Litla-Brekka var valin Keppnishestabú ársins 2017 af Landssambandi hestamanna. Blaðamaður og ljósmyndari Horses of Iceland sækir búið heim á votum sumardegi.
Á rigningardegi í júlí teyma hjónin og hrossaræktendurnir Vignir Sigurðsson og Jónína Garðarsdóttir frá Litlu-Brekku í Hörgársveit, Eyjafirði, hryssurnar Sölku og Emmu upp á hól. Þær standa þarna tignarlegar er ljósmyndarinn smellir af í gríð og erg. Litir þeirra, rauður og jarpur, tóna vel við umhverfið. Það glittir í fjallið Þríklakk í gegnum þokusuddann, sem ljáir myndunum dulúðlegan blæ.
 
 
Emma (til vinstri) og Salka frá Litlu-Brekku. Mynd Gunnar Freyr Gunnarsson.
 
Hryssurnar eru meðal gæðinganna sem tóku þátt í ræktunarbússýningu á Landsmóti 2018 í Reykjavík. „Litla-Brekka var valin Keppnishestabú ársins 2017 af Landssambandi hestamanna og var í framhaldinu boðið að taka þátt í ræktunarbússýningu á Landsmóti,“ útskýrir Vignir. Þau sýndu tíu hross, þar af voru fimm 5-6 vetra hryssur í þeirra eigu. Auk Sölku og Emmu, voru það Sátt, Evíta og Korka (sem þau áttu helming í). „Við vorum mjög ánægð með sýninguna og fannst hún ganga vel,“ segir Vignir. „Jónína hannaði búninginn,“ bætir hann við og brosir, en allir sýnendur voru í eins vestum og með slaufur.
 
Sýningin reyndist góð auglýsing fyrir búið. Emma var t.d. seld til Ástralíu. „Kaupandinn sá hana á ræktunarbússýningunni,“ upplýsir Jónína. Hjónin viðurkenna að það getur verið erfitt að horfa á eftir góðum hrossum, sem þau hafa þekkt og tamið frá því að þau voru folöld. „Þetta eru alltaf blendnar tilfinningar,“ segir Jónína. Þau fengu sendar myndir af Emmu þegar hún komst á áfangastað eftir þetta langa ferðalag. „Hún virtist hafa það ljómandi gott,“ segir Vignir.
 
„Við seljum hrossin yfirleitt mikið tamin, 6, 7, eða 8 vetra, “ segir Vignir. Þó eru stundum undantekningar á því. „Við leggjum áherslu á að rækta meðfærilega og góða keppnishesta.“ Frá því að þau Jónína keyptu Litlu-Brekku árið 1999, hefur það verið markmið ræktunarbúsins: „Við vildum rækta léttbyggð, meðfærileg keppnishross, geðgóð og traust, sem myndu standa sig vel í íþróttakeppni.“
 
Hjónin vinna saman að hrossaræktinni, en Vignir sér aðallega um að temja og þjálfa. „Vignir er mikið úti í hesthúsi, en ég tek annað að mér,“ segir Jónína. Hún er í fullu starfi sem skólastjóri Árskógarskóla, en Vignir er í hálfu starfi sem fjármálastjóri hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. „Síðan er ég á baki frá hádegi og fram á kvöld. Mest úti, en við notum inniaðstöðuna líka mjög mikið,“ segir Vignir, en þau eru með glæsilega reiðhöll á bænum. Í vetur hefur þýsk stúlka aðstoðað þau við tamningar. Faðir Jónínu býr einnig að Litlu-Brekku, í öðru húsi, og hjálpar þeim með hestana. „Hann hefur gaman af því að stússast í kringum þetta og hleypur í skarðið ef við bregðum okkur bæði af bæ,“ segir hún. 
 
 
Vignir og Jónína ásamt Sölku og Emmu, tveimur af skærustu stjörnum ræktunarinnar. Mynd Gunnar Freyr Gunnarsson.
 
Aðal ræktunarhryssur Litlu-Brekku eru Stilla, Esja-Sól, Lygna og Líf. Líf er sú eina sem er ósýnd, en hún hefur verið að gefa góð hross. Hjónin eignast yfirleitt fjögur folöld hvert sumar. „Við erum landlítil. Þannig að við getum ekki leyft okkur að eiga mikið af hrossum,“ segir Jónína. „Það heldur okkur á tánum líka. Við höfum reynt að fylgja trippunum vel eftir og það er mikil vinna með hvert og eitt hross.“ Þau láta yfirleitt ekki hross frá sér fyrr en þau eru byrjuð að temja þau og hafa séð hvað í þeim býr.
 
