Eiðfaxi International hefur gengið í endurnýjum lífdaga og nú sem frítt rafrænt tímarit. Það mun koma út sex sinnum á ári og fjalla um íslenska hestinn og hestamennsku á Íslandi. Í hverju blaði er urmull viðtala við knapa og ræktendur, frétta af sýningum og keppnum, ferðasagna og flottra mynda.
Forsíða 1. tölublaðs Eiðfaxa International 2021. Mynd: Liga Liepina.
„Þetta er ákveðin landkynning – og hesturinn er landkynning í sjálfu sér,“ segir ritstjóri Eiðfaxa International, Hilda Karen Garðarsdóttir. „Við leggjum mikið upp úr myndum og erum í samstarfi við nokkra ljósmyndara. Við viljum vekja athygli með góðu efni og góðum myndum, ekki bara af hestum heldur af náttúrunni,“ bætir hún við.
„Á Íslandi höfum við þá sérstöðu að hafa bara eitt hrossakyn og þess vegna verðum við að gera okkur ennþá stærri úti í heimi þar sem er meiri samkeppni milli hestakynja,“ útskýrir Hilda. „Við þurfum stöðugt að kynna kosti hestsins okkar, gangtegundirnar, stærðina og geðslagið, sem okkur þykir nokkuð einstakt. Við viljum koma fréttunum út og fáum góða auglýsendur með okkur heima og erlendis.“
Mynd: Bjarney Anna.
Eiðfaxi á sér langa sögu. Tímaritið var stofnað árið 1977 og hefur síðan þá komið íslenska hestinum og hestamennsku á framfæri heima og erlendis. Eiðfaxi International hefur verið gefinn út á prenti og sendur til áskrifenda um allan heim í um 30 ár með hléum og nú hefst nýr kafli í útgáfusögu blaðsins.
Hægt er að lesa fyrsta tölublaðið og skrá sig í áskrift að fría rafræna tímaritinu hér. Hægt er að hafa samband við ritstjórann með því að senda Hildu póst: hilda@eidfaxi.is.
Vefsíða Eiðfaxa International er í þróun og mun styðja við rafræna tímaritið. Eiðfaxi er einnig á Facebook og Instagram.
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Úr fyrsta tölublaði Eiðfaxa International. Mynd í vefborða: Gígja Einarsdóttir.