Árið 2012 var gerð tímamótauppgötvun á genamengi íslenska hestsins þegar tveir rannsóknarhópar í Svíþjóð, Lindgren G og Anderson L, fundu „skeiðgenið“ svokallaða, stökkbreytingu í DMRT3 erfðavísinum sem gerir hesta móttækilega fyrir skeiði.

„Þetta var stór uppgötvun,“ segir Laura Bas Conn, dýralæknir og meistaranemi í dýraræktunar- og erfðafræðideild sænska landbúnaðarháskólans (Sveriges lantbruksuniversitet). „Uppgötvunin sýndi fram á að hestar sem hafa tvöfalt eintak af stökkbreyta geninu geta skeiðað og einnig náð betri árangri í öðrum gangtegundum. Næsta skref er að komast að því hvaða aðrir erfðatengdir þættir koma við sögu.“

Frá því í janúar hefur Laura rannsakað erfðafræðina á bakvið frammistöðu í skeiðkappreiðum íslenskra hesta. Markmið hennar er að komast að því hvort stökkbreytingar þriggja erfðavísa (MSTN, GRIN2B og DOCK8) hafa áhrif á frammistöðu í skeiðkappreiðum. „Þetta er á algjöru byrjunarstigi og allt getur breyst. En þetta er fyrstu niðurstöðurnar sem við getum byggt á fyrir stærra verkefni, sem verður doktorsverkefnið mitt,“ tekur Laura fram. Hún hélt fyrirlestur um fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar á Landsmóti í júlí síðastliðnum.

„Ég hef mjög mikinn áhuga á frammistöðu hesta í íþróttum, lífeðlisfræði vöðva, líkamanum og huganum, og íslenskir hestar sem keppa í skeiðkappreiðum eru fullkomin viðfangsefni,“ bætir Laura við, sem var áður í hestamennsku. „Þegar ég var yngri tók ég þátt í hindrunarstökki. Ég hef farið á bak íslenskum hestum en þar sem ég hef alltaf riðið stórum hestum var ég frekar fákunnug um reiðmennsku á íslenskum hestum. En mér fannst mjög skemmtilegt að tölta,“ segir hún og brosir.

Einn af þeim þremur erfðavísum sem rannsóknarhópur Lauru hefur skoðað, er MSTN (Myostatin) genið, eða þrjú stökkbreytt afbrigði þess, sem reyndust skipta máli fyrir frammistöðu veðhlaupahesta. „Þegar í ljós kom að þau höfðu áhrif á frammistöðu Thoroughbred veðhlaupahesta stukku allir til og tóku að rannsaka önnur hrossakyn,“ segir Laura. En þessi tilteknu afbrigði virðast engin áhrif hafa á íslenska hesta. Þótt eitt þeirra reyndist hafa veika tengingu við skeið höfðu hin tvö engin áhrif og því grunar rannsakendur að afbrigðin þrjú hafi ekkert með frammistöðu íslenskra hesta í skeiðkappreiðum að gera. Nú er hægt að útiloka MSTN genið úr rannsókninni og einbeita sér að öðrum genum sem gætu haft áhrif á árangur í skeiðkappreiðum.

Laura og rannsóknarteymið hennar grunar að það sé munur á vöðvatrefjunum eftir því hvort hestar séu aðeins notaðir fyrir skeiðkappreiðar eða hvort þeir séu aðallega þjálfaðir fyrir fimmgang en keppa í skeiðkappreiðum af og til. „Við höldum að þegar hestar keppa oft í fimmgangi tapa þeir kraftinum sem þeir þurfa til þess að spretta vegna þess að það er sérstök tegund vöðva sem býr til sprengikraft í stuttan tíma í einu.“ Hún útskýrir að þegar hestur er aðallega þjálfaður fyrir hringvallagreinar sem krefjast loftháðs úthalds en keppir aðeins stöku sinnum í skeiðkappreiðum er ólíklegt að hann geti náð framúrskarandi árangri vegna þess að þjálfunin breytir vöðvatrefjunum.

Annar erfðavísir sem rannsóknin beinist að, er GRIN2B, eða það sem teymið kallar „viljagenið“. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að stökkbreytta afbrigðið gerir hesta einbeittari og metnaðarfyllri í að bæta frammistöðu sína. „Sumir hestar fara í uppnám ef aðrir taka fram úr þeim og fara yfir í stökk. Okkur langar til þess að tengja hæfni hestsins til að einbeita sér og ekki stökkva upp við annað hvort afbrigðið; okkur grunar að það sé stökkbreytta afbrigðið sem kom í ljós í fyrstu niðurstöðum,“ útskýrir Laura.

Þriðji erfðavísirinn er DOCK8, sem skiptir máli í þróun hreyfigetu og samhæfingu vöðva. Það eru tengsl milli gensins og ónæmissjúkdóma, sem Lauru langar að kanna hvort tengist krónískri streitu í keppnum. Streita skaðar ónæmiskerfið og þetta gen gæti átt þátt í því, þar sem kappreiðar geta valdið hestum streitu. „Við höfum ekki fengið neinar afgerandi niðurstöður varðandi frammistöðu en kannski breytist það eftir því sem við rannsökum fleiri hesta.“

Laura hefur nú safnað fleiri sýnum, bæði hröðum og hægum skeiðurum. „Síðan vonum við að við getum borið niðurstöðurnar saman við afganginn af stofninum til þess að komast að því hvort það sé munur á hröðu skeiðurunum og öllum hinum,“ útskýrir hún. Eigendur fylla líka út spurningalista. Laura bendir á að ekki aðeins gen skipta máli fyrir frammistöðu hests í skeiðkappreiðum, heldur einnig margir aðrir þættir, s.s. þjálfun og aldur hestsins þegar þjálfun hefst. Þess vegna er spurningalistinn mikilvægur líka.

Spurð út í æðri tilgang rannsóknarinnar, svara Laura: „Í sambandi við „viljagenið“ höldum við að við höfum komist að einhverju mikilvægu. Hestar sem hafa þetta gen hafa sérstaka skapgerð. Hest sem hentar ekki fyrir skeiðkappreiðar er hægt að þjálfa til annars. Þetta skiptir einnig máli fyrir dýravelferð, að finna þá tegund þjálfunar sem hentar hverjum hesti fyrir sig svo að þeir geti verið hamingjusamir þegar upp er staðið.“

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Úr safni Lauru Bas Conn.

Gallery

0 0 0 0 0 0 0

Share: