Íslenskur hestur hjálpar ungri konu við að halda einkennum heilalömunar í skefjum og keppa við hlið ófatlaðra knapa í efstu deild.

Cecilia Rosell, sem býr nálægt Óðinsvéum í Danmörku, æfir sig næstum daglega á íslenska hestinum sínum, Abel, til að komast inn í T2 keppnina. „Við erum svo nálægt því! Okkur vantar bara örfá stig!“ segir hún spennt. Þau hafa tekið þátt í mörgum fjórðungsmótum saman og unnið til verðlauna í T4 slaktaumataölti og fjórgangi. Árið 2017 gerði leikstjórinn Caroline Jensen stutta heimildarmynd um Ceciliu og hestinn hennar, sem heitir Mit liv med Abel. Þar sést hvernig Cecilia ríður Abel berbakt og án beislis í fullkomnu jafnvægi. Það er erfitt að ímynda sér að Cecilia þjáist í raun af heilalömun.



Við tökur myndarinnar.

„Þegar ég var eins og hálfs árs sögðu læknarnir foreldrum mínum að ég myndi sennilega aldrei ganga,“ segir Cecilia. Foreldrar hennar höfðu heyrt að það gæti hjálpað hreyfihömluðum börnum að fara á hestbak og ákváðu að láta á það reyna. Móðursystir hennar æfði dressúr með fötluðum knöpum og móðurfólkið hennar hafði átt hesta, þannig að þeim fannst sjálfsagt að stúlkan fengi að fara á bak. Fyrsti reiðskjótinn var belgískur dráttarhestur og mamma Cecilu sat fyrir aftan hana. „Ég var eins og fluga á fílsbaki!“ hlær hún. Það kom fljótlega í ljós að það var góð þjálfun fyrir Ceciliu að fara á hestbak og hún lærði að ganga, en til að byrja með var hún með spelku á öðrum fætinum. Í dag getur hún gengið allt að einn kílómetra á góðum degi, en er oftast örþreytt á eftir. Að ríða út er besta meðferðarúrræðið. „Það eru hreyfingar hestsins. Að ríða á hesti þjálfar svo marga litla vöðva sem ég myndi annars aldrei þjálfa. Ég hef reynt sund, að æfa á líkamsræktarstöð og ótal aðrar íþróttir, en engin önnur íþrótt gerir það sama fyrir mig.“ Smám saman gat Cecilia setið óstudd á baki, hún sótti reiðnámskeið og æfði dressúr á dönskum reiðhesti. En þótt þessi ástundun héldi Ceciliu í formi var stærð hestsins til vandræða, hún gat t.d. ekki lagt á sjálf, og æfingarnar kröfðust mikillar orku. „Hesturinn var allt of stór og ég gat ekki riðið oftar en einu sinni eða tvisvar í viku.“ Síðan þurfti Cecilia að skila dressúr-hestinum sínum aftur til eigandans og fór í heimavistarskóla í þrjá mánuði. „Ég var í hjólastól allan tímann og tók 16 verkjatöflur á dag. Samt fann ég fyrir svo miklum verkjum að ég var nokkrum sinnum send á bráðamóttökuna. Ég komst að því að það var ómögulegt fyrir mig að stunda ekki hestamennsku. Það var of sársaukafullt og ég hafði enga löngun til þess að sitja í hjólastól.“

Þegar þarna var komið sögu hafði móðursystir Cecilu byrjað að ríða íslenskum hestum og var hæstáægð. Vinkona Cecilu hafði séð íslenskan hest auglýstan til sölu sem hún taldi að myndi henta henni fullkomlega, „Hún sagði: „Þú verður að sjá þennan hest!“ Í hjarta mínu var ég ennþá dressúr-reiðmaður og langaði til að keppa. En hesturinn var aðeins í hálftíma fjarlægð og úr varð að ég hafði samband við eigandann. Og síðan hitti ég Abel. Það verða fimm ár í febrúar.“ Cecilia bað frænku sína að koma með sér vegna þess að hún vissi ekkert um íslenska hesta, fyrir utan það að þeir hafa fimm gangtegundir. „Hún stökk á bak og reið honum og hann bara hljóp á fullu. Síðan fór ég á bak og hann gekk ofurhægt og tók pínulítil skref.“ Cecilia og Abel náðu saman um leið og það var eins og hann skynjaði að hann þyrfti að fara varlega með hana á baki. Það stóð ekki til að Cecilia keypti hest því hún var ekki orðin 18. ára og gat ekki tekið út sparipeningana sína. „En ég bara varð að fá peninga að láni til kaupa þennan hest!“

Perluvinir! Mynd: Katja Jensen.

Þetta var upphafið að fallegri vináttu. Vegna þess að Cecilia getur ekki notað fæturna til gefa hestinum bendingar eins og reiðmenn gera yfirleitt, þurfti hún að þjálfa Abel til þess að bregðast eingöngu við rödd hennar. Þegar hún er úti í reiðtúr getur hún treyst honum til þess að stökkva upp brekku og nema staðar efst uppi þegar hún biður hann um það. Hún hefur líka kennt honum alls konar brellur og Abel er fljótur að læra því hann er mjög hrifinn af namminu sínu! Hann virðist vita hvers Cecilia þarfnast, jafnvel án þess að hún biðji hann um það. „Ég þarf bara að sækja beislið og þá beygir hann hausinn svo að ég geti beislað hann án þess að nota of mikla orku. Hann er svo klár.“ Og hann hugsar vel um vinkonu sína. Þegar henni líður illa, fetar hann löturhægt. Það er margreynt að reiðtúr með Abel er besta meðferðin fyrir Ceciliu. „Eins og í dag [17. nóvember], leið mér mjög illa. Mér var illt í mjóbakinu. Það er mjög kalt úti núna og kuldinn fer illa í skrokkinn á mér. Ég þurfti nauðsynlega að komast á bak, þannig að ég fór bara af stað án þess að nota neinn búnað og reið tvo hringi og mér leið betur í bakinu um leið. Þegar ég get ekki gengið gerir hann það fyrir mig og virkjar vöðvana.“

Aðspurð að því hver sé helsti kosturinn við íslenska hesta, stendur ekki á svörum: „Töltið. Ekkert jafnast á við það. Ég get alltaf farið í reiðtúr sama hversu illa mér líður vegna þess að hesturinn passar upp á mig og ég missi aldrei jafnvægið á tölti.“ Gangtegundin var þó Ceciliu ókunn þegar hún keypti Abel og það tók svolítin tíma fyrir þau að ná tökum á henni. „Allar hinar gangtegundirnar eru mjúkar líka. Núna erum við að vinna í brokkinu,“ bætir hún við. Vinalegt eðli hrossakynsins er einnig kostur. „Nú hef ég hitt marga íslenska hesta og þótt enginn sé eins og Abel virðast þeir allir hafa eitthvað sérstakt, sérstakt rólyndi sem engir aðrir hestar hafa.“ Abel hefur hjálpað öðrum líka, eins og systur Ceciliu sem var mjög hrædd við að ríða út til að byrja með en keppir núna við hlið systur sinnar. „Hann getur verið hinn mesti viljahestur á keppnisbrautinni og töltað ótrúlega hratt en þegar þess er þörf er hann sallarólegur.“ Cecilia lánar Abel stundum sem meðferðarhest. „Það kom einu sinni stelpa til okkar sem var mjög fötluð, alveg bundin við hjólastól, og í upphafi hélt ég í hestinn og tveir aðstoðarmenn þurftu að styðja hana sitthvoru megin. En þegar meðferðinni lauk og hún þurfti að fara í heimavistarskóla var hún farin að sitja á baki alveg óstudd.“

Í keppnisskapi!

Cecilia vill gjarnan deila sögu sinni og Abels með öðrum í þeirri von að hjálpa fleirum sem glíma við fatlanir. Hún er með Facebook-síðu sem hún stofnaði daginn sem hún keypti Abel. Hún uppfærir hana reglulega og segir frá framförum þeirra. Aðspurð að framtíðaráætlunum sínum, segir hún: „Að halda reiðmennskunni áfram. Vonandi get ég deilt sögu minni með enn fleirum, um það hversu mikið hún hefur hjálpað mér og að ég sé að keppa í efstu deild. Fötlunin er mér engin fyrirstaða.“ Cecilia gleðst alltaf yfir því þegar hún heyrir af öðrum sem prufa að fara á hestbak vegna sögu hennar. „Það er gott að vita að ég geti veitt öðrum innblástur.“

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: CM Photography og Katja Jensen Photography.

Gallery

0 0 0 0 0 0 0 0 0

Share: