Undanfarin ár höfum við alltaf farið í hestaferð í Viðidalstungurétt með Íslandshestum, en í ár prófuðum við nýju ferðina þeirra: Laufskálarétt!
Ferðin var á vegum Hauks frá Hvammi 2 í Vatnsdal og hentaði vönum reiðmönnum. Dagarnir voru passlega langir og við sáum fallegt og fjölbreytt landslag og skemmtum okkur konunglega saman.
Á fyrsta degi, komudegi okkar, borðuðum við hádegismat og kynntumst aðeins áður en við héldum af stað í fyrstu dagleiðina okkar. Við riðum meðfram strandlengjunni við Hópið og hestarnir skemmtu sér konunglega við að hlaupa í sandfjörunni. Við enduðum daginn á bænum Stóru-Borg þar sem hestarnir voru um nóttina. Á leiðinni til baka í Hvamm stoppuðum við við gamla víkingavirkið Borgarvirki. Við nutum kvöldsins í heita pottinum og slökuðum á fyrir ferðalagið næsta dag.
Á öðrum degi, sem var fallegur og sólríkur haustdagur, riðum við í gegnum birki og berjalyng og höfðum frábært útsýni yfir Hópið, vatnið sem við riðum yfir stuttu seinna. Hestarnir voru viljugir og flestir í hópnum óvanir því að fara langa leið ríðandi yfir vatn. Við komum heim í tæka tíð til að hvíla okkur áður en við fórum í reiðhöllina á Sauðárkróki þar sem skagfirskir knapar og ræktendur settu saman stórkostlega og mjög skemmtilega hestasýningu.
Morguninn eftir var farið nokkuð snemma á fætur og farið með einn reiðhest á mann í Kolbeinsdal í Skagafirði. Við fórum í fallegan reiðtúr í átt að Hjaltadal þar sem við sáum stóðið sem var rekið niður úr fjallinu. Þegar við komum að Laufskálarétt settum við upp girðingu fyrir hestana okkar og fórum svo að fylgjast með réttarstörfum.
Laufskálarétt er stærsta stóðrétt hér á landi. Hún fer fram í Hjaltadal á Norðurlandi ár hvert síðustu helgina í september. Viðburðurinn nýtur mikilla vinsælda meðal ferðamanna en dregur einnig að sér marga íslenska áhorfendur og aðstoðarmenn. Hestafólk hvaðanæva að úr heiminum kemur til Norðurlands til að njóta íslenskrar hestamenningar eins og hún gerist best. Hundruðir gesta safnast saman við Laufskálaréttina og það er ótrúlegt að hugsa til þess hvernig allir þar deila sömu ástríðu fyrir íslenska hestinum.
Það var nánast yfirþyrmandi að sjá hundruð fallegra hesta á einum stað og mjög skemmtilegt að fylgjast með flokkuninni. Hver bær er með sinn eigin dálk í réttinni og allir hjálpast að við að flokka stóðið. Margir bændur þekkja hestana sína af útliti, en auðvitað eru þeir líka örmerktir og sumir þeirra eru með frostmerki til auðkenningar.
Þegar búið er að flokka stóðið í dilka, byrja bændur og aðstoðarmenn þeirra að fara með þá heim. Sumir nota hestakerrur en flestir reka hestana bara heim. Einn af öðrum fara þeir heim á leið og hægt er að fylgjast með þeim úr bílnum á leiðinni heim. Búðu þig undir smá umferðarteppur af völdum íslenskra kúreka – þeir enda yfirleitt ekki partýið í réttinni heldur halda áfram heima!
Hvort sem þig langar að heimsækja hina frægu Laufskálarétt eða ákveða að fara í eða jafnvel taka þátt í minni rétt, þá getum við ábyrgst að það verður stuð! Það er hámark tímabilsins hjá bændum sem senda ungviði sitt á fjall yfir sumarið og betri innsýn í íslenska hestamenningu er ekki til.
Hægt er að fara í stóðréttir á eigin vegum, en ef þú vilt taka þátt eða bara sameina þær almennt við ævintýri á hestbaki, þá getum við mælt með því að skoða mismunandi ferðir sem Íslandshestar bjóða upp á.
Texti og myndir: Louisa Hackl
Íslenskur texti: Hilda Karen Garðarsdóttir