Bókin Humans, Horses and Events Management, sem byggir á alþjóðlegri rannsókn á Landsmóti hestamanna, er komin út hjá CABI Publisher. Þetta fyrsta bók sinnar tegundar sem fjallar um hestaviðburði sérstaklega.

Bókin Humans, Horses and Events Management, sem byggir á alþjóðlegri rannsókn á Landsmóti hestamanna, er komin út hjá CABI Publisher. Bókin einstök að tvennu leyti: Þetta fyrsta fræðiritið sem fjallar um hestaviðburði sérstaklega og hefur einnig þá sérstöðu í viðburðastjórnunarfræðum að skoða ákveðinn viðburð frá mörgum sjónarhornum.

„Þetta hefur verið skemmtilegt 5–6 ára ferli. Við settum saman rannsóknarhóp fyrir Landsmótið  á Hólum 2016 og um 13 manns unnu að gagnaöflun á mótinu,“ segir Ingibjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum og einn af ritstjórum bókarinnar. „Þar sem við erum með eina heildstæða námið í viðburðastjórnun á Íslandi fannst okkur fáránlegt að nýta ekki þennan risastóra íþróttaviðburð á túninu heima.“

Bókin fjallar um hestaviðburði og samskipti manns og hests og byggir á viðamikilli rannsókn á Landsmóti hestamanna. Hún inniheldur 17 kafla þar sem fjallað er um viðburðinn frá ólíkum sjónarhornum. Höfundar eru 19 talsins frá 5 þjóðlöndum.

„BA-nemendur úr ferðamálafræði unnu að gagnasöfnun og fyrrverandi meistaranemar frá Háskóla Íslands og Hólum eiga þátt í köflum í bókinni. Fræðimenn með mjög fjölþættan og ólíkan bakgrunn koma að henni, en það er ekki sjálfsagt að ná saman fólki sem hefur áhuga á því sama en er með svona fjölbreyttan bakgrunn, t.d. úr náttúru- og félagsvísindum,“ segir Ingibjörg.

Í bókinni er viðburðurinn sjálfur tekinn fyrir, félagskerfi hestamennskunnar, íslenski hesturinn og keppnisgreinar á Landsmóti. Fjallað er um stjórnun og stefnumótun viðburðar sem og samkeppnishæfni, markaðssetningu og staðarval.

Fánareið á Landsmóti 2016. Mynd: Henk Peterse.

„Við fengum viðburðastjóra Landsmóts 2016 og 2018 til að koma með sína sýn á hvernig það er að halda svona viðburð og það eru innlegg frá FEIF og Landssambandi Hestamannafélaga. Þetta er ekki allt fræðilegt því efnið er nálgast á mismunandi hátt. Einn kaflinn er t.d. heimildarmynd um það sem gerist baksviðs á svona viðburði,“ bætir hún við.

Hægt er að horfa á heimildamyndina, sem er um fimm mínútur, á netinu án endurgjalds. Þar er m.a. talað við Solveigu Láru Guðmundsdóttur, vígslubiskup á Hólum, sem segir frá því að hún taki vaktir við salernisþrif á Landsmótinu með kvenfélagi sveitarinnar en taki einnig þátt í opnunarathöfn með því að blessa mótið.

Í bókinni er rýnt í með hvaða hætti hestaviðburðir hafa áhrif á ímynd svæða og landa og þær áskoranir sem felast í því að halda viðburði þar sem saman koma tvær tegundir; maður og hestur. Einnig er fjallað um upplifun gesta, sjálfboðaliða, velferð hesta sem og efnahagsleg og samfélagsleg áhrif viðburða og áhrif þeirra til lengri tíma litið.

„Í 4000 manna samfélag koma 8000 manns og 800 hross. Þetta er mikil viðbót. Þegar svona mikill fjöldi fólks og hesta er á sama blettinum í svolítinn tíma þarf mikið skipulag og það er ekki sjálfgefið að það gangi vel. Það þarf að halda vel utan um alla hluti,“ segir Ingibjörg og bætir við að það hafi verið áberandi hversu jákvæðir viðmælendur voru, bæði gestir og heimafólk, einnig þeir sem höfðu enga tengingu við hesta. „Það var mikill metnaður fyrir því að gera þetta vel.“

 

Frá Landsmóti 2016. Mynd: Ragnhildur Ásvaldsdóttir.

Landsmót hestamanna er síðan borið saman við alþjóðlegan stórviðburð á sviði hestamennsku, Allteck FEI World Equestrian Games. „Bókin er í rauninni hugsuð miklu víðar en að útskýra Landsmót hestamanna. Fólk á heimsvísu á að geta nýtt sér hana varðandi að halda, skipuleggja og vinna með viðburði, ekki endilega hestatengda, en hún hefur ákveðna sérstöðu í því að horfa á viðburð út frá tveimur tegundum, manni og dýri,“ útskýrir Ingibjörg.

Bókin á erindi til margra, segir hún. „Til þeirra sem hafa áhuga á viðburðastjórnun og hestum, samskiptum manns og hests frá víðu sjónarhorni – bæði praktískt og fræðilega, og ekki síst til þeirra sem eru að skipuleggja viðburði sjálfir. Þótt hún sé byggð á rannsóknum er bókin aðgengileg og þar er margt fróðlegt fyrir hestamenn og hestaáhugafólk.“

Rannsókninni var stýrt af Ferðamáladeild Háskólans á Hólum og ritstjórar bókarinnar eru, auk Ingibjargar, Katherine Dashper frá Leeds Beckett Háskóla og Guðrún Helgadóttir frá Háskólanum í Suð-Austur Noregi. Höfundar kafla eru einnig innlendir og erlendir fræðimenn á sviði ferðamálafræða, viðburðastjórnunar, hestafræða, dýralækninga, hagfræði, viðskiptafræði ofl. auk aðilar frá félags- og stoðkerfi hestamennskunnar.

Bókin, sem er á ensku, fæst á vefsíðu útgefanda og víðar í prentuðu formi og sem ePDF og ePub. Í takmarkaðan tíma er hægt að kaupa hana á 20% afslætti með að slá inn kóðann CCAB20.

Hér má horfa á stutta heimildamynd um starf sjálfboðaliða á Landsmóti.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Henk Peterse (kápumynd og fánareið). Ragnhildur Ásvaldsdóttir (aðrar myndir frá Landsmóti 2016).

Kápumynd: Sigur frá Stóra-Vatnsskarði og Árni Björn Pálsson og Lukku-Láki frá Stóra-Vatnsskarði og Hinrik Bragason.

Myndasafn

0 0 0 0 0

Deila: