Zola Runsten vinnur við járningar í Svíþjóð og sérhæfir sig í íslenskum hestum. Hún er löggiltur járningameistari og hefur atvinnuleyfi frá sænska landbúnaðarráðuneytinu. Zola hefur mikla ástríðu fyrir starfi sínu. Nýlega byrjaði hún að smíða sínar eigin skeifur, sérhannaðar fyrir þarfir hvers hests.
Zola birtir reglulega myndir af hestum, hófum og skeifum, ásamt fróðleiksmolum um járningar, á Instagram – auk mynda af Pýreneahundinum sínum, Ými. Þrátt fyrir sérhæft viðfangsefni hefur Zola marga fylgjendur, fleiri en 18.000.
Horses of Iceland tók rjóða Zolu tali milli járninga á óvenju heitum maídegi í Svíþjóð.
Hvers vegna lagðir þú þetta starf fyrir þig?
Þegar ég var yngri keppti ég á [íslenskum] hestum, en járningamaðurinn okkar var vanur því að járna brokkhesta. Fyrsti keppnishesturinn minn var góður á brokki og feti vegna þess hvernig hann var járnaður, en mjög lélegur á hægu tölti. Þá rann upp fyrir mér ljós. Við fengum okkur nýjan járningamann sem þekkti gangtegundirnar og vissi hvernig ætti að meðhöndla hesta sem hættir til að detta í brokk á hægu tölti. Mér skildist fljótlega að það væru engir vel menntaðir járningamenn sem höfðu reynslu af ganghestum á svæðinu þar sem ég bjó og hugsaði með mér að ég ætti að læra járningar sjálf og járna mína eigin hesta.
Hvernig er dæmigerður vinnudagur hjá þér?
Ég ferðast um allan daginn, mest fyrir norðan Stokkhólm. Ég heimsæki eitt, tvö eða þrjú hesthús á hverjum degi. Það eru um tvö þúsund íslenskir hestar á þessu svæði; þetta er mesta hrossaræktarsvæði Svíþjóðar. Ég járna yfirleitt fimm hesta á hverjum degi, en ef ég vinn með stærri hrossakyn reyni ég að takmarka þá við þrjá. Ég járna um 120 hesta, þar af um 90 íslenska hesta.
Hvernig tekst þú á við álagið sem fylgir járningum?
Að verja öllum deginum með hnén beygð í 45 gráður er sennilega versta mögulega vinnustellingin fyrir líkamann. Þetta er mikið álag á bak og hné, sérstaklega þegar verið er að járna unga hesta. Þegar þeir djöflast um þarftu að halda þeim fast og snúa þá niður. Það þarf að sleppa taki á stærri hestum [sem eru órólegir], annars brýturðu á þér bakið. Ég æfi krossfit og geri stöðugleikaæfingar til þess að geta staðið með bogið bak.
Ég neita að járna hættulega hesta. Því lengur sem þú vinnur við þetta, því oftar afþakkar þú verkefni eða biður um að dýralæknir sé kallaður til svo hægt sé að svæfa hestana. Það er mikilvægt að fara gætilega. Hestar eru í raun hættulegar skepnur. Jafnvel lítið folald getur sparkað í höfuðið á þér. [Það er á ábyrgð eigenda að þjálfa hestana í því að standa kyrrir fyrir járningamanninn.]
Það eru ekki margar konur sem starfa við járningar á Íslandi. Hvernig er staðan í Svíþjóð?
Í skólunum er kynjahlutfallið jafnt. Í bekknum mínum vorum við fimm stelpur og einn strákur. Þetta snýst ekki um styrk heldur tækni; hvernig þú beitir þér skynsamlega. Ef þú ert sterkur getur þú kannski slegist við stóran hest, en ég myndi ekki mæla með því, það er ekki sársaukans virði sem þú finnur fyrir eftir á. Einn besti járningamaðurinn sem ég þekki er rétt um 1,60 m á hæð, en hún getur járnað hest sem vegur 1.100 kg. Með réttri líkamsbeitingu er mögulegt fyrir lágvaxna konu að járna þungan hest.
Hvernig nálgast þú hestana sem þú vinnur með?
Eitt af skilyrðunum fyrir inngöngu í járningaskólann er að þú þekkir til hesta. Þú þarft að kunna að lesa í skap hestsins. Hross eru næm og skynja hugarástand þitt þegar þú gengur inn í hesthúsið. Þau skynja hjartsláttinn þinn ef þú ert stressaður. Þú þarft að skilja allt annað í lífi þínu eftir fyrir utan hesthúsið.
