Það er vor í lofti og skúraleiðingar. Þetta er um miðjan mars og reiðnámskeið fyrir fólk með fötlun er að hefjast. Hestamennt, í samvinnu við Hestamannafélagið Hörð, býður upp á slík námskeið í reiðhöll Harðar í Mosfellsbæ sex sinnum í viku. Þátttakendur eru á öllum aldri, hafa ýmist andlega og/eða líkamlega fötlun, eða glíma við hrörnunarsjúkdóma eins og MS. „MS sjúklingarnir eiga margir erfitt um gang. Þeir ríða berbakt og nota ekki ístöð, heldur láta fæturna dingla og finna hitann frá hestinum. Þannig fá þeir hreyfingu upp allan hrygginn og fyrir þá er þetta næstum því eins og að ganga,“ segir Berglind Inga Árnadóttir, sem leiðir námskeiðin.
Þeir þátttakendur sem ráða við það, sækja reiðskjótana yfir í hesthúsið á móti reiðhöllinni, kemba þeim og leggja á, með aðstoð. Berglind hefur eina aðstoðarkonu á launum við að stjórna námskeiðunum, en hún nýtur einnig aðstoðar sjálfboðaliða til þess að teyma hestana og styðja við knapana. Þetta eru oftast nemendur úr grunn- eða framhaldsskólum sem fá starfið metið sem valáfanga. „Þetta styrkir leiðtogahæfni þeirra,“ segir Berglind. Stundum koma sjálfboðaliðar frá elliheimilum, fólk sem nýtur þess að vera innan um dýr og hefur ekki mikið fyrir stafni.
Það er nauðsynlegt að hafa einn til þrjá aðstoðarmenn með hverjum þátttakanda og því er hámarksfjöldi þátttakenda á hverju námskeiði fimm. Stundum fylgja aðstoðarmenn, eins og í tilfelli Sigga, sem er bundinn við hjólastól og getur ekki tjáð sig. Hann hefur sótt námskeiðin lengi. Með aðstoð lyftu er honum hjálpað á bak Stjörnu, sem stendur þolinmóð og bíður. Berglind á alla hestana sjálf og velur þá allra traustustu fyrir námskeiðin. Hnakkurinn er sérútbúinn og styður við bakið á Sigga, en Berglind og aðstoðarkona hans ganga með hestinum og styðja hann sitt hvoru megin.
Það er hellidemba og stjórnendur ræða hvort þau þurfi að vera inni í dag. En síðan styttir upp, eins og hendi sé veifað. „Þá förum við út og göngum einn hring fyrir næsta skúr,“ segir Berglind. „Við reynum alltaf að fara út, en endum venjulega inni í höllinni.“ Við göngum í einni halarófu eftir skeiðvellinum og þátttakendur njóta þess sýnilega að vera á baki úti í fersku loftinu. Siggi, sem áður hafði setið hokinn í hjólastólnum, réttir úr sér og fer að hreyfa hendurnar. „Hann er ekki svona inni,“ segir Berglind. „Það er eitthvað við útiveruna.“
Reynslubolti námskeiðsins, Sunnefa Geirhardsdóttir, 27 ára, ríður alveg óstudd. „Ég hef komið örugglega í 5-6 ár. Það er svo gaman að vera í kringum hestinn,“ segir hún. Reiðskjóti hennar er rauða merin Lipurtá. „Hún er mjög fín. Það gengur vel að stjórna.“ Fyrir utan þessi námskeið, tekur Sunnefa þátt í reiðnámskeiðunum sem Berglind heldur fyrir börn á sumrin. Hún ljómar þegar hún talar um þau. „Þá er gott veður og við getum verið úti allan tímann og farið í langan reiðtúr.“ Sunnefa segist vera hestakona. „Ó, já. Ég elska hesta!“
Eftir að hafa gengið hringinn úti er farið að dropa á ný. Við förum inn í reiðhöllina þar sem „þrautabraut“ bíður þátttakendanna. Sunnefa er spennt: „Jæja, áfram! Sjúbb, sjúbb!“ Ungmennin sækja annað hvort hring eða sandpoka og á öðrum stað þurfa þau að þræða hringinn upp á keilu og kasta sandpokanum í fötu. Þau þurfa líka að ríða á milli keilna. Eftir nokkra hringi breyta þau um stefnu og að endingu sækja þau hringina og sandpokana aftur og ganga frá þeim. „Þetta er til þess að þau hafi eitthvað að gera, stöðva hestinn og æfa jafnvægið,“ útskýrir Berglind.
Ávinningurinn er margs konar. Berglind tekur dæmi af ungum manni, Bjössa, sem er fjölfatlaður og notar hjólastól. Sem barn hafði hann mikla snertifælni. „Hann var alveg ómögulegur og mátti ekki koma við neitt sem var loðið,“ útskýrir Gylfi Björnsson, faðir Bjössa. „Eins þegar hann byrjaði á námskeiðinu fannst honum voða óþægilegt að strjúka hestunum.“ Berglind lýsir því hvernig reiðskjótinn, Gabríel, setti höfuðið í kjöltuna á Bjössa, sem að lokum fór að strjúka honum. Þeir urðu síðan mestu mátar. „Þeir eru rosalega miklir vinir. Það er stórkostlegt að fylgjast með því þegar þeir knúsa hvorn annan. Alveg ótrúlegt. Það er ofboðslega gaman af þessu námskeiði,“ segir Gylfi. Sonur hans hefur sótt námskeið Hestamenntar og Harðar í fjölda ára og nýtur þess greinilega. „Hann er í hörkustuði þegar hann fer á bak,“ segir Gylfi. Hreyfingin styrkir hann líka. Upphaflega þurfti tvo til að styðja Bjössa á baki, en núna þarf hann bara einn aðstoðarmann.
Berglind bætir við að námskeiðin henta einhverfum sérstaklega vel, en þeir virðast mynda tengsl við dýrin þótt þeir geti átt erfitt með að umgangast annað fólk. Hún leggur áherslu á að þótt líta megi á reiðnámskeiðin sem meðferð, er aðal tilgangur þeirra að hafa gaman. Eftir um 35 mínútna „reiðtúr“ er kominn tími til að stíga af baki. Sunnefa gengur sjálfsörugg með Lipurtá við hlið sjálfboðaliðanna og sleppir merinni í gerðið svo hún geti velt sér. Síðan kveður hún og aðrir þátttakendur einn af öðrum, glaðir í bragði.
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir.
Myndir: Gunnar Freyr Gunnarsson.