Landsmót hestamanna var haldið í byrjun júlí í Víðidal, það gekk mjög vel þrátt fyrir veðrið og voru áhugamenn um íslenska hestinn ánægðir með viðburðinn. Forseti Íslands, Guðni Th. var á staðnum og veitti börnum viðurkenningu fyrir hestamennsku. Ýmsir viðburðir voru, þeirra vinsælastir voru kynning á frjálsri þjálfun sem hentar íslenska hestinum einstaklega vel og sýnikennsla Hólaskóla á knapamerkjaprófum.

Í gróðurvininni Elliðaárdal, í hjarta borgarinnar, viðrar fólk hundana sína, skokkarar og hjólreiðafólk þjóta hjá, veiðimenn renna fyrir lax í ánni og fyrir ofan þá hnita hungraðar kríur hringi. Spölkorn frá, á félagssvæði Fáks í Víðidal, fer Landsmót hestamanna fram 1.-8. júlí. Spariklæddir knapar og gæðingar með glansandi feld ríða um mótssvæðið og hita upp fyrir keppni. Gestir ganga eða hjóla á milli staða og grípa sér bita á einhverjum af hinum fjölmörgu matsölustöðum mótsins. Hér er líf og fjör.

Samhliða hinni hefðbundnu dagskrá, fara ýmsir viðburðir fram í tjaldi Horses of Iceland. Opnunarhelgina er keppendum í barnaflokki stefnt þangað til að taka við viðurkenningu fyrir þátttöku. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson býður börnin velkomin: „Það er gott að sjá að unga kynslóðin hefur gaman af hestamennsku, að fara í útreiðar og hugsa um hestana. Það er hluti af því að vera Íslendingur. Að vaxa upp í haga með íslenska hestinum; það er ekkert íslenskara en það!“ Þegar um 120 börn hafa þegið gjafir spilar Magni nokkur sígild barnalög, en stuðið nær hámarki þegar rappararnir Jói Pé & Króli stíga á svið.

Fyrstu dagana er veðrið ekki skaplegt, en áhugasamir hestamenn láta það ekki stöðva sig. „Hestanördar, þeir mæta, sama hvernig veðrið er,“ segir Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland, milli þess sem hún sinnir gestum í tjaldinu. Fólk drífur að inn úr rigningunni. Fyrirlestri Vilfríðar Sæþórsdóttur um líkamsmælingar á knöpum er að ljúka og tveir ungir menn eru að mæla styrk sinn og stökkkraft. „Við gleymdum okkur yfir kynbótasýningunni,“ viðurkennir par, íklætt regnslám, sem ætlaði að vera viðstatt.

Í brekkunni fyrir ofan keppnisbrautina er oft þröngt setið. Pör með ungabörn, jafnt sem ráðherrar, fylgjast með glæstum fákum sýna færni sína. Meðan á keppni stendur ræðir fólk saman í hálfum hljóðum og lýsir hrifningu sinni á hestum og knöpum á ýmsum tungumálum, með upphrópunum og lófataki.

Þegar hlé er gert á dagskránni hópast fólk að gerði Horses of Iceland og fylgist m.a. með sýnikennslu Hólaskóla á knapamerkjaprófum og Caeli Cavanagh og Þeys á frjálsri þjálfun. „Ég reyni að sjá fyrir mér aðstæður þar sem hesturinn framkallar þessa hreyfingu í náttúrunni,“ útskýrir Caeli. Hún setur undir sig hausinn og líkir eftir reiðri meri í stóði þegar hún vill fá hestinn til að víkja. Þeyr er utan við sig. Caeli hlær. „Félagi, sýndu þeim hvernig við gerum þetta.“ Nú gengur þetta eftir og Þeyr víkur. „Síðan dreg ég smám saman úr hreyfingunni þar til þetta verður bara einföld bending.“ Caeli segir íslenska hesta vera sérstaklega móttækilega fyrir frjálsri þjálfun vegna þess að, ólíkt hestum af mörgum öðrum kynjum, alast þeir upp með öðrum hestum og læra líkamstjáningu í stóðinu.

Fyrirlestrarnir í tjaldinu reynast einnig vinsælir. Margir sækja erindi Lauru Bas Conn um genarannsóknir á íslenska hestinum og Þorvalds Kristjánssonar um áhrif skeiðgensins á ganghæfni íslenskra hrossa. Rob Krabbenborg, næringafræðingur, fjallar um fóðrun mera og folanda og Hrímnir er með sýnikennslu. Upptökur af öllum fyrirlestrum má nálgast á Facebook síðu Horses of Iceland, en nú þegar hafa þúsundir hestaáhugamanna víðsvegar um heiminn horft á þá. Mesta athygli vekur þó myndbandið af Steggi frá Hrísdal, en sýnt er hægt frá því þegar hann vinnur B-úrslit í tölti – það gengur eins og eldur í sinu um netheima.

 

Hróður íslenska hestsins fer víða, en erlent fjölmiðlafólk er einnig viðstatt í boði Horses of Iceland. Þaðmun kynna kosti íslenska hestsins fyrir fólki sem fylgist með öðrum hrossakynjum keppa í öðrum greinum.

Er Landsmóti lýkur sammælast flestir um að það hafi tekist vel – þrátt fyrir veðrið – og það er margt sem stendur upp úr. Nú geta allir byrjað að hlakka til Landsmóts 2020 á Hellu.

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir.
Myndir: Gunnar Freyr Gunnarsson.

 

 

 

 

 

Gallery

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Share: