Það leið að jólum 1967. Íslensk börn sátu spennt fyrir framan sjónvarpsskjáinn, því Stundin okkar var að hefjast. Í þættinum flutti barnakór þekkt jólalag eftir Johnny Marks (upphaflega „Rúdolf með rauða trýnið“) með nýjum texta um folaldið Fák eftir Hinrik Bjarnason, kennara og síðar dagskrárstjóra hjá RÚV, en hann var einmitt umsjónarmaður Stundarinnar okkar þegar fyrsti þátturinn var sendur út á jóladag 1966. Hinrik átti ameríska plötu með jólalögum og samdi íslenska texta við mörg þeirra, þar á meðal „Rúdolf með rauða trýnið“ eftir Johnny Marks – eitt vinsælasta jólalag allra tíma – sem hann staðfærði þannig að tengdist betur þeim veruleika sem íslensk börn þekktu. Úr varð textinn „Folaldið mitt, hann Fákur“.
Folaldið mitt, hann Fákur
Folaldið mitt, hann Fákur
fæddur var með hvítan hóf,
og er hann áfram sentist
öll varð gatan reykjarkóf.
Hestarnir allir hinir
hæddu Fák og settu hjá.
Í stað þess að stökkva í leikinn
stóð hann kyrr og horfði á.
- Milli élja á jólakvöld
jólasveinninn kom:
„Fæ ég þig nú, Fákurinn,
fyrir stóra sleðann minn?“
Þá urðu klárar kátir,
kölluðu í einni hjörð:
„Fákur með fótinn hvíta
frægur er um alla jörð.“
„Hreindýrin fengu að sigla, en ég flutti þetta yfir á hestamennskuna,“ segir Hinrik. „Hreindýr með lýsandi rautt nef er einhver furðuskepna, en folald þekkja allir.“ Upprunalega var það hreindýrskálfurinn Rúdolf sem bjargaði jólasveininum eftir að hafa mátt þola stríðni hinna hreindýranna, en lýsandi, rautt nef hans lýsti honum leið. Nú var það folaldið Fákur sem kom sveinka til bjargar. Fákur fæddist með hvítan hóf og þess vegna gerðu hinir hestarnir grín að honum, en hann var sterkur og fótfrár og „milli élja á jólakvöld“ vann hann það sér til frægðar að draga sleða jólasveinsins.
Hinrik, sem fæddist árið 1934, segist ekki hafa verið viðriðinn hestamennsku á fullorðinsárum, en hann „ólst upp á hestbaki“ og reið berbakt fram að fermingu. „Þetta var dæmigert fyrir mína kynslóð. Ég sat á brúkunarhestum og þekkti vel aðstæður.“
„Folaldið mitt, hann Fákur“ var sungið inn á nokkrar plötur, upphaflega árið 1968, og kom út í bókinni Við hátíð skulum halda árið 1987 ásamt öðrum jólatextum eftir Hinrik, en sonur hans, Bjarni Hinriksson myndskreytti. Þótt fleiri þekki kannski þýðingu Elsu E. Guðjónsson á jólalagi Johnny Marks, „Rúdolf með rauða trýnið“ frá 1955, reyndist „Folaldið mitt, hann Fákur“ mjög vinsælt fyrst eftir að það kom út og það hefur verið sungið við ýmis tækifæri, m.a. hefur það verið flutt af Brokkkórnum, kór hestamanna.
Hestar hafa gjarnan veitt Hinriki innblástur við textaskrif sín. Hann rifjar upp annan texta sem hann samdi við erlent jólalag þar sem hestar koma fyrir: „Í „Twelve Days of Christmas“ – sem ég kalla „Þrettán dagar jóla“, því að hjá okkur eru jóladagarnir þrettán – kemur þetta fyrir: „Á jóladaginn þrettánda; hann Jónas færði mér; þrettán hesta þæga…““ Það má líka nefna þriðja jólalagið með texta eftir Hinrik þar sem hestar koma við sögu: „Winter Wonderland“ eftir Felix Bernard, sem í snörun Hinriks á íslensku heitir „Í skíðabrekkunni“.
Við hjá Horses of Iceland óskum ykkur öllum gleðilegra jóla!
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Louisa Hackl.