Í mars var fjallað um íslenska hestinn í vinsælli þáttaröð um dráttarhesta, Gentle Giants, á bandarísku sjónvarpsstöðinni RFD.
Gentle Giants er þáttaröð um dráttarhesta á bandarísku sjónvarpsstöðinni RFD. Þáttastjórnendurnir Pam Minick og Kadee Coffman ákváðu að ferðast til Íslands til þess að kynna sér íslenska hestinn og fjalla um hann í sérstökum þætti, sem var sýndur í mars.
 
 
Pam, sem er líka framleiðandi þáttaraðarinnar, útskýrir að þótt íslenski hesturinn sé töluvert smærri en hestarnir sem eru venjulega í kastljósi Gentle Giants (af kynjunum Clydesdales, Percherons og Belgians, t.d.), er íslenski hesturinn sterkur og oft notaður til að draga kerrur og vagna, svo tæknilega séð er hægt að flokka hann sem dráttarhest líka. Hana langaði líka að koma til Íslands vegna þess að hún á ættir að rekja þangað.
 
Í þættinum, sem er 20 mínútna langur, er viðtal við Jelenu Ohm, verkefnastjóra Horses of Iceland. Hún talar m.a. um kosti íslenska hestsins og metnaðarfullt starf Hólaskóla. Pam og Kadee heimsækja einnig Eldhesta til að fræðast um hestaferðamennsku og þjálfunarmiðstöð á höfuðborgarsvæðinu til að fylgjast með því þegar hestar eru þjálfaðir fyrir keppni.
 
Gentle Giants er vinsælasti hestaþátturinn á RFD TV, en á hann horfa 250.000 manns á viku að meðaltali.
 
Hér er hægt að horfa á þáttinn.

Deila: