Ljósmyndarinn Drew Doggett býr í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum en ferðast um allan heim til að festa sérstætt landslag, fjarlæga menningarheima og tignarleg dýr á filmu. Drew hefur m.a. myndað í Himalaya-fjöllum og í eyðimerkum Afríku. Hann hóf feril sinn í tískuljósmyndun og notar tæknina sem hann lærði þar til að skapa einstök listaverk. Drew kom til Íslands um vetur til að mynda íslenska hestinn í vetrarlandslagi. Við hjá Horses of Iceland spurðum hann nokkurra spurninga um myndasyrpuna In the Realm of Legends, eða „Í ríki goðsagna“.
Hvernig velur þú staðina sem þú myndar á?
Ég kýs staði þar sem landslagið er stórkostlegt, en íbúarnir þurfa að vera jafn áhugaverðir og tengjast landslaginu. Sögur um menn, dýr og staði veita mér einnig innblástur.
Þú hefur myndað villta hesta á Sable Island-eyju í Kanada og hvíta hrossakynið í Camargue í Suður-Frakklandi. Hvers vegna langaði þig til að mynda íslenska hestinn?
Ég laðast að hestum aftur og aftur, að hluta til vegna þess að þeir sameina fegurð og styrk á einstakan hátt. Ég hef líka komist að því að hestar þrífast á stöðum þar sem aðrar dýrategundir eiga erfitt uppdráttar. Mér finnst það hvergi vera sannara en á Íslandi, landi með ótrúlegri náttúrufegurð og litríkustu hrossum heims, sem gera landslagið enn fallegra.
Hvernig eru íslenskir hestar ólíkir hinum hrossakynjunum?
Fyrir utan litina er eðli íslenska hestsins það sem gerir hrossakynið svona sérstakt. Þetta eru vingjarnlegustu hestar sem ég hef nokkurn tímann unnið með og þeir voru jafn rólegir fyrir framan Skógafoss og á vindasamri, víðáttumikilli snjóbreiðu þar sem þeir þurftu að klofa snjóinn upp í læri.
Eiga þessi hrossakyn eitthvað sameiginlegt?
Allir hestar sem ég hef myndað á mismunandi stöðum í heiminum virðast búa yfir náttúrulegu sjálfstrausti og villtu eðli. Það sama gildir um íslenska hesta.
Á mörgum af myndum þínum má sjá hvíta hesta. Hvað er það við hvíta hesta sem heillar þig?
Það er eitthvað undursamlegt eða draumkennt við hvíta hesta, aðallega vegna þess hlutverks sem þeir hafa fengið í sögum og ævintýrum. Að setja þennan eiginleika í samhengi við ótrúlegt landslag, eins og í Reynisfjöru, var draumi líkast.
Þú hófst ljósmyndaferilinn í tískuheiminum. Hvaða áhrif hefur það á hestaljósmyndir þínar?
Tískuljósmyndun var mikill skóli. Í stúdíóinu lærði ég að veita smáatriðum athygli, auk þess að leika mér með form, samsetningar og áferð. Þetta er eitthvað sem ég nýti mér í hestaljósmyndun.
Þú segist taka þér góðan tíma til að kynna þér staði áður en þú tekur upp myndavélina. Hversu langan tíma tók að undirbúa myndatökuna á Íslandi?
Ísland hefur verið mér hugleikið árum saman vegna þess hversu mörg náttúruundur er þar að finna. Til að myndasyrpan In the Realm of Legends gæti orðið að veruleika varði ég 6-8 mánuðum í að skipuleggja og undirbúa til að ganga úr skugga um að hugmyndirnar sem ég hafði um myndasyrpuna gætu í raun gengið upp.
Þú hefur sagt frá því að veðrið hafi verið áskorun. Hvernig þá?
Ég reyndi að skipuleggja ferðina með snjókomu í huga vegna þess að snjór skipti miklu máli fyrir myndasyrpuna. En ég komst fljótlega að því að það dugði skammt að skipuleggja slíkt vegna þess hversu breytilegt veðrið á Íslandi er. Ef við fréttum af því að það hefði snjóað á einhverjum á þeim stöðum þar sem til stóð að mynda lögðum við af stað snemma morguns til þess að ná snævi þöktu landslagi, en síðan var snjórinn horfinn upp úr hádegi. Við þurftum að beita kænsku í hugmyndavinnu og vera opin fyrir því óvænta.
Hvers vegna vildir þú mynda að vetri til?
Það er eitthvað sérstakt við íslenskan vetur. Birtan, litirnir, ósnortnar snjóbreiður... landslagið er eins og ævintýraveröld. Þegar ég hugsa um íslenska hesta eru þeir samtvinnaðir heimkynnum sínum. Fyrir mér eru heimkynni þeirra snæviþakin freðmýri með svörtum sandströndum, jöklum og jökulám steinsnar frá hverju öðru.
Hvað getur þú sagt okkur um verðlaunamyndina þína Endless Dream („Eilífur draumur“)?
Þetta er í raun ein af uppáhaldsmyndunum mínum úr syrpunni. Þið getið lesið meira um hana hér.
Þú segir að umfram allt ertu sögumaður. Hver er sagan á bakvið In the Realm of Legends?
In the Realm of Legends fjallar um ástarsöguna milli þessara hesta og ótrúlegra heimkynna þeirra. Ég valdi að sýna samlíf landsins og dýranna með myndrænum dæmum um það hvernig þetta tvennt passar saman eins og hlutar úr púsluspili.
Hver er tengingin við goðsagnir og goðafræði?
Menningarsögulega er mjög sterk tenging við hesta í norrænni goðafræði og ég féll fyrir sögum af því hvernig hestar og menn vinna saman. Það er líka eitthvað goðsagnakennt við hrossakynið á Íslandi sem á meira en þúsund ára sögu. Ég hreifst einnig af sögunum sem gestgjafar mínir kunnu af hestum úr barnæsku sinni.
Hvað lærðir þú um íslenska menningu?
Ég lærði að sambandið milli manns og hests var ólíkt öðru sem ég hafði upplifað, að því leyti að komið var fram við hesta eins og fjölskyldumeðlimi. Mér fannst ótrúlegt að á bænum þar sem við bjuggum þekktu eigendurnir alla hestana með nafni.
Ertu að vinna að nýju verkefni?
Ég er nýkominn aftur frá ferðalagi til Kenýa þar sem ég var svo heppinn að fá að mynda fíla sem eru taldir hafa stærstu skögultennur í heimi. Þessir stórtenntu fílar hafa skögultennur sem snerta jörðina og eru þyngri en 100 pund (45 kg) og sérfræðingar telja að það séu aðeins um 20 slíkir til í dag. Að vera í návist þessara dýra var eins og að ganga meðal risaeðlna, sennilega vegna þess að skögultennurnar minna á forfeður þeirra, mammútana. Þetta eru sannarlega stórkostlegar skepnur.
Ég hef líka nýlokið við útgáfu ljósmynda á prenti í takmörkuðu upplagi af villtu hestunum á Sable Island. Mér var gefið leyfi til að nota flygildi á eyjunni og þannig gat ég búið til fyrstu myndasyrpu sinnar tegundar með loftmyndum af hestunum.
Drew Doggett gerði einnig kvikmyndina In the Realm of Legends (smellið á myndina hér fyrir neðan til að sjá stikluna).
Viðtal: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Drew Doggett.