Takið þátt í listasamkeppni í tilefni af Alþjóðlegum degi íslenska hestsins og teiknið, málið eða föndrið myndir af íslenska hestinum í íslenskri náttúru.

Horses of Iceland, Sendiráð Íslands í Berlín og IPZV, Íslandshestasamtökin í Þýskalandi, hafa efnt til listasamkeppni fyrir alla fjölskylduna í tilefni af Alþjóðlegum degi íslenska hestsins. Dagurinn er venjulega haldinn hátíðlegur 1. maí en vegna heimsfaraldurs COVID-19 hefur honum verið frestað til 12. september.

Fólk á öllum aldri er hvatt til þess að taka þátt í listasamkeppninni og teikna, mála eða föndra myndir af íslenska hestinum í íslenskri náttúru með hvaða tækni sem er. Myndirnar þarf síðan að skanna í hárri upplausn og senda IPZV með tölvupósti fyrir 30. júlí.

Keppt er í þremur aldursflokkum: Börn (10 ára og yngri), unglingar (11-18 ára) og fullorðnir (eldri en 18 ára). Myndirnar þurfa allar að vera liggjandi (e. „landscape format“) vegna þess að þær bestu verða birtar í dagatali fyrir árið 2021.

Eftir að fresturinn rennur út mun dómnefnd velja 12 bestu myndirnar og birta þær á samfélagsmiðlum skipuleggjenda fram að útgáfu dagatalsins. Hundrað þátttakendur af handahófi fá dagatal sent heim.

Sendið myndirnar til geschaeftsstelle@ipzv.de fyrir 30. júlí með titli listaverksins, sem og nafni, aldri heimilisfangi og netfangi listamannsins. Vinsamlegast geymið upprunalegu útgáfuna vel.

Alþjóðlegur dagur íslenska hestsins var fyrst haldinn hátíðlegur 1. maí 2016 og hefur nú fest sig í sessi sem árlegur viðburður. Þá eru eigendur íslenskra hesta og íslensk hestamannafélög um allan heim hvött til þess að sína samstöðu og kynna kosti íslenska hestsins fyrir öðrum, t.d. með því að bjóða vinum á hestbak, opna hesthús sín fyrir almenningi eða halda opna viðburði. Síðan má deila myndum og myndböndum frá viðburðum dagsins á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #horsesoficeland.

Dagskrá fyrir Alþjóðlegan dag íslenska hestsins 12.-13. september 2020 verður auglýst síðar í viðburðadagatali Horses of Iceland.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir.

Deila: