslagi gefur þeim sjálfstraust þegar þeir eru þjálfaðir í náttúrunni.

Réttir

Réttir eru ógleymanlegir viðburðir sem fara fram á haustin þegar eigendur hestanna fara ríðandi inn á hálendið til að smala hjörðunum saman niður úr dölunum og í réttirnar. Smölunin fer oft fram einhverjum dögum fyrir réttardaginn. Hestarnir eru síðan geymdir í nokkurra kílómetra fjarlægð frá réttunum og síðan reknir þangað á sjálfan réttardaginn.  

Það sem Íslendingar kalla „rétt“ er í rauninni hringur innan stærri hrings. Rýmið á milli þessara tveggja hringja er skipt í marga hluta, hver með litlum hliðum á báðum hliðum. Hver hluti er merktur tilteknu býli eða eiganda. Einn hluti réttaarinnar er í raun gangur með breiðum hliðum til að hrossin geti farið um þennan gang inn í minni hringinn utan frá réttinni.

Til að flokka hrossin eftir býlum eða eigendum eru smærri hópar hrossa, venjulega um 50-60, teknir inn í minni hringinn í miðjunni. Þar finna eigendur og ræktendur sín hross og koma þeim í viðeigandi dilka. Allir hestar eru örmerktir sem hjálpar ef vafi leikur á eignarhaldinu. Að lokum smala ræktendur og eigendur sínum hestum heim á bæ eða flytja þau á bíl eða kerru.

Megintilgangurinn með því að safna hrossunum saman er auðvitað að koma þeim nær heimahöum yfir vetrartímann. Sumir munu fara í tamningu eða fara aftur í þjálfun en fylfullar hryssur og tryppi fara í haga þar sem auðvelt er að fylgjast með þeim og sinna þeim vel yfir kaldari mánuðina.

Ofan á þá miklu gleði að sjá hestana sína á ný eru réttir mikill félagslegur viðburður. Fjölskyldur af öllu svæðinu koma venjulega til að taka þátt eða horfa á. Opið hús og aðrir minni viðburðir eru skipulagðir og á undanförnum áratugum hafa verið tækifæri fyrir gesti erlendis frá til að taka þátt í hátíðarhöldunum.

Ef þú vilt taka þátt í þessari fallegu upplifun mælum við með að kíkja á samstarfsaðila okkar. Sum þeirra bjóða upp á ævintaýralegara ferðir þar sem hægt er að vera með í smalamennskunni og fylgjast með réttarstörfunum.

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: