Deildin var sett á laggirnar árið 2008 undir nafninu KS deildin en árið 2017 tók ný stjórn við og hefur deildin heitið Meistaradeild KS síðan þá.
„Það sem gerir Meistaradeild KS í hestaíþróttum frábrugðna mörgum öðrum hestamótum og líklega fýsilegri kost fyrir almenning og fjölmiðla að fylgjast með er að deildin spannar langt tímabil, rúmlega 3 mánuði þar sem loftar frekar vel á milli móta sem gefur fjölmiðlum og þeim sem fylgjast með Meistaradeildinni svigrúm til umfjöllunar og spámennsku um framvindu mála. Mótin fara fram á tímum sem gefa þeim óskipta athygli og eru stutt og áhorfendavæn, hvert mót tekur eina kvöldstund fyrir utan skeiðdaginn mikla sem fram fer utandyra,“ segir Unnur Rún Sigurpálsdóttir formaður Meistaradeildar KS.
Meistaradeild KS er einstaklings- og liðakeppni þar sem liðin eru átta og skipar hvert lið fimm knapa en þrír knapar keppa í hverri grein. Lið getur þó á hverju tímabili kallað til knapa sem 3ja knapa utan liðs til keppni í einni grein sem kallaður er leynigestur. Tamningameistarinn og reiðkennarinn Mette Moe Mannseth hefur unnið einstaklingskeppni deildarinnar síðustu tvö árin og árið 2021 vann lið Íbishóls liðakeppnina.
„Í ár verður einmitt sú breyting að tvær keppnisgreinar bætast við en það er gæðingaskeið og 150 m skeið. Þetta er frekar stór breyting og við gerum okkur grein fyrir að það getur verið krefjandi fyrir lið að bæta við tveimur greinum af sömu gangtegund en teljum þetta vera eina af þeim leiðum til að auka skeiðáhuga hér á Norðurlandi ásamt þeim skeiðmótum sem haldin hafa verið hér fyrir norðan“ útskýrir Unnur.
Meistaradeild KS gerði samning við Alendis fyrir tímabilið um að sýna beint frá öllum mótum deildarinnar.
Fyrsta mótið í Meistaradeild KS verður haldið miðvikudaginn 2. mars og keppt verður í gæðingafimi LH, 3. stigi. Hugmyndin að baki gæðingafiminni er að sýna vel þjálfaðan gæðinga á listrænan hátt, þar sem öll þjálfunarstig eru sýnd. Knapi fléttar saman gangtegundum og æfingum og sýnir í einni heild jafnvægi, þjálni, kraft og fimi hestsins.
Annað mót deildarinnar fer fram 11. mars og þá verður keppt í fjórgangi, 30. mars í slaktaumatölti, 13. apríl fimmgangi, 30. apríl 150m skeiði og gæðingaskeiði og 6. maí í tölti og flugskeiði.
Áhorfendapallarnir í Svaðastaðahöllinni verða opnir á meðan húsrúm leyfir og fyrir þá sem ekki eiga heimangengt, þá sýnir Alendis.is beint frá öllum mótum deildarinnar.
Texti: Hilda Karen Garðarsdóttir
Myndir: Meistaradeild KS