Ótrúlegur fjöldi verka – eða 465! – voru send inn í alþjóðlega listasamkeppni um íslenska hestinn sem IPZV, þýsku Íslandshestasamtökin, stóðu fyrir í samstarfi við Horses of Iceland (HOI) og Sendiráð Íslands í Berlín.
„Það var ótrúlega magnað að sjá listaverkin detta í hús. Hvert einasta er einstakt og ótrúlega flott! Dómnefndin á erfitt verk að fyrir höndum. Þetta var skemmtilegt samstarfsverkefni með þýsku Íslandshestasamtökunum og sendiráðinu í Berlín og ég hlakka til næsta samstarfsverkefni,“ segir Jelena Ohm, verkefnastjóri HOI.
Fólk gat tekið þátt í þremur aldursflokkum (fullorðnir, ungmenni og börn) og hafði fjóra mánuði til að senda inn málaða, teiknaða eða föndraða mynd af íslenska hestinum og/eða íslenskri náttúru. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og þegar fresturinn rann út 30. júlí höfðu 465 verk borist; 300 eftir fullorðna, 104 eftir ungmenni og 61 eftir börn.
Þátttakendur komu frá 16 mismunandi löndum: Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Hollandi, Frakklandi, Austurríki, Sviss, Englandi, Skotlandi, Bandaríkjunum, Rússlandi, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Auk HOI og Sendiráði Íslands í Berlín, er FEIF (alþjóðlegu Íslandshestasamtökin) stuðningsaðili keppninnar og Guðmundur Guðmundsson, þjálfari MTV Melsungen og íslenska karlalandliðsins í handbolta, er verndari hennar.
Í mars síðastliðnum – þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst og ljóst var að ekki yrði hægt að halda Alþjóðlegan dag íslenska hestsins 1. maí eins og verið hefur síðustu ár – var ákveðið halda alþjóðlega listasamkeppni í staðinn og gefa hestaunnendum tækifæri til að gera eitthvað skapandi og jákvætt.
Dómnefndina skipa fimm aðilar, fulltrúar frá IPZV, FEIF, Sendiráði Íslands í Berlín og meðlimir listasamfélagsins í Þýskalandi. Dómnefndin hélt sinn annan (fjar)fund 18. ágúst og voru þá valin fjögur verk fyrir hvern flokk. Síðan mun dómnefndin raða sigurvegurunum í 1.-4. sæti í hverjum flokki fyrir sig og hafa samband við viðkomandi aðila.
Verðlaunaafhendingin verður við sérstaka athöfn í Sendiráði Íslands í Berlín 11. september næstkomandi og við sama tilefni verður listasýning með innsendum verkum opnuð í sendiráðinu. Verkin verða einnig sýnd á rafrænni listasýningu á vefsíðu IPZV (ipzv.de). Efstu myndirnar 12 verða gefnar út á dagatali IPZV fyrir 2021 og fá allir þátttakendur eintak.
Til mikils er að vinna, en styrktaraðilar gefa vinningshöfum glæsileg verðlaun. Aðalvinningurinn er gjafabréf með Icelandair að andvirði nærri 450 evra – í boði HOI – og átta daga hestaferð með Eldhestum! Einnig er hægt að vinna gistingu á Hótel Rangá, reiðbúnað og -fatnað, íslenskt lambakjöt og fullt af öðrum vinningum.
HOI vill þakka öllum þátttakendum fyrir að senda inn verk sín.
Daginn eftir verlaunaafhendinguna, 12. september, verður Alþjóðlegur dagur íslenska hestsins haldinn hátíðlegur. Í stað þess að skipuleggja viðburði og bjóða í heimsókn í hesthús eins og venja er fyrir, efnir HOI til ljósmyndakeppni sem hefst á morgun, 1. september. Meira síðar!
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Úrval innsendra verka.