Ameríski jólasveinninn á hreindýr sem fljúga með hann um himininn, en íslensku jólasveinarnir 13 þurfa að ösla í gegnum djúpan snjóinn frá hellinum sínum í Dimmuborgum til mannabyggða. Þessi mikla ganga reynist Stekkjastaur, jólasveininum sem kemur fyrstur, sérstaklega erfið, vegna þess að hann er með staurfætur og hann hefur ekki beint liðkast með árunum.
Þann 11. desember, síðastliðinn, þegar Stekkjastaur var á leið til byggða, ákvað hann að koma við á sauðfjárbýli sem á vegi hans varð. Hann sárverkjaði í fæturna og var að sligast undan nýþunga gjafapokanum – auk þess var hann þyrstur og langaði í ærmjólk. Stekkjastaur var sérstaklega hrifinn af ærmjólk, en honum tókst þó sjaldnast að ná kindunum á staurfótunum sínum.
Þannig var það líka í ár. Stekkjastaur datt um koll þegar hann var að eltast við ærnar og beint ofan í forina. Þegar honum tókst loks að skríða á fætur, tók hann eftir vingjarnlegum hesti í stíu við hliðina á fjárhúsinu, sem var loðinn að sjá í vetrarfeldinum sínum. Þá mundi hann eftir laginu „Folaldið mitt, hann Fákur“ þar sem jólasveinninn fær hest til að draga sleðann sinn í stað hreindýra. Úti var byrjað að snjóa og hvessa – það leit út fyrir að snjóstormur væri í vændum.
Kindabröltið hafði tafið Stekkjastaur og nú óttaðist hann að hann kæmist ekki til byggða í tæka tíð. Folinn hneggjaði og Stekkjastaur ímyndaði sér að hann vildi spjalla. Hann gekk að stíunni og klappaði klárnum klaufalega. „Hvað segir þú, Fákur?“ – en honum fannst hann ætti að heita Fákur eins og folaldið í laginu. „Getur þú borið mig til byggða?“ Hesturinn hneggjaði aftur og Stekkjastaur ákvað að það þýddi: „Já“. Hann sleppti Fáki úr stíunni, tók upp pokann sinn og reyndi að sveifla sér á bak. Honum að óvörum stóð Fákur grafkyrr; það var miklu auðveldara að eiga við hann en þessar leiðinda kindur! Eftir ítrekaðar tilraunir tókst Stekkjastaur loks að setjast á bak. Hann hafði aldrei riðið hesti áður og var frekar taugastrekktur. Hann hélt sér fast í faxið á Fáki með annarri hendi og í pokann sinn með hinni, gaf honum síðan merki með fótunum um að hann vildi fara af stað og sagði: „Hott, hott! Farðu með mig til byggða!“
Fákur hljóp umsvifalaust af stað, út úr hesthúsinu, niður brekku og beinustu leið til móts við ljósin í bænum. Stekkjastaur hélt sér dauðahaldi í faxið er élin flugu í andlitið á honum og hann hossaðist upp og niður. Oft var hann við það að missa jafnvægið – og pokann. Fákur stökk yfir tún og yfir skurði; Stekkjastaur fann að hann var í lausu lofti og emjaði í angist sinni. Hann var farinn að sjá eftir þessu villta ævintýri sínu, en einhvern veginn tókst honum að halda sér á baki. Allt í einu voru þeir komnir á leiðarenda og Fákur staðnæmdist svo skyndilega að Stekkjastaur rann af baki, beint ofan í snjóskafl, og pokinn lenti ofan á honum.
Þegar Stekkjastaur hafði áttað sig á því að hann væri ómeiddur og hafði jafnað sig á versta áfallinu, klöngraðist hann skjálfandi á fætur og fálmaði ofan í pokann sinn. Hann vissi að hann hefði stungið brauðbita í hann... „Þarna!“ kallaði hann upp yfir sig þegar hann fann brauðið. Hann færði Fáki það og strauk honum blíðlega. „Takk fyrir farið,“ hvíslaði hann í eyra nýja vinar síns. Fákur át brauðið græðgislega og hneggjaði að skilnaði áður en hann sentist aftur heim á bæinn. Stekkjastaur horfði á hestinn hverfa inn í hríðina og veifaði á eftir honum áður en hann staulaðist af stað með gjafapokann sinn. Morguninn eftir höfðu öll börn fengið glaðning í skóinn sinn, þökk sé Fáki.
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir.
Myndir: Gunnar Freyr Gunnarsson.