Hermann Árnason, fyrrverandi bóndi á Heiði í Mýrdal, Stöðvarstjóri hjá Sláturfélagi Suðurlands á Selfossi og nú frjótæknir og hrossaræktandi á Hvolsvelli, lét draum sinn um að klára að ríða „í stjörnu“ um landið þvert og endilangt rætast í sumar, en enginn hefur riðið allar þessar leiðir áður. Hann lagði af stað 27. júní og var kominn aftur heim á Hvolsvöll 19. ágúst.
Hermann hafði lengi gengið með þá hugmynd í maganum að ríða milli allra ystu odda landsins. „Sumir stunda fjallgöngur og klífa fjallstinda og það er af því að fjallið er þarna,“ sagði Hermann í Morgunútvarpi Rásar 2 þegar hann var inntur eftir ástæðu þessarar miklu hestaferðar. „Þetta er áratuga hugdetta sem að ég fékk … ásamt öðrum, og hef notið þeirra gæða að geta framkvæmt þær.“ Árið 2016 reið hann fyrstu tvo áfangana, eða „helminginn af stjörnunni“. Þá reið hann með föruneyti sínu frá heimabæ sínum Vík í Mýrdal, norður Kjöl og að Hrauni á Skaga og hafði þá dregið línu í gegnum landið frá suðri til norðurs. Næst var að ríða á ská frá norðvestri til suðausturs, frá Skálavík yst í Ísafjarðardjúpi út á Ingólfshöfða sunnan Vatnajökuls.
Í fyrra tók Hermann hlé frá stjörnureiðinni, en reið seinni tvo áfangana í sumar. Fyrst lá leiðin út á Reykjanes og frá Reykjanestá í suðvestri að Fonti á Langanesi í norðaustri. Síðan lá leiðin frá Dalatanga þvert í gegnum hálendið, út allt Snæfellsnesið að Öndverðarnesi, vestasta odda þess. Þá var stjarnan fullkomnuð, en Hermann var ekki tilbúinn til að stíga af baki, heldur reið Löngufjörur í 17 manna hópi áður en hann lét keyra hestana heim.
Með í för vor þrír reiðmenn sem fylgdu Hermanni alla leiðina. Sigríður Magnúsdóttir, eiginkona hans, reið með stóran hluta leiðarinnar og ýmsir kunningjar og vinir komu og fóru.
„Yfirleitt voru sex ríðandi. Þetta gekk gríðarlega vel og enginn hestur datt út,“ sagði Hermann í viðtali við Horses of Iceland. Hrossin voru 42. Veðrið var líka þokkalegt, hvorki mikið um sól né hlýindi, en þó þurrt að mestu leiti. Hópurinn var í reið í um 45 daga í sumar og Hermanni reiknast til að þau hafi riðið um 50 km á dag að meðaltali.
Hann hefur sérstaka fóðurköggla meðferðis. „Ég hef komist að því að það sem helst skortir hjá ferðahestum er salt, sérstaklega í heitu veðri.“ Árið 2016 fékk hann Grétar Hrafn Harðarson dýralækni og Erlend Jóhannsson hjá Fóðurblöndunni í lið með sér við að þróa fóður með fjölbreyttum steinefnum og calsíum klóríði. Útkoman var Ferðaþokki með 4% söltum. Eitt kíló á dag fullnægir saltþörf langferðahrossa.
„Skipulagið er langstærsti þátturinn í þessum ferðum,“ segir Hermann. „Hvíldardagar, járrningar, gistingar, matur handa fólkinu… þetta þarf allt að harmónera saman.“ Jeppi með trússkerru fylgdi reiðmönnunum með vistir fyrir fólkið og nauðsynlegan útbúnað. Gist var í skálum flestar nætur og aðeins eina í tjöldum.
„Þegar ég undirbý leiðir fylgir gríðarleg yfirlega yfir kortum og eftir atvikum samtöl við menn sem þekkja til,“ bætir hann við. Vegalengdir þarf að mæla, hann þarf að reikna út fóðurþörf hrossanna og sjá til þess að hey sé flutt á áningarstaði. Erfiðast var að koma heyi að Gæsavötnum, en vottun þurfti til þar sem heyið var flutt þangað frá Suðurlandi.
Þrátt fyrir stranga reið nutu hestar og menn ferðinnar og umhverfisins. Í föruneyti Hermanns voru, í viðbót við Sigríði og íslenska vini og kunningja, nokkrir Svisslendingar. „Þeirra upplifun er sterkust, að finna getu okkar hests og geta riðið á tölti alla daga, alla áfanga, er nokkuð sem þeim finnst mjög merkilegt.“ Víðáttan heillar einnig. Hermann segir fjórfættu vini hans ekki síður ánægða. „Það er ótrúlegt að upplifa hvað þeir virðast hafa gaman af þessu líka. Þeir fylgja mér allavega hvert sem er og ég þarf aldrei áhyggjur af því að þeir fari aðra leið en forreiðin.“
Efir að ferðinni lauk var Hermanni þakklæti efst í huga. „Tilfinningin er alveg stórgóð. Fyrst og síðast þessi gríðarlega góða tenging gagnvart náttúrunni og hestinum, þessari skepnu, hvað hún er tilbúin að gera fyrir mann og hvað hún getur er alveg með ólíkindum.“ Hann þakkar einnig öllu því fólki sem greiddu götu hans, buðu reiðmönnunum gistingu og tóku á móti stóðinu. „Það er alveg magnað hvað ég hef kynnst ógrynni af góðu fólki og hjálpsömu.“ Hversu áfallalaust þetta mikla ferðalag gekk fyrir sig styrkti einnig trú hans á almættið. „Þetta gerir mig óneitanlega enn meira forlagatrúa, að ég standi ekki alveg einn í þessu heldur hafi ákveðna verndarengla og hjálparkokka að handan.“
erðir á hestum eru ekki í bígerð eins og er. „Ég lofaði sjálfum mér og fjölskyldunni að nú væri þetta orðið ágætt. Ég búinn að fá að gera svo margt og svala mestu ævintýraþránni.“ Þó mun hann ekki alveg segja skilið við hestaferðir. „Ég reikna með að ferðast meira með sjálfum sér og viðra meira trússtöskurnar og vera engum háður.“
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir.
Myndir: Úr safni Hermanns.