Áttatíu hæst dæmdu kynbótahross landsins verða sýnd á Gaddstaðaflötum við Hellu 27. júní ásamt stóðhestum með afkvæmaverðlaun. Streymt verður beint frá viðburðinum.

Félag hrossabænda, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Horses of Iceland, í samstarfi við Rangárbakka, þjóðaleikvang íslenska hestsins, blása til Landssýningar kynbótahrossa á Gaddstaðaflötum við Hellu, laugardaginn 27. júní og verður beint streymi frá viðburðinum. Þátttökurétt í sýningunni eiga tíu hæst dæmdu kynbótahross vorsins í öllum flokkum hryssna og stóðhesta, alls 80 bestu hross landsins. Hrossin verða kynnt ítarlega og verðlaunuð á grunni dóma vorsins. Hestaáhugafólk um víða veröld getur horft á streymið heima í stofu og hlustað á lýsingar á íslensku, ensku eða þýsku. Bestu hross samtímans munu lýsa upp tölvu- og sjónvarpsskjái heimsbyggðarinnar!

„Það er mikilvægt fyrir hrossaræktendur að geta kynnt þá gripi sem hafa verið í tamningu og þjálfun og búið að leggja mikla vinnu í og stefnt var með á Landsmót,“ segir formaður Félags hrossabænda, Sveinn Steinarsson. Landsmóti 2020 hefur verið frestað vegna COVID-19 faraldursins, en hæst dæmdu kynbótahross landsins eru ávallt sýnd á Landsmóti, sem haldið er annað hvert ár. Landsmót mun næst fara fram árið 2022 á Hellu, eins og til stóð í ár.

Á Landssýningu kynbótahrossa verða einnig afkvæmasýningar stóðhesta, en þeir stóðhestar sem eiga rétt á fyrstu- og heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi geta komið fram og verða verðlaunaðir. Allir þeir verðlaunagripir sem veittir eru á Landsmótum í einstaklingssýningum og fyrir afkvæmahesta verða veittir við þetta tilefni.

Sveinn ítrekar mikilvægi þess að kynna hið gróskumikla hrossaræktarstarf sem er í gangi á Íslandi og að efstu kynbótahross ársins nái að koma fram á sameiginlegum viðburði. „Nýjar stjörnur munu koma fram í ár eins og ávallt, en mikil spenningur er hjá hrossaræktarfólki að sjá ný hross koma til dóms og kynningar.“ Hann segir kynbótasarfið vera grunnurinn að allri þeirri reiðhestaræktun sem fer fram á Íslandi.

Í ljósi stöðunnar vegna COVID-19 verður viðburðinum streymt. Einnig er vonast til að hægt verði að fylgjast með á staðnum, en það mun taka mið af þeim samkomutakmörkunum sem verða þegar að viðburðinum kemur. „Við hestamenn, eins og aðrir, höfum þurft að bregðast við og nýta tæknina og hefur það þegar gefið ágæt raun,“ segir Sveinn að lokum.

Nánari upplýsingar um streymið og dagskrá sýningarinnar má finna hér þegar nær dregur.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Mynd: Christiane Slawik.

Deila: