Giljagaur var í vondu skapi. Í hundruðir ára hafði hann óáreittur getað stundað þá iðju sína að læðast með giljum heim að bæjum, laumast inn í fjós og næla sér í fötu fulla af kúamjólk til þess að fleyta froðunni ofan af, án þess að neinn sæi til. En nú voru aðrir tímar. Í fjósunum fundust varla fötur lengur því kýrnar voru mjólkaðar með mjaltavélum – eða þá að þær mjólkuðu sig sjálfar í klefum með hjálp svokallaðra mjaltaþjóna. Og það versta af öllu: Uppáhaldsfjósið hans – Vogafjós – var orðið að vinsælu kaffihúsi þar sem matargestir horfðu beint inn til kúnna í gegnum stóra glerglugga! Það var ekki smuga fyrir hinn feimna Giljagaur að laumast óséður þangað inn. Giljagaur var stærstur jólasveinanna og þreklega vaxinn. Honum þótti ósköp vænt um börn – þau máttu svo sem verða vitni að athæfi hans – en honum stóð stuggur af fullorðnum sem ráku hann öfugan út úr fjósinu ef þeir urðu hans varir.
Eftir andvökunótt í hellinum sínum í Dimmuborgum fór Giljagaur á fætur í dagrenningu og prílaði upp á hæð með útsýni yfir hraundrangana. Hann horfði hugsi yfir Mývatnssveit er fyrstu geislar vetrarsólarinnar vörpuðu gullnum bjarma yfir snæviþakið landslagið. Í fjarska sá hann dráttarvél koma akandi með heyrúllu. Hann fylgdist með henni aka áfram út á tún og fyrr en varði komu hestar hlaupandi á harðaspretti. Þetta var mikið stóð og Giljagaur sá ekki betur en að þar á meðal væru nokkur stálpuð folöld sem stukku um og léku sér. Þá flaug honum ráð í hug: Skyldu folaldshryssurnar enn mjólka? Á sama augabragði hljóp eitt folaldið til móður sinnar og fór á spena.
Giljagaur réði sér varla fyrir kæti. Hann beið óþolinmóður eftir því að bóndinn lauk við að taka utan af rúllunni og ók á brott. Þá hljóp hann inn í hellinn þar sem Grýla var að sjóða graut og gramsaði í eldhúsinu með miklum hamagangi þar til hann fann það sem hann var að leita að: Forlátan mjólkurbrúsa! Síðan óð hann inn í búr og ruddi niður dósum um leið og hann greip dagsgamalt hverabrauð, vafið inn í viskustykki. „Hvaða asi er á þér?“ spurði Grýla önug. „Ég ætla að fá mér kaplamjólk!“ svaraði Giljagaur í skyndi er hann rauk út úr hellinum og hljóp eins og eldibrandur í gegnum Dimmuborgir á löngu leggjunum sínum. Þegar hann nálgaðist túnið hægði hann á ferðinni og læddist síðan inn fyrir girðinguna.
Ró hafði færst yfir stóðið. Hestarnir voru enn á beit við heyrúlluna. Ein merin stóð afsíðis með folaldið sitt og Giljagaur gekk hægum skrefum í áttina til þeirra. Þau horfðu spurnaraugum á þennan úfna, tröllslega svein og virtust hugleiða hvort þau ættu að hlaupa á brott þegar hann rétti fram brauðið. Þau tóku við matargjöfinni og hann strauk þeim blíðlega um makkann. Folaldið nartaði vinalega í lopapeysuna hans og Giljagaur hló við. En þegar hryssan áttaði sig á því hvað hann ætlaði sér með mjólkurbrúsann rann á hana tvær grímur. „Svona, svona,“ sagði hann til hughreystingar og klappaði henni á lendina. „Mig langar bara í ofurlitla mjólkurfroðu. Getur þú liðsinnt öldnum jólasveini?“
Hryssan sá aumur á Giljagaur og stóð kyrr á meðan hann reyndi að mjólka hana, klaufalegum fingrum. Hann hafði þrátt fyrir allt aldrei mjólkað sjálfur. Þegar þetta fór að dragast á langinn frýsaði hryssan og sló niður afturfætinum. Loksins, þegar Giljagaur var farinn að örvænta, fann hann réttu tæknina og kallaði glaður upp yfir sig þegar mjólkin rann í mjóum bunum niður í brúsann.
Þegar Giljagaur var kominn með botnfylli þakkaði hann fyrir sig og gaf merinni og folaldinu afganginn af brauðinu. Síðan drakk hann volga kaplamjólkina græðgislega í einum teig þannig að taumar láku niður munnvikinn. Hann sleikti út um. Mikið var hún góð; sætari en kúamjólk! Giljagaur hljóp aftur heim í hellinn sinn, glaður í bragði, og hugsaði sér gott til glóðarinnar fyrir næstu jól. Hann ætlaði að heimsækja stóðið aftur að ári!
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir
Ljósmyndir: Gunnar Freyr Gunnarsson
Jólasveinarnir í Dimmuborgum taka á móti gestum á aðventunni.
Lesið meira á Visitmyvatn.is.
Við þökkum Safari Horse Rental kærlega fyrir samstarfið við gerð þessarar sögu.
Fyrir þá sem vilja fræðast um fleiri jólasveina má finna sögu Stekkjastaurs hér.