Ef þetta er ungur hestur sem hefur ekki verið járnaður áður, reynir þú að vera ekki með stórar hreyfingar eða líta út eins og rándýr. Þú ættir að vera félagi hestsins, jafningi hans. Þú þarft að ávinna þér traust hans. Þú þarft að þekkja muninn á hesti sem er hræddur, hesti sem er kvalinn og hesti sem er í slæmu skapi og hvernig best er að fara að þeim. Þetta eru þau þrjú atriði sem gera járningar hættulegar.
Getur þú lýst járningaferlinu?
Ef þetta er ungur hestur, vegna þess að hann hefur verið járnalaus í þrjú og hálft ár, gæti þurft að leiðrétta hófana. Þú athugar hvað hentar hverjum og einum. Þú athugar hvernig hesturinn stendur í fæturna, gæði hófanna og hversu langt er síðan þeir voru klipptir síðast.
Ég skoða jafnvægi hófa, snyrti þá og reyni að gera þá samhverfa. Er hófurinn of langur eða er hann breiðari öðru megin? Hvernig leiðrétti ég það? Ef hófurinn er of langur, hvar á ég að staðsetja skeifuna til að takast á við það og hvernig mun það hafa áhrif á ganginn? Ég ræði við eigandann um jafnvægisvandamál. Ef ég breyti jafnvæginu, mun hesturinn glata töltinu? Ef svo er, hvernig endurheimti ég töltið en með betra jafnvægi milli hófa? – Þetta er mjög flókið, sem gerir þetta líka skemmtilegt.
Það er eftirspurn meðal eigenda íslenskra hesta að fá einhvern til að járna sem hefur skilning fyrir þörfum þeirra. Ég er ekki sérfræðingur en ég geri mitt besta. Það er fullt af fólki sem ég lít upp til og get leitað til með spurningar um hina og þessa hesta, fólk sem þjálfar íslenska hesta og kann líka að járna. Ég get rætt járningavandamál við þau og hvað sé best að gera í stöðunni. Það er frábært að hafa aðgang að þessu góða samfélagi járningamanna.
Hver er munurinn á því að járna íslenska hesta og hesta af öðrum kynjum?
Venjulega haga íslenskir hestar sér betur og það er auðveldara að járna þá. Gæði hófanna eru líka meiri og hófveggirnir betri og hestarnir eru liðugri; þeir geta teygt framfæturna mun lengra út frá líkamanum og haldið betri stöðu, sem léttir álaginu af mínum líkama.
Það sem mér finnst skemmtilegast við að járna íslenska hesta er að þeir eru hafa annað hvort fjórar eða fimm gangtegundir. Þeir geta verið brokkgengir eða skeiðgengir á tölti. Þeir eru ýmist notaðir til útreiða á reiðstígum eða í íþróttakeppnum, í fjórgangi eða fimmgangi, eða sem skeiðhestar sem einnig keppa á skeiðvellinum. Sumir eiga að lyfta fótunum hátt og líta fallega út, aðrir taka þátt í skeiðkeppnum þar sem fótahreyfingarnar eiga að vera eins nálægt jörðu og mögulegt er, þannig að þeir geti farið eins hratt og þeir geta. Þessir hestar ættu hvorki að hafa langar tær né þungar skeifur, annars gætu þeir orðið þreyttir [og hægt á sér fyrir 250 metra markið].
Það gilda margar reglur fyrir íslenska hesta og ég þarf að finna bestu leiðina til þess að járna hvern og einn hvað varðar gangtegundir, án þess að fá viðskiptavini mína dæmda úr keppni.
Hvað ættu hestaeigendur að hafa í huga?
Við ættum að byrja að hugsa um járningatímabil. Þegar ég var ung voru hestar járnaðir með 12 til 14 vikna millibili. Það er mjög langur tími. Ég járna hestana sem ég ríð á fimm til sex vikna fresti. Því lengri sem hófurinn er, því meira breytist hreyfingin. Það eru vísbendingar um – þótt það hafi ekki verið rannsakað til hlítar – að fótahreyfingarnar byrji að breytast eftir þrjár vikur.
Vegna þess hversu mikilvægt það er fyrir íslenska hesta að hafa jafnvægi á gangi, væri skynsamlegt að stytta tímann milli járninga til að halda sama jafnvæginu út tímabilið. Ef þú kýst að járna hestinn með átta vikna millibili, gætir þú lent í því að hafa tvenns konar jafnvægi sem gæti haft áhrif á hestinn í keppni.
Hvað er það við íslenska hestinn sem heillar þig?
Að ríða íslenskum hestum er best. Frelsistilfinningin. Að fljóta í loftinu í gegnum landslagið er stórkostleg tilfinning og þegar þú ríður afburða töltara er eins og þið séuð að dansa saman. Þú þarft að upplifa þetta til að skilja tilfinninguna. Að ríða í gegnum opið landslag og fara eins hratt og þú getur, á tölti eða skeiði, alveg sama – þá ertu frjáls.