Miklar vangaveltur liggja að baki vali stóðhesta. „Við hugsum mikið út í stóðhesta allan veturinn, svo er kannski tekin u-beyja í lokin, þótt það sé löngu búið að ákveða eitthvað,“ segir Jónína. „Við horfum á það hvaða stóðhestar passa merunum,“ bætir Vignir við, og útskýrir að mikilvægt sé að þeir hafi eiginleika sem bæti upp galla hjá þeim. Litir er ekki eitthvað sem þau hugsa mikið út í. „Það er gaman að hafa liti, en við leggjum ekki mikla áherslu á það,“ segir Vignir. „Okkar ræktunarhryssur eru jarpar og brúnar,“ segir Jónína. „Við höfum verið að nota skjótta og moldótta hesta og allavega, en það kemur alltaf brúnt og jarpt!“ Vignir bætir við: „Mér finnst jarpur alveg ofboðslega fallegur litur, bæði rauðjarpt og dökkjarpt, ef það fylgir því mikið fax.“ 
 
Árangur ræktunarinnar sést kannski hvað best á því að á HM í Hollandi 2017 voru tveir hestar frá Litlu-Brekku, geldingurinn Spói og stóðhesturinn Pistill, sem – ásamt knapanum Gústafi Ásgeiri Hinrikssyni – varð heimsmeistari í fjórgangi í flokki ungmenna. „Það var ánægjuleg tilviljun að eiga tvö hross á HM í einu,“ segir Jónína. Spurð að því hvort þeir séu bestu hestarnir úr ræktun Litlu-Brekku, segja þau að það sé erfitt að gera upp á milli. „Það hefur líka gengið mjög vel með önnur hross, en þeir eru mögulega þekktastir,“ segir Vignir. 
 
 
Vignir og Salka sýna fagmannlega takta. Mynd: Louisa Hackl.
 
Vignir, sem ólst upp á Húsavík, vissi alltaf að hann vildi verða hestamaður. „Mig langaði í hest frá því að ég man fyrst eftir mér – og jafnvel lengur,“ segir hann og brosir. Fjölskylda hans var ekki í hestum, þannig að hann getur ekki útskýrt hvaðan þessi áhugi kemur. „Ég eignaðist minn fyrsta hest þegar ég var 12 ára. Foreldrar mínir gáfu mér hann í afmælisgjöf.“ Síðan þá hefur Vignir verið á kafi í hestamennsku.
 
Vignir og Jónína kynntust árið 1991 þegar þau stunduðu bæði nám í Verkmenntaskólanum á Akureyri og hann vakti áhuga hennar á hestamennsku. „Pabbi átti hesta, en ég fór ekki mikið á bak með honum, þótt ég hafi verið í kringum þetta,“ segir Jónína. „Ég var ekki sjúk í þetta eins og Vignir. Ég fór fyrst út í hestamennsku af alvöru þegar við kynntumst.“ Dætur þeirra þrjár hafa tekið þátt í hestamennskunni með þeim, þótt sú yngsta hafi lítinn áhuga fyrir því að fara á bak. „En henni finnst gaman að fara á mót og vera klappstýra,“ segir Jónína.
 
Jónína ríður ekki mikið út á veturna, en á sumrin fara þau hjónin gjarnan í hestaferðir. „Við förum ekki mikið í löng ferðalög, en finnst voða gaman að fara eitthvað aðeins lengra á sumrin. Við fórum á Löngufjörur síðasta sumar með góðum vinum,“ segir Jónína. Vignir bætir við: „Það er líka gaman að fara í rekstra heiman að frá okkur inn í fjörð.“ Einnig eru skemmtilegar reiðleiðir meðfram Hörgá, á svokölluðum Möðruvallaengjum. 
 
Spurð að því hvað sé framundan hjá þeim, segir Vignir: „Við ætlum að halda áfram að rækta og temja og reyna að hafa gaman af þessu, en höfum engin stór plön, þannig séð.“ Þau sjá ekki fyrir sér að geta eingöngu lagt stund á hrossarækt og gert hana að lifibrauði sínu, en Jónína segir: „Auðvitað er það markmið að búið beri sig og þá þarf stundum að selja góða hesta. Það kemur þó ekki að sök þar sem okkur finnst mjög skemmtilegt að sjá aðra knapa koma fram með hross frá okkur og fylgjast með gengi þeirra.“
 
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Gunnar Freyr Gunnarsson (sumarmyndir) og Louisa Hackl (vetrarmyndir).

Gallery

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Share: