Pottaskefill er fimmti jólasveinninn sem kemur til byggða á hverju ári. Hann elskar að narta í matarafganga á heimilum fólks en þolir ekki að fara í flugvél...! Hvenær þarf jólasveinn svo sem að fara í flugvél? Jú, það kemur að þeirri stundu hjá öllum að þeir standi frammi fyrir áskorunum og þannig var það einmitt hjá kallinum honum Pottaskefli. En, byrjum á byrjuninni.
Orð Grýlu eru lög
Einn morgun vaknaði Pottaskefill á undan bræðrum sínum og staulaðist í mesta sakleysi sínu í morgunmat í eldhúsinu. Þar stóð Grýla uppi á stól og var að þrífa skápa, eða réttara sagt, hún var að sópa köngulær og mýs út úr þeim. Hún var fegin að sjá Pottaskefil sem sá strax eftir því að hafa látið sjá sig svona snemma.
„Jæja sonur sæll, nú verður þú að hjálpa mér væni minn. Við þurfum að sækja kjöt og kartöflur í jólamatinn í Reykkofann á Hellu við Mývatn í dag og ég get augljóslega ekki farið út í dagsbirtuna af því að ég er tröllskessa, svo ég sendi þig í staðinn,“ sagði Grýla ákveðin í tali. Pottaskefill þorði ekki fyrir nokkurn mun að andmæla þeirri gömlu, heldur kláraði hafragrautinn og bjó sig til fararinnar.
„Við treystum á þig að koma heim með jólahangikjötið,“ sagði Grýla þegar hún kvaddi son sinn og rétti honum nestispakka.
Blikk blikk og vælið
Pottaskefill sá fyrir sér fallegan dag í sveitinni, hann myndi bara skjótast heim að Hellu á vélsleðanum sem hann var með í láni hjá Mývatn Snowmobile, sækja matinn, borða nestið sitt og dóla sér til baka. Hann settist á sleðann, setti upp sólgleraugun og brunaði af stað. Eftir dálitla stund heyrði hann eitthvert væl fyrir aftan sig en hélt þó áfram á ógnarhraða því hann var að flýta sér. En vælið hætti ekki og þegar hann leit aftur fyrir sig sá hann blá blikkandi ljós. Þarna var lögreglan komin til að stöðva hann því hann keyrði svo hratt. Lögreglumaðurinn í bílnum bað Pottaskefil að stíga af sleðanum og koma yfir í bílinn sinn.
„Jæja Pottaskefill, þú keyrðir vélsleðann þinn alltof hratt og langt yfir leyfilegum hámarkshraða. Það er brot á umferðarlögunum og þess vegna get ég ekki leyft þér að halda áfram á sleðanum. Ég tek sleðann og geymi hann þangað til þú hefur hugsað þinn gang,“ sagði lögreglumaðurinn og setti sleðann á kerru og keyrði í burtu.
Sérkennilegar drunur
Nú var Pottaskefill í vandræðum. Hvernig myndi hann nú komast til að sækja jólamatinn? Pottaskefill labbaði eftir veginum og vonaðist eftir því að einhver keyrði framhjá sem gæti boðið honum far. En hann labbaði í marga klukkutíma án þess að nokkurt farartæki kæmi. Hann var orðinn þreyttur og svangur og settist niður við gamlan kofa til að borða nestið sitt og hvíla sig stundarkorn. Allt í einu heyrðust miklar drunur í lofti og Pottaskefill varð hræddur. Svo sá hann að drunurnar stöfuðu af einhverju sem sveif í loftinu og var að búast til að lenda á jörðinni rétt hjá honum!
„Nei hvað sé ég, er þetta ekki Pottaskefill?,“ sagði maðurinn sem steig út úr flygildinu. Maðurinn sá að Pottaskefill var skelkaður og útskýrði að hann væri flugmaður hjá Mýflug Air og þetta væri litla flugvélin hans sem hann hefði lent á flugvellinum við Mývatn. Flugmaðurinn spurði Pottaskefil hvers vegna hann væri kaldur og þreyttur á flugvellinum. Pottaskefill sagði honum frá atvikinu með lögregluna og sleðann og að nú kæmist hann sennilega ekki fyrir myrkur til að sækja jólamatinn fyrir Grýlu móður sína, sem yrði hoppandi brjáluð!
„Ég skil, það er nú hægt að komast leiðar sinnar á öðrum farartækjum en vélsleðum. Á ég ekki bara að skutla þér á flugvélinni minni?“ sagði flugmaðurinn vingjarnlegi. Pottaskefill var ekki hrifinn af þeirri hugmynd, enda hafði hann aldei farið í svona flugvél áður og var dauðhræddur við að svífa um loftin innan í málmhylki. En flugmaðurinn náði að sannfæra hann um að flugvélar væru mjög öruggur ferðamáti og þeir myndu fara eftir ströngustu lögum og reglum um flugumferð og stjórnun flugvéla og Pottaskefill lét tilleiðast. Það kom sveininum á óvart hversu gaman var að fljúga um loftin í flugvél. Hann sá allt fólkið sem var á gangi í Dimmuborgum og hann sá líka Jarðböðin við Mývatn þar sem margmenni var í jólabaðinu. Flugmaðurinn knái lenti vélinni á túni bóndans á Hellu og Pottaskefill þakkaði fyrir sig og hélt leiðangrinum áfram.
Hvernig kemst Pottaskefill heim?
Pottaskefill rölti heim að bæ þar sem honum var vel tekið og reiddi húsfreyjan fram hinar mestu kræsingar svo sveinki hreinlega slefaði og tók vel til matar síns.
„Hvernig ætlarðu nú að komast heim?,“ sagði Hildigunnur húsfreyja eftir að hafa hlustað á allar raunir Pottaskefils þennan dag.
Ja, sveinki var nú ekki búinn að hugsa út í það, því hann var svo glaður yfir því að hafa komist heill á húfi alla leið. En heimferðin var eftir og honum myndi ekki endast dagurinn ef hann færi fótgangandi.
„En ég verð að komast heim í dag, annars lætur Grýla mig finna fyrir því,“ sagði Pottaskefill skjálfandi og vorkenndi sér mikið að vera í svona vondum málum.
„Hafðu ekki áhyggjur kæri vinur, Guðjón bóndi og fleiri hér á bænum ætla að fara í aðventureiðtúr hér yfir vatnið eftir kaffið og þeir geta fylgt þér heim í Dimmuborgir,“ sagði Hildigunnur og studdi hönd sinni á öxl vesalings Pottaskefils sem leið þá ögn betur.
„En ég hef alltaf verið hræddur við hesta og kann ekkert á þá. Þeir eru heldur ekkert hrifnir af mér!“ sagði Pottaskefill og var aftur farinn að skjálfa.
„Það vill svo vel til vinur, að hann Snarfari minn er Mývatnsmeistari í tölti og hann er einstaklega þægur og góður hestur sem allir hafa gaman af að kynnast. Þér er óhætt að treysta því,“ sagði Hildigunnur og þar með var þetta ákveðið!
Pottaskefill skiptir um starfsvettvang
Þegar Pottaskefill kom út í hesthús blasti við honum stór og fallegur hestur sem stóð glansandi fínn og stoltur í stíunni sinni. Hann frísaði hátt og krafsaði í hurðina og var greinilega tilbúinn að láta kasta toppi og langaði mikið út að viðra sig í fallega veðrinu, enda saddur og sæll eftir morgungjöfina. Þetta var Snarfari.
„Nú vipparðu þér rólega og á bak Pottaskefill, og heldur mjúklega um taumana og setur fætur í ísstöðin. Svo siturðu bara afslappaður og nýtur þess að líða um á þessum mikla gæðingi“, sagði Guðjón bóndi og Pottaskefill hlýddi.
Hjartsláttur hans var hraðari en venjulega en hann var staðráðinn í að gera sitt besta og hlýjan frá Snarfara og fallegt auga hans hjálpaði mikið til. Sennilega var Pottaskefill tamningameistari í fyrra lífi því enginn í hópnum hafði séð þvílíka reiðsnilli. Snarfari tölti svo fallega undir sveinka og samspil þeirra var einstakt á að horfa og þeir náðu að laða fram það besta í hvor öðrum. Ef Pottaskefil langaði einhvern tímann að skipta um vinnu, þá fengi hann strax starf sem tamningamaður og þjálfari. Það var deginum ljósara!
Grýla fagnaði komu gestanna og var rosalega lítið pirruð yfir öllum hrakförum og heimskupörum sonar síns þennan dag. Snarfari hneggjaði til Pottaskefils að skilnaði sem laumaði jólaepli að vini sínum að launum fyrir reiðtúrinn.
Lesið meira um Jólasveinana í Dimmuborgum hér. Á vefsíðu Horses of Iceland má lesa skemmtilegar hestasögur um Stekkjastaur, Giljagaur, Stúf og Þvörusleiki.
Texti: Hilda Karen Garðarsdóttir. Myndir: Marcin Kozaczek / visitmyvatn.is