Fleiri hross voru flutt út fyrstu þrjá mánuði ársins 2020 en á sama tímabili nokkuð annað ár síðasta áratug. Hrossaútflytjandi segir engar hömlur á útflutningi á hrossum frá Íslandi til þeirra áfangastaða.

Á fyrsta ársfjórðungi 2020 voru 494 hross flutt úr landi: 169 í janúar, 157 í febrúar og 168 í mars. Samanlagt eru þetta 70 fleiri hross en flutt voru út á fyrsta ársfjórðungi 2019, eða 17% aukning milli ára. Árið 2019 voru 424 hross flutt úr landi: 120 í janúar, 132 í febrúar og 172 í mars. Þetta kemur fram í samantekt frá WorldFeng, upprunaættbók íslenska hestsins.

Fleiri hross voru flutt út fyrsta ársfjórðung 2020 en á sama tímabili nokkuð annað ár síðasta áratug. Það má því segja að árið í ár hafi farið vel af stað hvað útflutning varðar, þótt rétt sé að geta þess að í tölunum frá mars 2020 eru 27 hross sem flutt voru út í rannsóknarskyni (sjá grein um þróun bóluefnis við sumarexemi hér).

„Það hefur veirð fínt að gera,“ staðfestir Eysteinn Leifsson hjá Export Hestum. Hann bætir við kíminn: „Þetta eru einu lifandi verurnar sem fá að fljúga á milli landa. Við megum þakka fyrir það!“ Eysteinn útskýrir að einstaklingar erlendis geti ekki ekið milli landa til að sækja hrossin sín sjálfir, megi flutningafyrirtæki keyra með þau yfir landamæri. Fólk getur því keypt hross frá Íslandi og látið flytja þau nánast hvert sem er, þrátt fyrir ferðatakmarkanir sökum COVID-19 faraldursins. „Nema fólk getur ekki komið til Íslands til að prófa hross sem er að hamla sölu á dýrustu hestunum,“ bendir Eysteinn á. Auk þess hefur Landsmóti verið aflýst, en mikil sala fer fram í kringum það. „Ég verð mjög glaður ef við verðum á pari við síðasta ár. Við getum varla farið fram á meira.“

Árið 2019 var besta árið í hrossaútflutningi í níu ár, en þá voru 1509 hross flutt úr landi, fleiri hross en nokkuð annað ár síðasta áratug að 2010 undanskildu. Í fyrra – og einnig árin á undan – fóru langflest hross, eða 640, til Þýskalands. Þar á eftir kom Svíþjóð með 224 hross og Danmörk með 172 hross.

Virðist markaðurinn hafa verið í nokkurri sókn síðustu ár. Ætla má að markaðsstarf Horses of Iceland (HOI), sem stofnað var til árið 2015, gæti skipt máli í því samhengi. Í Þýskalandi og á Norðurlöndunum eru sterkustu markaðarnir fyrir íslenska hesta og HOI hefur einmitt haft þá í forgangi í markaðsstarfi, auk þess að sækja á aðra og nýja markaði.

„Það er klárt mál að Horses of Iceland hjálpar gríðarlega mikið til við að vekja athygli á hestinum á heimsvísu. Þetta er verðmætt, að vera í sameiginlegu markaðsátaki. Ein og sér hefðum við [hagsmunaaðilar] ekki þetta afl eða þennan sýnileika sem Horses of Iceland hefur sannarlega veitt okkur,“ segir Eysteinn. „Við sjáum líka hvað fólk fylgist mikið með – hvað verkefnið hefur marga fylgjendur á samfélagsmiðlum – sem styður við markaðsstarfið. Auk þess er farið á sýningar. Allt er gert á faglegan og flottan hátt.“

Þann 2. apríl síðastliðinn var samstarfssamningur HOI og íslenska ríkisins formlega framlengdur um 18 mánuði þegar Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og fulltrúar verkefnisins skrifuðu undir framlengdan samning á fjarfundi. Verið er að vinna að nýjum langtímasamningi.

Í fyrra fjallaði Morgunblaðið um útflutningsverðmæti íslenskra hrossa, sem var að meðaltali einn milljarður á ári síðasta áratuginn. Meira má lesa um það hér.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. 

Deila: