Hestaeigendum á Íslandi er umhagað um að koma þeim skilaboðum á framfæri til ferðamanna að það geti reynst hættulegt að klappa útigangshrossum eða fóðra þau; til eru staðir þar sem hægt er að nálgast hross á öruggan hátt og með leyfi.
Fólk á ferð um landið kemst ekki hjá því að dást að litríkum hestum á beit eða í leik á túnum við þjóðveginn. Þótt ferðamenn megi gjarnan horfa á hrossin (eftir að hafa lagt í öruggri fjarlægð frá umferð) þyrftu þeir hugsa sig tvisvar um áður en þeir klappa þeim, eða það sem verra er, að fara inn fyrir girðinguna og gefa þeim.
Áhyggjur af velferð hrossa í hólfum hafa vaknað meðal hestaeigenda samhliða auknum fjölda ferðamanna sem koma til Íslands og þeir biðla til fólks um að viðra eigur þeirra. „Ég myndi ekki fara inn á einkalóð í Þýskalandi, til dæmis, og klappa hundum sem aðrir eiga,“ segir Brynja Eldon, hestaeigandi í Þorlákshöfn. Hún veltir því fyrir sér hvers vegna sumum finnist í lægi að fara inn á afgirt svæði og klappa eða gefa hestum annarra. „Kannski vegna þess að við erum svo líbó með flesta hluti eða vegna þess að aðgengið er svo gott. Kannski halda þeir að hestarnir séu villtir?“
Brynja Eldon.
Þegar Brynja heyrði af því að hestur hefði veikst vegna einhvers sem ferðamaður hafði gefið honum, fann hún sig tilneydda til þess að birta tilmæli á Facebook um hvernig eigi að haga sér nálægt hestum. „Vinsamlegast aldrei fóðra hesta án samþykkis eigenda. Það sem þú gefur þeim getur orsakað veikindi ... Meltingarfæri þeirra eru mjög viðkvæm,“ skrifar hún. Íslenskir hestar eru oft ekki vanir þeim mat sem telst eðlilegur meðal annarra hrossakynja. „Ég vann á Fákaseli og hjón frá Ameríku spurðu hvort þau mættu gefa hestunum myntubrjóstsykur. Ég varð steinhissa og sagði: „Nei, sykur er óhollur fyrir þá,“ en þau sögðust alltaf gefa sínum hestum brjóstsykur.“
Ferðamenn geta líka verið í hættu. Þótt íslenskir hestar séu alla jafna skapgóðir og vinalegir geta þeir bitið, slegið, stigið á tær eða hlaupið einhvern niður þegar þeir eru að keppa um góðgæti. Venjulega er slíkri hegðun beint gegn öðrum hrossum frekar en mönnum, en í stóru stóði geta orðið slys. „Þeir læra líka að vera frekir og taka upp óásættanlega hegðun, sem getur seinna valdið slysi á reiðmanni. Síendurteknar heimsóknir ferðamanna inn í beitarhólf geta eyðilagt [verðmæta] þjálfun sem við, hestaeigendurnir, höfum borgað fyrir, og valdið slysum seinna meir,“ skrifar Brynja.
Einnig er vert að benda á að fólk sem fer í leyfisleysi inn fyrir girðingar gæti gleymt að loka hliðum eða gera það ekki nógu vel. Þannig geta hross sloppið, mögulega hlaupið út á veg og átt á hættu að slasa sig og aðra. „Þegar er mikill snjór og þú gengur upp á skaflinn og yfir girðinguna, þá gætu hrossin fylgt fótsporum þínum til baka eftir að þú ert farinn,“ skrifar Brynja og bætir við: „Á Íslandi eigum við margar verðmætar ræktunarmerar, geldinga og stóðhesta. Við þurfum að fá að hafa hestana út af fyrir okkur og hlúa að þjálfun þeirra og velferð.“
Brynja deildi innleggi sínu með Facebook-hópnum „ICELAND – tips for travellers“ („ÍSLAND – ráðleggingar fyrir ferðamenn“) og á einum mánuði var það skoðað 50.000 sinnum. Tjámerki (e. „emoji“) sem viðbrögð við skrifum hennar voru um 1.000 á sama tíma og athugasemdir, sem eru jákvæð að lang stærstum hluta, 139. Margir hafa deilt innleggi Brynju og kallað eftir því að ráðleggingar hennar verði gerðar aðgengilegar víðar og á fleiri tungumálum.
Anna Carolina skrifaði t.d.: „Mjög fróðlegt og mikilvægt innlegg. Gangi þér vel í þínu starfi. Við elskum öll dýr; við skulum sjá til þess að þau séu heilbrigð og örugg.“ William Cooper þakkaði Brynju fyrir að gefa sér tíma til að koma þessum upplýsingum á framfæri og Rhonda Murphy skrifaði: „Takk fyrir að láta okkur vita hvar er hægt að sjá íslenska hesta. Það er einn af hápunktunum fyrir mér og mig langar að gera það á réttan hátt.“
Sem betur fer eru margir staðir á Íslandi þar sem fólk getur fengið að hitta hesta og klappa þeim, m.a. á Fákaseli. Í Sólvangi fyrir utan Selfoss er boðið upp á heimsóknir í hesthús þar sem hægt er að komast í návígi við hesta. Á Gullna hringnum milli Geysis og Gullfoss er bærinn Brú, þar sem boðið er upp á að kaupa grasköggla, gefa hestum og klappa þeim. Hrossa- og tómatabúið Friðheimar heldur hestasýningar og býður upp á heimsóknir í hesthús. Nálægt Hellu er Icelandic Horse World. Í Borgarfirði nálægt Hraunfossum er hrossabúið Sturlureykir sem býður upp á heimsóknir. Í Reykjavík er hægt að heilsa upp á hestana í Húsdýragarðinum og teymt er undir börnum á ákveðnum tímum. Í Fnjóskadal í nágrenni við Akureyri er Daladýrð, lítill húsdýragarður þar sem einnig er hægt að klappa hestum.
Fyrir þá sem vilja fara á bak eru ótal staðir sem bjóða upp á lengri og styttri reiðtúra og hestaferðir, m.a. þeir ferðaþjónustuaðilar sem eru taldir upp hér.
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Brynja Eldon og úr safni.