Garpur bjargar jólabaðinu
Þvörusleikir hljóp eins og hratt og hann gat í fannferginu í Dimmuborgum. Grátt hárið og skeggið flaksaðist í vindinum. Hann notaði þvöruna sína eins og göngustaf til klofa stærstu skaflana, en svo komast hann ekki lengra. Móður og másandi skaust hann á bakvið hraundranga. Í fjarska heyrði hann kallað: „Þvöruleikir! Þvöruleikir! Komdu til baka. Þú átt að fara í bað!“ Upp var runninn þessi ömurlegi tími árs, þegar bræður hans neyddu hann með sér í jólabaðið. Hann þoldi ekki að blotna! Skildu þér það ekki?
Þvörusleikir og Kjötkrókur skemmta gestum í Dimmuborgum.
Á aðventunni komu barnafjölskyldur af öllu landinu í heimsókn í Dimmuborgir og það fannst Þvörusleiki gaman. Hann lék á alls oddi, spjallaði við börn og fullorðna og sat fyrir á myndum. En síðan var alltaf farið í bað, í Jarðböðunum við Mývatn. Jólasveinarnir fóru bara í bað í þetta eins skipti á ári, en Þvörusleiki var meinilla við það. Hann reyndi alltaf að sleppa, en einhvern veginn tókst bræðrum hans alltaf að finna hann og pína hann ofan í baðið. Hann hryllti sig við tilhugsunina.
Það hafði verið óvenjukalt í Dimmuborgum þetta árið. Vetrarsólin var að síga til viðar og varpaði gullnum bjarma á snæviþakið landslagið. Hér og þar glitti í svart hraunið sem stakk í stúf við skjannahvíta mjöllina. En Þvörusleikir tók ekki eftir fegurðinni í kringum hann. Honum var kalt. Kuldinn færðist ofar og ofar eftir fótum hans. Hann stappaði niður freðnum fótum og nuddaði saman höndunum til að ylja þeim. Hugurinn reikaði ósjálfrátt að heitu baðvatninu... en, nei! Þvörusleikir var þrjóskur og frekar vildi hann frjósa í hel en að baða sig!
Þvörusleikir í felum.
Nú var varið að rökkva og enn stóð Þvörusleikir eins og þvara upp við hraundrangann. Eða kannski eins og grýlukerti, því hann var eiginlega frosinn fastur og ekki viss um að hann gæti hreyft sig þótt hann vildi. Þá heyrði hann nafnið sitt kallað aftur og núna nær en áður. Hann heyrði marr í snjónum undan ótal fótum. Svo birti skyndilega til. Þarna var rumurinn Giljagaur mættur með lukt. Fyrir aftan hann voru fleiri jólasveinar og þeir teymdu... hest!? Hvaðan kom hann eiginlega? Giljagaur hló svo bumban hristist þegar hann sá svipinn á bróður sínum. „Mannstu þegar þú sagðir að tíu villtir hestar gætu ekki dregið þig í bað? Nú skulum við sannreyna það! Þetta er reyndar bara einn taminn hestur, hann Garpur, sem við fengum lánaðan. En hann hlýtur að duga.“
Þvörusleikir reyndi að mótmæla af veikum mætti en það kom aðeins ámáttlegt væl út um hálffrosnar varir hans. Kjötkrókur var með kaðal og tók að vefja honum utan um Þvörusleiki. Bræður hans höfðu raunar bundið hann og dregið hann út í baðið áður, en aldrei látið hest draga hann í baðið! Þeir bundu hann við hestinn og teymdu hann síðan af stað. Þvörusleikir gat ekki annað en hlaupið með, þótt hann væri dofinn í fótunum eftir að hafa staðið svona lengi í felum í frostinu.
Garpur og Þvörusleikir nálgast böðin.
Loks sáu þeir gufu líða upp úr hrímhvítu landslaginu. Þeir voru komnir að Jarðböðunum við Mývatn þar sem ótal börn biðu þeirra spennt. Ljóskastarar lýstu upp ljósblátt vatnið en á svörtum himninum blikuðu stjörnur. Bræðurnir klöppuðu hestinum og laumuðu að honum brauði í þakklætisskyni. Þeir losuðu Þvörusleiki og háttuðu hann og drógu hann síðan í sameiningu á ullarnærfötunum út í heitt vatnið. Börnin skríktu af kátínu þegar Þvörusleikir reyndi að streitast á móti en stakkst síðan á bólakaf í Jarðböðin.
Þvörusleikir skaust upp aftur og tók andköf. Rennblautt hárið límdist við hann, ullarnærfötin gegnblotnuðu og hann gretti sig. Síðan fann hann ylinn líða um líkama sinn og endurvekja frosna útlimina. Þá tók Þvörusleikir gleði sína á ný, spriklaði kátur í heitu vatninu og spaugaði við börnin. Kannski var þetta ekki svo slæmt, hugsaði hann með sér. Á bakkanum hneggjaði Garpur sem hafði dregið hann að Jarðböðunum og Þvörusleikir veifaði þvörunni til hans að skilnaði.
Lesið meira um Jólasveinana í Dimmuborgum hér. Á vefsíðu Horses of Iceland má lesa skemmtilegar hestasögur um Stekkjastaur, Giljagaur og Stúf.
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Marcin Kozaczek/visitmyvatn.is.