Árið 2019 var samdráttur í ferðaþjónustu í fyrsta skipti í mörg ár, en þá fækkaði ferðamönnum sem sóttu landið heim um 14,1% miðað við árið 2018, úr 2.343.800 í 2.013.200. Þróun hestaferðaþjónustu hefur hins vegar verið önnur, en hlutfall erlendra ferðamanna sem fer á hestbak hefur aukist milli ára, frá 9,3% árið 2018 til 9,8% árið 2019.
Í fyrra fóru því nærri 200.000 erlendir ferðamenn í reiðtúr eða hestaferð á Íslandi samkvæmt fyrstu tölum frá Mælaborði ferðaþjónustunnar, gagnabanka sem Ferðamálastofa heldur utan um (staðfestar tölur fyrir 2019 verða gefnar út í apríl). Af þeim sem fóru í hestaferð árið 2018 sögðust langflestir, eða 9 af 10, vera mjög ánægðir með ferðina. Horses of Iceland hefur það eftir samstarfsaðilum sínum sem bjóða upp á hestaferðir að margir þeirra ferðamanna sem fara í ferð með þeim komi aftur seinna, jafnvel ár eftir ár.
Með Íslandshestum á leið í Víðidalstungurétt. Mynd: Louisa Hackl.
Hestar hafa töluverð áhrif á ferðahegðun erlendra ferðamanna. Samkvæmt Mælaborði ferðaþjónustunnar sögðu 91,3% ferðamanna sem komu til Íslands árið 2018 íslenska náttúru vera meginástæðu fyrir komunni. Í 3,1% tilvika nefndi fólk hesta sérstaklega í því samhengi.
Ingibjörg Sigurðardóttir lektor í Ferðamáladeild Háskólans á Hólum tók saman ýmis gögn fyrir Horses of Iceland um hestamennsku og -ferðaþjónustu í fyrra (og uppfærði snemma í ár). Hún skilgreinir hestatengda ferðaþjónustu sem ekki aðeins hestaleigur og -ferðir, heldur einnig aðra þjónustu sem tengist reiðmönnum, hestum, ímynd, afurðum og sögu hestsins.
Ef horft er lengra aftur í tímann hefur orðið stórfelld aukning á fjölda ferðamanna sem nýta hestatengda ferðaþjónustu á síðustu tveimur áratugum; frá 41.791 árið 2002, til 120.150 árið 2014 til 287.000 árið 2018. Árið 2014 var áætluð velta hestaleiga og hestaferðafyrirtækja 2,5-3 milljarðar, en 7-8 milljarðar 2018. Það ár má einnig áætla að erlendir ferðamenn hafi keypt hestavörur fyrir um 127 milljónir króna, samanborið við 60 milljónir árið 2014.
Slakað á eftir langan dag í reið í ferð um hálendið með Riding Iceland. Mynd: Gunnar Freyr Gunnarsson.
Hvað varðar hestatengda viðburði ber hæst Landsmót hestamanna sem haldið er annað hvert ár og laðar að 8-10 þúsund manns, en einn þriðji þeirra eru erlendir gestir. Varlega áætlað er meðaleyðsla erlendra gesta á Landsmóti fyrir utan gistingu 30.041 kr. á dag og því er talið að efnahagsleg áhrif Landsmóts 2016 hafi verið um 160 milljónir án afleiddra áhrifa. Landsmót var síðast haldið í Reykjavík árið 2018 og í júlí í ár stendur til að halda Landsmót á Hellu.
Í skýrslu sinni bendir Ingibjörg á að ætla megi að hross séu hlutfallslega mikilvægari fyrir íslenskan efnahag og byggðaþróun en í öðrum löndum vegna þess að hér eru fleiri hross á hvern íbúa en annars staðar og umtalsverð hestatengd starfsemi víða um land. Samkvæmt tölum frá 2013 eru hérlendis 240 hross á hverja 1000 íbúa. Til samanburðar eru 32 hross á hverja 1000 íbúa í Svíþjóð, en þar er hæsta hlutfall hrossa innan Evrópusambandsins.
Horses of Iceland verkefnið hefur skapað samstarfsvettvang innan hestamennskunnar sem ekki var til staðar áður en verkefnið kom til og staðið fyrir sameiginlegu kynningarátaki. Reynsla og fræðilegar rannsóknir hafa sýnt að samstarfs- og markaðsverkefni geta skilað miklum ávinningi og en þá aðeins ef þau eru nægilega fjármögnuð og til langs tíma.
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Gunnar Freyr Gunnarsson og Louisa Hackl.