Horses of Iceland bauð nýlega Christiane Slawik og eiginmanni hennar og aðstoðarmanni Thomas Fantl í tíu daga ljósmyndaferð til Íslands.

Christiane, sem er þýsk, hefur 40 ára reynslu af hestaljósmyndum. Hún hefur ferðast um allan heim og myndað hross af um 300 kynjum. Myndir hennar eru eftirsóttar, m.a. fyrir dagatöl, en hún hefur einnig gefið út fjölda ljósmyndabóka og heldur námskeið reglulega.

Fyrst lá leiðin til Snæfellsness, til Guðmundar M. Skúlasonar (Mumma) í Hallkelsstaðahlíð, þar sem þau dvöldu um hríð. Einn daginn var svo hvasst að Christiane gat varla haldið myndavélinni stöðugri. Thomas tók myndband af því þegar hún lá á veginum í rokinu og stóðið kom æðandi á móti henni. „Fólki þótti ég ansi hugrökk, en ég sagði: „Þetta eru íslenskir hestar, þeir stoppa fyrir rauða tröllinu á veginum!““ Christiane skellir upp úr. Hún var ansi áberandi í rauðri úlpu og á myndbandinu sést hvernig hrossin hægja á sér um leið og þau nálgast hana.

„Það var eitt vandamál hjá Mumma. Hann á allt of mikið af brúnum hestum!“ Christiane útskýrir að þegar er þungbúið er betra að nota ljósa og litríka hesta því þá verður heildarmyndin bjartari. Þess vegna lét hún reka stóðið inn í hús svo hún gæti valið þá hesta sem kæmu best út á óveðursmyndinni.

Mummi hreifst af því hversu úrræðagóð Christiane var. „Það var svolítið hvasst og kalt, en hún náði að nýta sér það ótrúlega. Þegar kom smá sólarglenna var rokið upp frá borðum og nýttur hver gluggi sem kom,“ segir hann. „Þegar vonda veðrið var átti að reyna að taka hópmyndir og ríða saman nokkur þannig að við fengum tvo krakka lánaða hjá nágrönnum okkar … Þau stóðu eins og hetjur.“

Síðan kom sól og blíða og Christiane vildi mynda á stað sem hún hafði tekið eftir á leiðinni að Hallkelsstaðahlíð: í gömlu vikurnámunni Rauðhálsum, þar sem er rauður jarðvegur. „Þá valdi ég hesta sem annars vegar tónuðu við jarðveginn og hins vegar sem voru í andstöðu við hann,“ segir hún.

Eitt síðdegið, þegar Mummi og konan hans höfðu brugðið sér af bæ, mundi pabbi hans allt í einu eftir öðrum stóðhesti inni í húsi sem hafði gleymst að mynda. „Við stukkum til því bærinn er í dal með háum fjöllum í kring og birtan að hverfa. Það var aðeins sól niðri á túni,“ rifjar Christiane upp. Þau náðu myndum af honum þar. Síðan vildu þau mynda við Hlíðarvatn, sem er á landareigninni. „Þá var sólin horfin frá ströndinni, en það var ennþá sól í vatninu, og pabbi Mumma óð út í ískalt vatnið, fullklæddur, með hestinn í eftirdragi!“ Christiane skellihlær við minninguna – en eftir mikinn gusugang gekk þetta eftir.

Christiane og Thomas mynduðu næst í Söðulsholti á Snæfellsnesi, en héldu síðan áfram til Reykjavíkur, með flugi til Hafnar og til Hornhesta þar sem Ómar Ingi Ómarsson tók á móti þeim. Þar dvöldu þau einnig í nokkra daga. „Mig hafði lengi langað til að mynda hesta við ís á Ís-landi,“ segir Christiane, en þau þurftu sérstakt leyfi frá stjórnvöldum við að mynda við Heinabergslón – sem eru mun fáfarnara en Jökulsárlón – og á Breiðamerkursandi innan um bráðnandi jökulís og hrifna ferðalanga. Fyrir myndatkökuna valdi Christiane gráan og brúnan hest; annar átti að vera samlitur ísnum og hinn í algjörri andstæðu við hann.

Christiane hafði blendnar tilfinningar gagnvart því að mynda við hið fræga fjall Vestrahorn, því það er mjög vinsælt myndefni og hún vill alls ekki herma eftir verkum annarra. Þau veltu því lengi fyrir sér hvernig hægt væri að mynda hesta við fjallið öðruvísi en áður hafði verið gert. „Fyrir einskæra tilviljun hafði ég haft með mér gleiða linsu, sem ég nota annars aldrei við hestamyndatökur, því ég hugsaði með mér: „Á Íslandi er svo fallegt landslag. Ég tek hana með til öryggis.“ Þannig gat hún myndað lausa hesta á ströndinni með allt fjallið í baksýn. Ómar staðfesti að það hefði ekki verið gert áður.

Christiane valdi þrjá hesta – oddatölu – sem þekktust vel og myndu fara vel við bakgrunninn. „Svartan í stíl við svörtu hraunbreiðuna, rauðan eins og rauðleitu plönturnar og ljósan eins og endurkast birtunnar,“ útskýrir hún. „Við höfðum mikið verið með svartan og hvítan hest þegar við vorum að keyra á milli svo það var gott að bæta einum öðruvísi við aðeins til að fá meiri lit í þetta og brjóta upp,“ bætir Ómar við. „Og ekki bara hafa einn eða tvo hesta. Þegar þeir eru fleiri þegar þeim er sleppt eru þeir líklegri til að hlaupa, sérstaklega ef þeir eru í oddatölu. Tveir elta yfirleitt þennan fyrsta.“

Þau höfðu hestana með sér árla morguns að Vestrahorni. Þá var fjara og grunnt vatn á ströndinni, sem nægði til þess að spegla landslagið. „Það var logn þennan dag. Í vindi verður engin speglun í vatninu.“ Þau sáu til þess að hestarnir væru svangir svo þeir myndu hlaupa beinustu leið heim í hesthús. Christiane stillti sér upp með myndavélina og vonaðist til þess að allt myndi ganga upp, því hún fengi aðeins eitt tækifæri til að ná myndinni. „Og það tókst!“ segir hún sigri hrósandi. „Allir þrír á hárréttum stað með jöfn bil á milli.“ Ómar segist mjög ánægður með útkomuna. „Mjög svo. Þær eru ótrúlegar, margar myndirnar sem hún tók, sérstaklega myndaserían þar sem hestarnir hlaupa heim í spegluninni. Alveg stórkostlegar!“

Eftir að hafa myndað hjá Íslenska hestinum og Dallandi í Reykjavík, héldu hjónin aftur heim til Þýskalands. Fyrir Christiane er þetta draumalíf, að fá að umgangast þessar stórkostlegu skepnur og mynda þær. „Ég lít á þetta sem gjöf hestanna til mín.“

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Christiane Slawik.

Gallery

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Share: