FEIF hefur þróað reiðhestagreiningu (Riding Horse Profile) til að aðstoða hestamenn við að festa kaup á besta mögulega reiðskjótanum.
Íslenski hestastofninn býr yfir miklum fjölbreytileika. Hver hestur er sérstakur m.t.t. skapgerðar og þjálfunarstigs. Á sama hátt eru knapar ólíkir hver öðrum og kröfur þeirra til reiðhesta eru mismunandi.
FEIF hefur þróað reiðhestagreiningu (Riding Horse Profile) til að aðstoða hestamenn við að festa kaup á besta mögulega reiðskjótanum. Greiningin er tól sem byggir á hlutlausu mati atvinnuþjálfara á þeim hesti sem kaupandi/knapi hefur áhuga á, ásamt óskum og þörfum kaupanda/knapa.
Reiðhestagreiningin samanstendur af tveimur eyðublöðum (á ensku), sem hægt er að nálgast á vefsíðunni feif.org. Annað þeirra, Rider’s Form, er hannað til þess að hjálpa kaupanda/knapa við að skilgreina þá eiginleika sem hann vill að draumareiðhesturinn hans búi yfir. Hitt eyðublaðið, Trainer’s Form, er notað til þess að lýsa eiginleikum og þjálfunarstigi ákveðins hests á ákveðnum tíma.
Atvinnuþjálfari fyllir út seinna eyðublaðið (Trainer’s Form) eftir að hafa fylgst með hestinum og prufað hann. Í skýrslunni leggur hann mat á þrjá þætti: Viðbrögð við almennri meðhöndlun (þegar honum er kembt, þegar lagt er á bak og hann leiddur upp í kerru); reiðfærni hestsins (inni og úti); og viðbrögðum hans við umhverfi sínu (þegar hann mætir fólki á hjóli, öðrum hestum, hundum, regnhlífum, o.s.frv.).
Þjálfarinn ræðir síðan við kaupanda/knapa, ber saman upplýsingarnar á eyðublöðunum og hjálpar til við að ákveða hvort hesturinn sem var skoðaður henti kaupanda/knapa.
Venjulega þarf að prufa nokkra hesta áður en lokaákvörðun er tekin. Í því ferli þarf kaupandi/knapi aðeins að fylla fyrra eyðublaðið (Rider’s Form) út einu sinni. Það er einnig hægt að nota seinna eyðublaðið (Trainer’s Form) aftur fyrir sama hestinn, ef ekki er of langt um liðið síðan það var fyllt út og aðstæður og þjálfunarstig hestins eru þær sömu.
Reiðhestagreining FEIF er tól til þess að finna bestu mögulegu pörun hests og knapa, sem kemur bæði seljanda og kaupanda til góða. Hún gefur mynd af reiðmanni og reiðskjóta á ákveðnum tíma, en er ekki trygging fyrir því að ástandið verði varanlegt. Hesturinn getur brugðist öðruvísi við öðrum knöpum og öðrum kringumstæðum.
FEIF styður velferð hrossa, sem og ánægju og öryggi knapa.
Frekari upplýsingar má finna í kynningarmyndbandi um reiðhestagreininguna sem Horses of Iceland gerði í samstarfi við FEIF (myndbandið er á ensku).
Skoðið einnig nýju myndbandasíðuna okkar.