Horses of Iceland efndi til myndbandakeppni á TikTok til að fagna Alþjóðlegum degi íslenska hestsins 1. maí. Sigurvegarinn er Andre Samplawski, en myndbandið hans fékk 440.000 „like“.

Við hjá Horses of Iceland óskum Andre Samplawski (@soerviandbjoern á TikTok) innilega til hamingju með að hafa sigrað myndbandasamkeppni okkar á TikTok, sem var haldin í tilefni af Alþjóðlegum degi íslenska hestsins 1. maí. Samtals bárust 57 myndbönd í keppnina og myllumerkið #dayoftheicelandichorse fékk 23,5 milljónir áhorf!

Andre, sem er kennaranemi, býr í Bæjaralandi í Þýskalandi. Fjölskylda hans á búgarð með 40 íslenskum hestum. „Ég hrífst af geðslagi hestsins og sérstökum gangtegundum íslenska hestsins, tölti og skeiði. Á TikTok birti ég eitthvað efni um alla hestana mína og ég reyni að búa til fyndin myndbönd með íslenskum hestum. Núna hef ég fengið um 21.000 fylgjendur á tveimur vikum og ég ætla að reyna að búa til fleiri myndbönd með íslenskum hestum.“

Sigurmyndbandið, af leikfangahesti sem virðist breytast í fullvaxta hest þegar Andre hellir vatni á hann, hlaut 440.000 „like“, meira en nokkurt annað myndband sem sent var inn í keppnina. „Ég varð mjög hissa vegna þess að myndbandið hefur núna fengið fleiri en 21 milljónir áhorf og það er klikkað!“ segir hann.

Í verðlaun hlýtur hann: Beisli frá Hrímni, ársáskrift að fræðslusamfélaginu Ask Guðmar á netinu og ársáskrift að Alendis.

Verkefnastjóri Horses of Iceland, Jelena Ohm, segir: „Við viljum vekja athygli ungu kynslóðarinnar á íslenska hestinum. Þar sem hún er ekki lengur á Facebook þurfum við að færa okkur um set og í dag er TikTok einn af vinsælustu netmiðlunum fyrir börn. Þar höfum við stórkostlegt tækifæri til þess að ná til gríðarlega margra áhorfenda með léttu og skemmtilegu efni sem við getum þróað yfir í eitthvað meira fræðandi með tímanum. Við erum mjög ánægð með útkomu fyrsta viðburðarins okkar á TikTok. Hugmyndin er að fá Íslandshestasamfélagið til liðs við TikTok-hreyfinguna og saman getum við sýnt heiminum hvers okkar heittelskaði hestur er megnugur.“

Á þeim fjórum vikum síðan Horses of Iceland hóf vegferð sína á TikTok hafa 13 myndbönd verið birt og hafa þau til samans fengið 975 „like“. Fylgjendur eru 278 talsins og myllumerkið #horsesoficeland hefur hlotið 25 milljónir áhorf!

Fylgdu okkur á TikTok og horfðu á öll myndböndin sem voru send inn í keppnina á #dayoftheicelandichorse.

Deila: