Í dag er sérstakur dagur í leikskólanum: Börnin fá að fara á hestbak!
Á Skólavörðuholtinu heyrast bjartar bjarnaraddir og gleðihlátur í bland við klukknahljóm og skvaldur ferðamanna á hinum ýmsu tungum. Það er sól og blíða þegar Krakkahesta ber að garði í Grænuborg, leikskólanum við Hallgrímskirkju í miðbæ Reykjavíkur. Börnin hafa beðið heimsóknarinnar með mikilli eftirvæntingu. Í dag er sérstakur dagur í leikskólanum: Þau fá að fara á hestbak!
Börnin stilla sér upp í röð og bíða stillt eftir því að fá að setjast á bak. Þau ljóma af gleði þegar röðin er komin að þeim. Starfsfólk Krakkahesta hjálpar þeim að festa hjálminn og koma sér fyrir í hnakkinum og teymir þau síðan einn hring á leikskólalóðinni. Nafngiftir sumra hestanna vekja kátínu meðal krakkanna; Íþróttaálfurinn og Raggi rúsínurass eru augljóslega vinsælastir.
Gunnsa skemmtir sér vel í vinnunni.
„Krökkunum finnst þetta alltaf jafn skemmtilegt. Jafnvel þótt þetta sé bara lítill hringur,“ segir Gerður Sif Hauksdóttir leikskólastjóri. Heimsóknin var skipulögð í samstarfi við stjórn foreldrafélagsins. „Við ákváðum að prufa eitt árið og það var svo mikil gleði með þetta að við höfum pantað þau tvisvar síðan. Börnin fá heilmikið út úr þessu, það er svo mikils virði að komast í snertingu við dýrin, sjá þau svona nálægt, klappa þeim og fara á bak.“ Hún segir mikla umræða skapast í kringum heimsóknina, bæði fyrir og á eftir, en henni fylgir einnig heilmikil fræðsla.
Áður en farið er á bak sýnir eigandi Krakkahesta, Gunnhildur Viðarsdóttir (eða Gunnsa, eins og hún er kölluð), börnunum ýmis áhöld sem notuð eru við hestamennsku, t.d. rasp, sem hún kynnir sem „hestatannbursta“. Krakkarnir reka upp stór augu þegar hún sýnir þeim höfuðkúpu af hesti og leyfir þeim síðan að prufa raspinn. Gunnsa sýnir þeim einnig gamla gjörð úr hrosshárum og heimatilbúinn kamb. „Afi minn bjó þetta til,“ upplýsir hún. „Þegar hann var ungur var ekki hægt að kaupa alla hluti.“ Gunnsa útskýrir að kynningin felist í því að útskýra hvernig lífið var i gamla daga, þegar ekki voru til neinir bílar eða búðir og allt búið til heima. Hún hefur einnig með sér gamalt höfuðleður, mjaltarstóla og fleira.
„Bursta“ tennurnar.
Gunnsa, sem er sjálf leikskólakennari, stofnaði fyrirtækið fyrir tuttugu árum síðan. „Lokaverkefni mitt i Fóstruskólanum var einmitt um sjónvarpsgláp og hreyfingu ungra barna. Ég er mikil áhugamanneskja um dýr og útiveru. Hugmyndin kviknaði eftir að ég fór sjálf ríðandi í leikskólann sem ég vann á árið 1997 og sá hversu mikla gleði þetta skapaði meðal barnanna og ekki síst starfsfólksins.“
Á mörgum leikskólum er fastur liður að fá Krakkahesta í heimsókn, oft í tengslum við þemadaga eða sumarhátíðir. Gunnsa mætir með þrjá til fjóra hesta og fjóra til fimm starfsmenn og allir sem vilja fá að fara á bak. Þegar kominn er tími fyrir Krakkahesta að kveðja Grænuborg, strjúka börnin hestunum blíðlega að skilnaði og reka þeim jafnvel koss til að þakka fyrir sig: „Bless, Raggi rúsínurass!“
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Gígja D. Einarsdóttir.