FEIF Tour Rider Cup, alþjóðleg keppni Frístundareiðdeildar FEIF, hefst 1. maí, á Alþjóðlegum degi íslenska hestsins. Hestamenn frá öllum heimshornum geta skráð sig til leiks.

Frístundareiðdeild FEIF ætlar að halda alþjóðlega keppni í sumar sem knapar í öllum aðildarlöndum geta tekið þátt í. Keppnin, sem nefnist FEIF Tour Rider Cup, hefst 1. maí. „Við völdum Dag íslenska hestsins sem upphafsdag keppninnar vegna þess að í venjulegu árferði eru margir viðburðir haldnir á þessum tíma og hefð er fyrir því að ríða út í maí og fagna komu „grænu“ árstíðarinnar,“ segir Christian Eckert, formaður frístundareiðdeildar FEIF.

Mynd: Elisabeth Wetzstein.

„Markmið okkar er að búa til alþjóðlega keppni fyrir frístundaknapa. Okkur langar sérstaklega til þess að gefa hestamönnum sem búa á svæðum þar sem ekki eru margir íslenskir hestar (ennþá) tækifæri til þess að upplifa samkenndina í samfélagi íslenska hestsins. Einnig viljum við styrkja tilfinningu fólks fyrir samkennd í útreiðatúrum,“ bætir hann við.

Hægt er að vinna sér inn stig á þrjá vegu:

  • Með því að skrá alla reiðtúra sem eru 90 mínútur eða lengri (í mesta lagi tvo á viku).
  • Skipuleggja hópreið (a.m.k. fimm manns) með opnu boði.
  • Birta umfjallanir um reiðtúrana á netinu eða í prentmiðlum.

Skráningar fara fram í gegnum sérstakt forrit á vef FEIF.

Hægt er að skrá sig til leiks á vefsíðu FEIF, en keppninni lýkur í lok október. Í lok tímabilsins, á ráðstefnu FEIF, verður farið yfir úrslitin og sigurvegararnir tilkynntir. Þeir sem vinna sér inn flest stig hljóta viðurkenningu.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Mynd í vefborða: Ulrike Roosen-Runge.

Myndasafn

0 0

Deila: