„Ég var 15 ára þegar ég sá fyrstu íslensku hestana í Hollandi,“ segir Lex van Keulen, dreyminn á svip. „Þegar ég fór í skólann var ég alltaf á hjóli og um veturinn sá ég nokkra hesta. Þeir höfðu mikið aðdráttarafl á mig, en seinna frétti ég að þetta hefðu verið fyrstu íslensku hestarnir í Hollandi. Síðan, einn daginn, voru hestarnir horfnir og mér leið alltaf eins og eitthvað hefði verið tekið frá mér,“ heldur hann sögu sinni áfram. „Tuttugu árum síðar bjó ég við hlið innflytjenda íslenskra hesta. Það var óumflýjanlegt: Ég keypti fyrsta íslenska hestinn og þá var ekki aftur snúið.“ Upp frá þeim degi hefur Lex átt íslenska hesta eða þar til hann þurfti að hætta útreiðum vegna heilsufarsástæðna. „Ég gat haldið hesta til ársins 2003, en þá var orðið ómögulegt fyrir mig að ríða út og hirða um þá. Þannig að ég gaf hestana mína.“ Lex þykir sérstaklega vænt um stóðhestinn Baldur, sem er orðinn 32 vetra og er enn í fullu fjöri. „Ég teikna hann,“ segir Lex og brosir. „Og ég skrifa bækur.“
Ásamt reiðkennaranum Vöndu Oosterhuis skrifaði Lex yfirgripsmikla bók um allt það sem við kemur ræktun, umhirðu, þjálfun og reið íslenskra hesta. Bókin kom upphaflega út á hollensku, en í fyrra kom hún út í enskri þýðingu. The Complete Guide to the Icelandic Horse, eða „Allsherjar handbók um íslenska hestinn“, er nærri 400 blaðsíður og er umfangsmesta bókin sem til er um íslenska hestinn á enskri tungu – opinberu tungumáli FEIF (alþjóðasamtökum Íslandshestafélaga). „Fyrst skrifaði ég bók um mitt eigið líf með íslenskum hestum og sögur af þeim, sem reyndist vinsæl. Síðan varð mér ljóst að það væri engin allsherjar bók til um íslenska hesta á ensku,“ segir Lex. „Þannig að ég bað um 20 manns að skrifa um sínar sérgreinar og Vöndu um að hjálpa mér með allan textann. Við unnum mjög farsællega saman að fyrstu bókinni [hollensku útgáfunni] – og við tölumst enn við!“ Lex hlær. „Ég held að það teljist frekar sérstakt vegna þess að þegar tveir aðilar vinna saman að einni bók koma oftast upp vandamál. En jafnvel enska útgáfan batt ekki enda á samstarf okkar.“
Vanda kennir samkvæmt Centered Riding stefnunni, sem gengur út á skýrari samskipti milli knapa og hests, m.a. með réttri líkamsbeitingu og merkjanotkun. Hún leggur einnig stund á Connected Riding, þar sem knapi fylgir sérstaklega eftir hreyfingum hestsins til þess að hann geti hreyft sig óheftur, og Tellington TTouch meðferðina, sem bætir samskipti manna og dýra með snertingu. Á námskeiðum sínum kennir Vanda þjálfun og reið með góðri líkamsvitund. Frá árinu 1973 hefur hún átt og ræktað íslenska hesta í Hollandi, en hún kennir fólki á sína eigin hesta, sama af hvaða kyni þeir eru. „Lex bað mig um aðstoð vegna sérþekkingar minnar á íslenskum hestum. Ég hafði gaman af því að fyrst skrifa hollensku bókina með honum og síðan að aðstoða hann við að þýða hana yfir á ensku (við þurftum að breyta nokkrum atriðum). Kaflarnir um reið, vinna frá jörðu, umhirðu, hnakka og beisli eru að mestu leyti eftir mig. En ég notaði að sjálfsögðu upplýsingar frá mörgum öðrum líka. Ég er ekki alvitur!“
Þjálfunar- og reiðtæknin, eins og þeim er lýst í bókinni, eru í samræmi við reglugerðir FEIF. Bæði Lex og Vanda leggja áherslu á mikilvægi þess að hestaeigendur verði sér úti um þekkingu til að koma í veg fyrir mistök sem gætu spillt sambandi manns og hests og valdið vandamálum í þjálfun og reið. Markmiðið ætti að vera að „hesturinn geri það sem þú biður hann um sjálfviljugur og vandræðalaust,“ útskýrir Lex. „Þú þarft að gefa þér tíma til að kynnast hestinum þínum og gera hann að félaga þínum en ekki þjóni.“ Þjálfunar- og reiðtækni, sem og viðmið dómara í keppnum, hafa breyst umtalsvert á síðustu 30 árum. Nú er aðal markmiðið „að ríða hesti þannig að það sé ekki aðeins ánægjulegt, heldur einnig heilsusamlegt fyrir hestinn og til að sigra á mótum,“ segir Vanda. Hún leggur einnig áherslu á mikilvægi jafnrar ásetu, að hnakkur og beisli passi vel og að tekið sé tillit til líkamsbyggingar reiðskjóta og knapa.
Í bókinni er einnig fjallað um fimm gangtegundir íslenska hestsins og hvernig þjálfun hans sé frábrugðin þjálfun hesta sem aðeins hafa þrjár gangtegundir. „En góður reiðstíll og góð fimiþjálfun sem gerir hestinn mjúkan og fær hann til að nota kraftinn úr afturhlutanum gilda einnig við þjálfun annarra hrossategunda,“ bendir Vanda á. Í bókinni kemur fram að íslenskir hestar alast venjulega upp í stóðum og þurfa að treysta á eigin eðlisávísun og þess vegna eru þeir ólíkir mörgum evrópskum hrossakynjum í reið. „Í Evrópu viljum við stjórna hverri einustu hreyfingu hestsins og segja honum: „Settu núna vinstri fótinn á jörðina, og síðan þann hægri.“ Íslendingar hlusta á hestana sína. Þeir segja: „Hér er punktur A. Við viljum komast að punkti B og þú mátt ráða hvernig við komust þangað.“ Þeir leyfa hestinum að hugsa fyrir sjálfan sig,“ segir Lex.
Þegar hann er spurður að því hvað það er við íslenska hesta sem hann hrífst mest að, segir hann: „Eðlisfar hestsins. Hvernig hann getur staðið úti á engi og ekki gert neitt og síðan rokið af stað og leikið sér. Líka, þegar þú sest á bak og finnur alla þessa vöðva hreyfast undir hnakknum – hann er kraftabúnt!“ Vanda hefur einnig fallið kylliflöt fyrir þessu kyni. „Það er sjálfstætt eðlið, töltið, þægileg stærðin og hvað þeir eru harðgerðir.“ Hún hrífst einnig að loðnum vetrarfeldinum. „Því ég er ennþá hestastelpa sem nýt þess að faðma hesta.“ Lex og Vanda mæla með íslenskum hestum, en einnig að þeir sem hafa hug á að kaupa sér hest útvegi sér eintak af The Complete Guide to the Icelandic Horse. „Ég held að bókin sé sérstaklega mikilvæg fyrir fólk sem vill tileinka sér góðan reiðstíl og læra meira um bakgrunn íslenska hestsins,“ segir Vanda. „Og sá sem er að kaupa sinn fyrsta hest ætti örugglega að lesa þessa bók.“
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir.
Myndir: Úr safni Lex van Keulen.
The Complete Guide to the Icelandic Horse er fáanleg í vefversluninni draumur.dk.
Til að fá frekari upplýsingar má senda póst til bodil@draumur.dk eða heimsækja Fésbókarsíðu bókarinnar. https://www.facebook.com/theguideicelandichorse/