„Ég ræð mér varla fyrir kæti! Ég ætla að skrifa mömmu minni og þakka henni fyrir að hafa sent mig í reiðskóla þegar ég var krakki!“ Deborah Milner frá Englandi brosir eyrnanna á milli þegar ég ríð upp við hlið hennar og inni hana eftir því hvernig henni fannst að hleypa yfir Hóp, fimmta stærsta stöðuvatn landsins. „Ég vissi ekki að við myndum fara á stökk!“ segir hún, enn í skýjunum. Deborah er hér með eiginmanni sínum, Simon, en hann kom upphaflega til Íslands til að renna fyrir laxi í Vatnsdalsá. „Ég fór í styttri reiðferðir og fannst þær æðislegar, þannig að nú langaði mig að prufa lengri ferð,“ útskýrir hann. Í þetta skipti bauð Simon eiginkonunni að koma með sér, en hún hefur hvorki komið til Íslands áður né riðið íslenskum hestum. Það er raunar langt síðan hún hefur farið á bak, en Simon æfir hindrunarstökk í frístundum sínum. Tiina Puhakainen frá Finnlandi hefur hins vegar þó nokkra reynslu af íslenskum hestum. Hún nálgast okkur á hröðu tölti, afar eftirsóknarverðri gangtegund. Þegar ég spyr hvort hún skemmtir sér, skellir hún upp úr og þýtur framhjá á mjúku tölti á svartri sandströndinni. Ágúst Þorbjörnsson, einn Íslendinganna í hópnum, kýs einnig tölt. „Þetta er frábær hestur: Blær. Ég reið honum í fyrra líka. Hann töltir svo hratt að hann heldur auðveldlega í við hina sem eru á stökki.“
Haukur Suska, fararstjórinn okkar, fer fyrir hópnum á stökki. Á þessum lokaspretti ferðarinnar – „Horse Round Up in Víðidalstungurétt“ með Íslandshestum – leiðir hann okkur að gömlu steinkirkjunni á Þingeyrum. Hér var þingstaður til forna og hér var fyrsta klaustur landsins reist árið 1133, en staðurinn kemur einnig við sögu í síðustu aftökunni á Íslandi (sem Hannah Kent gerði fræga í bók sinni Burial Rites – Náðarstund á íslensku). Lausir hestar fylgja okkur. Sumir reyna að laumast út úr hópnum, en aðstoðarmenn Hauks eru fjótir að hlaupa fyrir þá. Ferðamennirnir koma víða að, m.a. frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Danmörku og Hollandi. „Þetta er breiður aldurshópur og allar manngerðir. Þetta eru náttúruunnendur og dýravinir. Það er það sem þeir eiga sameiginlegt,“ segir Haukur um gesti sína. Hann segir fólk oft koma sér á óvart, en það eru ekki á allra færi að fara í fjögurra daga hestaferð. „Þetta eru krefjandi dagar, en sumir vaxa við krefjandi aðstæður. Litlar, fínlegar eldri konur gefa ekkert eftir. Þetta er dýrmætir gestir. Stór hluti þeirra kemur aftur,“ bætir Haukur við. Í hópnum eru margir sem hafa riðið hér á landi áður, en enginn oftar en John Goldfine frá Maine sem er í sinni 18. hestaferð á Íslandi!
***
Ferðin hófst 2. október í Hvammi 2 í Vatnsdal þar sem Haukur býr og rekur hrossabú og ferðaþjónustu. Hann er einn þeirra íslensku hrossabænda sem eiga fyrirtækið Íslandshesta. Þeir bjóða upp á lengri og styttri hestaferðir víðsvegar um landið sem henta bæði byrjendum og vönum reiðmönnum. Ferðirnar veita innsýn í íslenska hesta- og sveitamenningu, eins og þessi tiltekna ferð, þar sem fólki er boðið að fylgjast með stóðréttum í Víðidalstungurétt og upplifa stemmninguna í kringum réttirnar. Dagana á undan riðum við um sveitina (allt að 40 km á dag), framhjá kindum á beit, kvakandi gæsum og álftum. Haukur leiddi okkur yfir margar ár, að Kolugljúfri og upp Víðidalstunguheiði þar sem stóðið beið þess að vera rekið til byggða. Við fylgdum síðan rekstrinum að bænum Kolugili, þar sem boðið var upp á kaffi og kakó, smurt brauð og kökur. Það vakti athygli og aðdáun erlendu ferðamannanna þegar eldri herramaður dró fram harmonikkuna og leiddi söng við góðar undirtektir. Ungir og gamlir sungu saman lögin sem sungin hafa verið við slík tækifæri í íslenskum sveitum áratugum saman.
Eftir kaffihléið riðum við á undan stóðinu að Víðidalstungurétt í stórkostlegu haustveðri. Síðdegissólin varpaði töfrandi ljóma á haustlitina í landslaginu er hundruðir hesta hlupu framhjá og inn í hólf við réttina.
***
Réttardaginn sjálfan vöknum við upp við gnauðið í vindinum. Það er svo hvasst að stæðilegir menn fjúka um koll. En stóðréttirnar hefjast á tilsettum tíma og ganga vel þrátt fyrir hvassviðrið. Við fylgjumst með þegar nokkrum hrossum í einu er hleypt inn í réttina og síðan inn í hólf hvers bæjar fyrir sig. Það eru aðallega trippi og folaldsmerar sem verja sumrinu á afréttinum. Bæði hestar og menn virðast kætast yfir endurfundunum. Þegar réttarstörfum lýkur er enn hvasst og við höfum áhyggjur af því að fresta þurfi sprettinum yfir Hóp. Við höldum þó í vonina og ökum af stað til að finna reiðhestana þar sem þeir bíða við vatnið. Eftir nokkra umhugsun meta Haukur og samstarfsfólk hans stöðuna þannig að það muni lægja og við stígum vongóð á bak. Þegar við nálgumst vatnið tek ég eftir því að yfirborðið er spegilslétt. Það er blankalogn! Mér líður eins og við höfum riðið í gegnum leynda gátt inn í huliðsheim þar sem ekkert er til nema við, hestarnir og þetta víðfeðma stöðuvatn sem minnir á haf. Ég nýt útsýnisins, anda að mér fersku lofti og fylgi Hauki út í grynningarnar. Fljótlega er ég komin á harðastökk. Við aukum enn hraðann, ég fæ kaldar vatnsgusur í andlitið og er yfir mig hamingjusöm. Ef þetta er draumur langar mig ekki til að vakna!
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Louisa Hackl.