Eiðfaxi býður hestaunnendum nær og fjær að fylgjast með ræktunarsýningu sem nefnist „Vorkvöld í Reykjavík“ og verður haldin á Fákssvæðinu í Víðidal laugardaginn 8. maí og sýnd í beinu streymi. Dagskráin hefst kl. 17:00.
„Vorkvöld í Reykjavík verður með svipuðu sniði og dagurinn sem heppnaðist svo vel í fyrra og hét þá Ræktunardagur Eiðfaxa,“ segir Gísli Guðjónsson, ritstjóri Eiðfaxa. „Margir frábærir knapar hafa boðað komu sína með hross í fremstu röð.“
Sigurbjörn Bárðarson and Eldur frá Torfunesi á Ræktunardegi Eiðfaxa í fyrra.
Þeirra á meðal verða Sindri frá Hjarðartúni, sem í fyrra hlaut 8,75 fyrir hæfileika, 8,25 fyrir sköpulag og 8,58 í aðaleinkunn, aðeins 5 vetra gamall, Askur frá Enni undan Loka frá Selfossi og Sendingu frá Enni, sem vakið hefur athygli fyrir fas og fótaburð, og Hylur frá Flagbjarnarholti, sá stóðhestur sem hlotið hefur hæstu einkunn fyrir sköpulag frá upphafi, 9,09.
Eiðfaxi er kominn í samstarf við ProMynd sem mun sýna beint frá viðburðinum og hægt verður að kaupa aðgang að útsendingunni fyrir 16 evrur. Einnig verður hægt að horfa á sýninguna eftir á með lýsingum á íslensku eða ensku.
Áhorfendur geta mætt á svæðið í samræmi við þær fjöldatakmarkanir og sóttvarnarreglur sem verða í gildi. Fyrirkomulag verður auglýst á eidfaxi.is.
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir frá Ræktunardegi Eiðfaxa 2020: Gunnar Freyr Gunnarsson.