Alendis TV og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ætla að hefja samstarf um að sýna allar kynbótasýningar sumarsins vítt og breytt um landið í beinu streymi. Markmiðið er að gera íslenska hestinn sýnilegri og koma honum á framfæri á fleiri markaðssvæðum.
„Við hjá Alendis eru gífurlega stolt af þessu samstarfsverkefni. Við teljum þetta framfararskref fyrir hestamennskuna í heild sinni. Ræktendur hérlendis og erlendis hafa nú allir sömu tækifæri til að kynna sér þau hross sem eru í boði til ræktunar. Núna verða kynbótadómar ekki bara tölur á blaði heldur er til sýning sem hægt er að fletta upp,“ segir Edda Hrund Hinriksdóttir, verkefnastjóri Alendis TV.
Um er að ræða um 70 sýningardaga frá 5 völlum víðsvegar um landið frá 31. maí til 20. ágúst. Fyrsta kynbótasýningar sumarsins verða á Hellu, mánudaginn 31. maí, og Hólum, miðvikudaginn 2. júní.
Alendis TV sýnir einnig beint frá Reykjavíkurmeistaramótinu, Fjórðungsmótum, Íslandsmóti fullorðinna, Íslandsmóti barna og unglinga og fleiri viðburðum. Hægt verður að horfa á þessa viðburði í beinu streymi eða fletta þeim upp eftir á.
Þeir sem hafa áhuga á að kaupa myndband af sínum uppáhaldshesti geta haft samband við sales@alendis.is, en hver klippa kostar 4.900 kr. (33 evrur). Til að fylgjast með streymi á Alendis TV er hægt að kaupa áskrift eða dagspassa. Frekari upplýsingar og dagskrána má finna hér.
Fylgist einnig með Alendis TV á Instagram.
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Mynd frá Ræktunardegi Eiðfaxa 2020: Gunnar Freyr Gunnarsson.