Listaverkabókin HESTAR á erindi til allra hesta- og listunnenda. Hún er lýsandi fyrir list og líf Péturs Behrens og brennandi ástríðu hans fyrir íslenska hestinum. HESTAR er safn teikninga og málverka Péturs af hestum og landslagi á rúmlega 200 blaðsíðum og með hverju verki fylgir sérsniðin lýsing listamannsins á viðfangsefni og tækni. „Ég hef haldið um 20 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga,“ segir Pétur. „Ég var búinn að safna og taka saman verk sem ég vildi gjarnan sýna breiðara hópi manna en sýningarsalur tekur og þá kviknaði hugmyndin, að gefa út bók.“
Táknmynd fyrir íslensku hrossaræktina.
HESTAR, sem kom fyrst út árið 2016, er á þremur tungumálum, íslensku, ensku og þýsku, og hentar þannig innlendum sem erlendum lesendum. Það var Bókstafur, lítið forlag á Egilsstöðum, sem gaf bókina út. „Þetta er semsagt rammaustlenskt framtak,“ segir Pétur, en hann býr með konu sinni Mariettu Maissen á Finnsstaðaholti fyrir utan Egilsstaði. Þar hafa þau komið sér upp góðri aðstöðu með nýju hestúsi og reiðskemmu. Síðan 2015 hafa þau leigt vinnustofu og sýningarrými á Egilsstöðum, en Marietta er einnig listamaður.
Hver er Pétur Behrens?
Pétur Behrens er öllum hestamönnum kunnur, enda á hann langan og glæstan feril að baki sem tamningamaður, keppnisknapi og hrossaræktandi. Hann er einnig þekktur myndlistamaður og margir kannast við verkin hans. En hver er saga hans?
Á Skugga frá Hvítárbakka á Fjórðungsmótinu, Hellu, 1976. Mynd: Sigurgeir Sigurjónsson.
Pétur fæddist í Þýskalandi árið 1937 og ólst upp í litlu þorpi sunnan við Hamborg. „Ég er stríðsbarn og því var frístundargaman og hestamennska eins langt frá okkar tilveru eins og hugsast getur. Það snerist allt um að lifa af, deyja ekki úr hungri eða verða fyrir sprengjuárásum,“ útskýrir Pétur, inntur eftir því hvort hann hafi haft áhuga á hestum sem barn. Einu hestarnir sem hann sá voru dráttarhestar bænda. „Síðan kemur það til á unglingsárum mínum að kona í Hamborg að nafni Ursula Schaumburg vinnur fyrir innflutningsfyrirtæki sem er í viðskiptasambandi við Ísland. Hún heimsækir landið oftar en einu sinni, sér þar hesta og kynnist þeim. Það verður til þess að hún gerist innflytjandi á íslenskum hestum – sá fyrsti í Þýskalandi.“ Þannig kynntist Pétur hestamennsku og íslenskum hestum, þá 16-17 ára. „Nágrannar mínir keyptu tvo, en innflytjandinn var vinur þeirra. Hún var þar allar helgar og geymdi þar innfluttu hrossin sem biðu nýrra eigenda.“ Pétur fékk að fara á bak mörgum þeirra. „Þá gerðist eitthvað,“ segir hann og hlær. „Og ég ekki laus við þetta enn!“ Hann náði fljótt tökum á reiðmennskunni. „Ég var í fimleikum í skólanum og við skólafélagarnir tókum þátt í keppni og urðum m.a. Hamborgarmeistarar. Þessi íþrótt hjálpaði mér mikið upp á jafnvægi og skilning á hreyfingum. Ef einhver íþrótt er góður undirbúningur fyrir reiðmennsku, þá eru það fimleikar.“
Pétur hafði frá blautu barnsbeini mikinn áhuga á myndlist, þó hann væri ekki af listafólki kominn. Seinna meir var hann heppinn með kennara sem áttaði sig á hæfileikum hans og hvatti hann til dáða. Pétur fór í framhaldsnám í myndlist og útskrifaðist með besta lokaprófið úr Meisterschule für Grafik í Berlín árið 1960. „Þar fékk ég reyndar mitt fyrsta gullmerki,“ segir Pétur og glottir.
Pétur hefur enn jafn mikla ástríðu fyrir hestamennsku. Mynd: Karin Gerhartl.
Afdrifarík Íslandsferð
Árið 1959 datt Pétri og vini hans í hug að ferðast til Íslands sem var þá töluvert sjaldgæfara og flóknara en í dag. Markmiðið var að vinna sér inn peninga fyrir náminu. Þeir fóru með flutningaskipi frá Hamborg til Noregs og áfram til Íslands. Félagarnir ferðuðust um allt landið, fengu vinnu hér og þar, meðal annars unnu þeir við síldarvinnslu á Siglufirði, í byggingarvinnu við Borgarspítalann og á togaranum Norðlendingi. Pétur var kyndari og vinurinn vann á dekki. Þeir hrifust af gestrisni Íslendinga, en í þessari ferð sáu þeir hestana einungis út um rútuglugga á ferð með Norðurleið.
Á leið yfir Melrakkasléttu árið 1959.
Land og þjóð – og íslensku hestarnir sem hann hafði kynnst í Þýskalandi – heilluðu Pétur svo mikið að hann ákvað að ferðast aftur til Íslands og árið 1963 settist hann að í Reykjavík, fyrst um sinn. Hann vann þar á auglýsingastofu Gísla B. og keypti sinn fyrsta hest.
Upphaf tamningaferilsins
Þegar Pétur einn góðan veðurdag sá auglýsingu í blaði um að það vantaði tamningamann í Vestur-Húnavatnssýslu greip hann tækifærið og sótti um starfið, þrátt fyrir litla reynslu á sviði frumtamninga. Svo leið og beið og Pétur heyrði ekkert af afdrifum umsóknarinnar.
Pétur og Jóhann M. Jóhannsson. Mynd: Michael Simmat.
„Síðan gerist það að maður sem ég kynntist hjá Fáki býður mér heim til sín í kaffi. Þetta var elskuleg fjölskylda. Hann spyr og spyr og segir síðan: „Þú hefur svarað auglýsingu um starf.“ Mér brá mikið því hvernig gat hann vitað það? Svo kom í ljós að bóndinn sem hafði auglýst starfið var frændi þessa góða manns, sem seinna varð mikill vinur minn. Hann hafði skrifað frænda sínum og sagt honum að einn maður hefði sótt um starfið, en að það væri útlendingur, og bað hann um að líta á gripinn!“ Pétur fékk meðmæli og var ráðinn í starfið.
„Ég hafði sem sagt frekar litla reynslu af frumtamningum, en var orðinn ágætlega reiðfær á íslenskum hestum og ég var ungur maður sem treysti sér. Það hjálpaði til við meðmælin að ég hafði keypt ótaminn hest sem var ódæll og ég hafði tamið hann og það gekk ljómandi vel.“ Pétur bætir við að það hafi ekki verið óvenjulegt á þessum tíma að ráða einhvern, þó hann hefði ekki tamið marga hesta, á meðan hann hafði brennandi áhuga. Pétur fór því norður að Efra-Vatnshorni. „Svo kemur raunveruleikinn: Vetur á Norðurlandi, vont veður, styggir hestar og jafnvel hrekkjóttir.“ En Pétur stóðst eldraunina, hafði reiðkennslubókina eftir þýska reiðmeistarann Müseler á náttborðinu til vonar og vara og var ráðinn á fleiri bæi í framhaldinu.
Auglýsingareið SÍS með Reyni Aðalsteinssyni. Mynd: Sigurgeir Sigurjónsson.
Hestamennska, myndlist, skrif og þýðingar
Pétur kynntist fyrri konu sinni, Ragnheiði Sigurgrímsdóttur árið 1966, en Ragnheiður átti þátt í því að innleiða klassíska reiðmennsku á Íslandi. Ragnheiður og Rosmarie Þorleifsdóttir höfðu farið til Þýskalands og numið þar reiðmennsku í hinum virta reiðskóla í Warendorf. Þær stofnuðu í kjölfarið sinn reiðskólann hvor á Íslandi, þar sem þær kenndu nýja tækni, sem er reyndar byggð á margra alda gamalli klassískri reiðhefð.
Heimili Ragnheiðar og Péturs, Keldnakot í gamla Stokkseyrarhreppi, var um tíma ein af miðstöðvum reiðmennsku og tamninga á Íslandi. Pétur tók þátt í stofnun Félags tamningamanna árið 1970 og er heiðursfélagi FT. Pétur vann B-flokkinn á fjórðungsmóti Vesturlands árið 1970 og á Evrópumótinu í Sviss árið 1973 átti hann sæti í landsliði Íslands. Eftir það var hann nokkrum sinnum liðstjóri íslenska landsliðsins. Meðfram hestamennskunni kenndi Pétur myndlist við MHÍ (Myndlista-og handiðaskóla Íslands, sem varð seinna Listaháskóli íslands) og Myndlistarskóla Reykjavíkur og vann ótrauður að listsköpun sinni. Fyrstu einkasýninguna hélt hann árið 1976.
Pétur á Skugga frá Hvítárbakka á Fjórðungsmóti, Hellu, árið 1976.
Pétur kom að stofnun Eiðfaxa, en fyrsta tölublaðið kom út árið 1977. Pétur hefur skrifað ótal greinar og pistla, auk bókar um tamningar. Hann myndskreytti hina sígildu „Bláu Bíblíu“ eftir Rostock. Pétur og Marietta hafa skrifað og þýtt fjölda faggreina og bóka um íslenska hestinn. Má þar nefna stórvirkin Íslenski hesturinn eftir Gísla B. Björnsson og Hjalta Jón Sveinsson og Vatnagarpar eftir Jens Einarsson. Þau þýddu einnig Eiðfaxa International í rúmlega 20 ár og eiga stóran þátt í að koma íslenska hestinum á framfæri hérlendis og erlendis.
Árið 1986 keypti Pétur og Marietta jörðina Höskuldsstaði í Breiðdal og unnu þar sem listamenn, þýðendur, hrossaræktendur og tamningamenn til ársins 2010, en þá fluttu þau til Finnsstaðaholts fyrir utan Egilsstaði. Þar stunda þau hestamennsku og í vinnustofunni á Egilsstöðum vinna þau að list sinni. Pétur undirbýr nú útgáfu safns portrettmynda.
Pétur og Marietta á Höskuldsstöðum í Breiðdal. Mynd: Flurina Barandun.
Gullmerki LH fyrir framlag sitt til hestamennskunnar
Áhrif Péturs á íslenska hestaheiminn eru ótvíræð og árið 2010 hlaut hann gullmerki LH fyrir framlag sitt til hestamennskunnar. „Þegar ég hugsa til baka er þetta viðurkenning á því að það var sennilega rétt ákvörðun að koma hingað til Íslands, kynnast hestum og hestamönnum, huga samtímis að myndlistinni og reyna að vinna með góðum félögum að því að gera reiðmennsku á íslenskum hestum betri og skemmtilegri,“ segir Pétur. „Þetta var mikil áhætta, að hverfa frá starfsframanum sem grafískur hönnuður og listamaður þar og heima í Þýskalandi þótti ég stórskrítinn. Þau sögðu: „Ætlar þú virkilega að flytja til Ísland? Guð minn góður!“ Nú finnst mér stundum erfitt að skilja Þjóðverja. Ég skil Íslendinga miklu betur og mig dreymir á íslensku“, segir Pétur og hlær.
Á vefsíðu Pétur peturbehrens.com má panta verk eftir hann og bókina HESTAR. Hún er einnig fáanleg í vefverslun Bókstafs.
Horses of Iceland tekur þátt í kynningu bókarinnar.
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Úr einkasafni. Mynd í vefborða: „Jöklasýn“ eftir Pétur Behrens.