Markaðsverkefnið Horses of Iceland hefur gert nýjan fjögurra ára samning við ríkið og eitt af fyrstu verkefnum þess eftir að nýi samningurinn var undirritaður, er að kynna íslenska hestinn á stærstu hestasýningu Evrópu, Equitana í Essen í Þýskalandi.

Sýningin er haldin á tveggja ára fresti og hana sækja að jafnaði um 200 þúsund manns. Hún stendur frá 7. – 13. apríl n.k. og hún hefur notið gríðarlegra vinsælda um árabil og í ár verður haldið upp á 50 ára afmæli hennar.

Á kvöldsýningum Equitana verður sýnt atriði með íslenska hestinum og kemur sá hópur frá Lixhof, og einnig verður glæsilegt myndband frá Horses of Iceland sýnt á 90 m löngum skjá og mun það sjónarspil vekja gríðarlega athygli þúsunda gesta, enda kvöldsýningarnar óhemju vinsælar.  

Horses of Iceland er með bás á svæðinu (Bás 6G43) og er í fyrsta sinn í samstarfi við Íslandshestasambandið (IPZV) í Þýskalandi.

Síðasta dag sýningarinnar, þann 13. apríl er svo Hrímnir Isi Cup, sem er keppni íslenskra hesta og þessi dagur verður í heild sinni tileinkaður íslenska hestinum. Keppnin hefst kl. 15:00 í höll 5. Það er ljóst að íslenski hesturinn mun koma sterkur inn á Equitana í ár og vekja mikla athygli sýningargesta.   

 

Texti: Hilda Karen Garðarsdóttir

Deila: