Ólafur Aðalgeirsson frá Skjaldarvík í Eyjafirði segir frá sögunni á bakvið þessa mögnuðu mynd:

„Þetta eru nokkur ár síðan eða 23. desember, 2014.

Bændur hér í kring setja fjölda hrossa hér í fjallið fyrir ofan og mega sleppa þeim 1. júlí, síðan höfum við rekið saman í byrjun október, tekið úr ung hross, folaldsmerar og þessháttar. Fullorðnum hraustum hrossum er svo sleppt aftur og oftast sótt í desember, fer aðeins eftir veðrum.

Þetta árið voru veður heldur leiðinleg, talsverður snjór og skyggni alltaf hálf lélegt. Það var því rekið af fjalli í fyrra fallinu en þá kom fljótt í ljós að það vantaði talsvert af hrossum eða um 60 stykki. Það var í kjölfarið farið að leita og í tvígang fóru menn á sleðum þarna upp eftir, við bæði gengum og reyndum að skanna fjallið úr sjónaukum þegar veðrið gaf færi á því, en ekkert sjást til þessara hrossa.

Þannig leið fram undir jól og þá fannst mér nóg komið, fékk félaga minn sem er flugmaður og hafði aðgang að lítilli vél til að fljúga þarna yfir og hjálpa okkur að finna þessi hross. Við biðum svo færis í nokkra daga, en veðrið var ekkert á því að hleypa okkur í þetta. Að lokum gaf smá færi og við drifum okkur í loftið, en þá var komin 22. desember.

Það tók okkur svo ekki nema smá stund að finna þau, talsvert hátt í fjallinu og ofan í dálitlu dalverpi þar sem sæmilega fór um þau þó farið væri að þrengja að þeim með beit. Við drifum okkur beint til baka og skipulögðum í kjölfarið ferð daginn eftir til að koma þeim til byggða.

Við sendum tvo menn á vélsleðum til að reyna að reka þau heim að morgni 23. desember. Þeir fundu hrossinn eftir okkar leiðbeiningum en þau harðneituðu að láta reka sig heim, fannst snjórinn of djúpur og treystu sér ekki út í óvissuna.

Strákarnir á vélsleðunum sáu fljótt að þetta kæmi ekki til með að ganga og brenndu til baka, sóttu mig og Ríkarð Hafdal og skutluðu okkur svo að hópnum. Þar gripum við sitt hvort hrossið – tókum hross sem við þekktum og vissum að hefðu taugar í smá slark – og ösluðum af stað.

Við þurftum eftir það ekkert að vera ýta á eftir þeim, þau vildu heim og eftir 2-3 tíma brölt í gegnum snjóinn þá komust bæði menn og hestar heim. Allir sveittir og þreyttir en við hestaheilsu.

Myndina tók ég á leiðinni í gegnum snjóinn, lafmóður, leit við til að tékka á hópnum og sá þá hvað þetta var flott á að líta. Ég hafði samt ekkert færi á að stoppa, bara reif upp símann, smellti af svona yfir hausinn á mér, tróð símanum í vasann og bögglaðist svo áfram. Fattaði þessa mynd ekki fyrr en einhverjum dögum seinna. 

Þarna eru Ríkarður Hafdal og hesturinn Krapi fremstir og svo öll hersingin á eftir, 60 hross allt í allt.“

Skjaldarvík býður upp á hestaferðir, gistingu og veitingar: skjaldarvik.is.

Gallery

0 0 0 0 0 0 0

Share: