Sprotafyrirtækið HorseDay hefur þróað samnefnt smáforrit sem ætlað er að verða miðpunktur samfélagsins um íslenska hestinn.

Með forritinu fæst yfirsýn yfr þjálfun hestsins og umhirðu hans frá degi til dags. Auk þess býður forritið upp á beina tengingu við WorldFeng og GPS skráningu á hestaferðum líkt og margir þekkja sem nota Strava til að skrá hreyfingu sína. HorseDay er samstarfsaðili WorldFengs og er smáforritið  beintengt við gagnagrunn þeirra og  þegar prófíll er stofnaður fyrir hest eru upplýsingar um hann sóttar beint í WorldFeng.

Hugmyndin að HorseDay fæddist í hesthúsi þar sem hestafólk er vant að skrá daglega umsjón og þjálfun hesta á tússtöflum. En þegar töflurnar voru svo þurrkaðar töpuðust upplýsingarnar sem voru m.a. tegund þjálfunar, fóðrun, járningar, lyf og önnur dagleg umhirða.

Meðal stofnenda smáforritsins eru feðgarnir Ólafur H. Einarsson og Oddur Ólafsson. Oddur segir að það séu mikil tækifæri í því að bæta virkni forritsins og upplifun notenda enn frekar. Hann nefnir gangtegundagreiningu, en HorseDay verður fyrsta smáforritið sem getur greint allar gangtegundir íslenska hestsins án aukabúnaðar.

Ólafur H. Einarsson, einn stofnenda HorseDay segir að teyminu hafi tekist að búa til nýjung sem leysir þarfir hestaeigenda á skemmtilegum og hagnýtan hátt.

„Við sem stöndum að þróun hugbúnaðarins erum hestafólk, reiðmenn, ræktendur, bæði áhugamenn og atvinnufólk úr geiranum, sem sá að þessa lausn vantaði,“ segir Ólafur.

Oddur Ólafsson, framkvæmdastjóri HorseDay tekur í sama streng og bætir við:

„Við ætlum að verða leiðandi smáforrit fyrir íslenska hesta á Íslandi en líka á heimsvísu. Við höfum nú náð vissum áfanga í þróuninni og fannst tímabært að kynna smáforritið fyrir markaðnum jafnvel þótt við séum langt frá því að vera komin á leiðarenda."

Smáforritið hefur notið styrkja frá Tækniþróunarsjóði, Stofnverndunarsjóði íslenska hestakynsins og Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

HorseDay er fáanlegt á App Store og Google Play.

 

Texti: Hilda Karen Garðarsdóttir

Myndasafn

0 0 0 0 0 0 0 0

Deila: