Að hinu forna menntasetri Hólum í Hjaltadal var skóli fyrst stofnaður árið 1106. Í Háskólanum á Hólum er í dag hægt að stunda nám við Ferðamáladeild, Fiskeldis- og fiskalíffræðideild og Hestafræðideild.

„Þetta er nám fyrir þá sem ætla sér að verða fagmenn í hestamennsku, vinna sem reiðkennarar og þjálfarar,“ útskýrir Sveinn Ragnarsson deildarstjóri. „Þetta er eins og að læra kennslufræði, að verða íþróttaþjálfari eða kennari, en við bætist nauðsynleg þekking um viðfangsefnið, hestinn, hvernig hann lærir og er líffræðilega uppbyggður.“

Námið þykir einstakt og er eftirsótt. Af um 60 nemum í Hestafræðideild er einn þriðji útlendingar. Þeir þurfa að hafa færni í íslensku auk þó nokkurrar reiðfærni, en allir nemendur fara í reiðpróf til að komast inn í skólann. „Nemendurnir okkar hafa allir mikla ástríðu fyrir íslenska hestinum. Þetta eru frábærir nördar,“ segir Sveinn kíminn.

Í rúmgóðu hesthúsi skólans standa skólahestarnir í stíum og bíða eftir næstu kennslustund. Flestir eru þeir fæddir að Hólum og hafa verið tamdir af nemendum og kennurum skólans frá því að þeir voru unghestar.

Hér er saga tveggja þeirra um 40 hesta sem eru notaðir í kennslu Hestafræðideildar Háskólans á Hólum. Nemendurnir þurfa að læra inn á hvern þann hest sem þeim er úthlutað til þess að bæta sig sem knapar og þjálfarar. Þegar uppi er staðið eru hestarnir oft bestu kennararnir. Þorsteinn Björnsson reiðkennari segir frá.


Króna frá Hólum

Jarpa hryssan Króna fæddist árið 2007 og varði fyrstu árum ævinnar í „alsælu frammi í Hjaltadal,“ eins og Þorsteinn lýsir því. Haustið þegar hún varð veturgömul fór hún í „fortamningu“ hjá 2. árs nemendum. „Þetta voru 3-5 dagar, rétt til að kynna hana fyrir manninum: Klippa hófa, taka upp fætur og setja á hana múl.“ Í stóðinu læra trippin umgengnisreglur við önnur hross. „Þau læra að vera hestar í uppvextinum. Það er lítið samband við manninn, aðeins karlinn á dráttarvélinni sem gefur þeim,“ segir Þorsteinn.

Fortamningin hélt áfram næsta haust, en haustið eftir, þegar Króna var orðin þriggja vetra tók hún þátt í 7-8 vikna „frumtamningaráfanga“, aftur hjá 2. árs nemendum. „Þá er byrjað að venja þau við hnakk og gjörð og undirbúa járningar. Þau eru gerð tilbúin til þess að hægt sé að ríða á þeim inni og úti,“ útskýrir Þorsteinn. Hrossin læra grunnábendingar og mikil vinna á sér stað frá jörðu, teyming og hringteyming. „Síðan fara nemendur í próf og ríða þeim um upp í stökk. Þau eiga að sýna mismunandi gangtegundir og vera vel reiðfær.“

Eftir viku frí tók Króna þátt í öðrum áfanga, „grunnþjálfun“, með 2. árs nemendum, sem einnig stóð yfir í tæpar átta vikur. „Þá er farið aðeins lengra með stjórnun, nákvæmari stefnustjórn, farið meira yfir í að stjórna yfirlínu. Hliðargangsæfing er kynnt fyrir þeim og þau undirbúin fyrir gangsetningu ef forsendur eru fyrir því – ef hrossið töltir ekki frá náttúrunnar hendi,“ segir Þorsteinn. „Við reynum að vera eins stutt á baki og hægt er, en samt nóg: Örfáar mínútur til að byrja með og síðan þróast þetta yfir í aðeins lengri tarnir.“ Hrossunum er riðið bæði inni og úti, á svelli eða í snjó, eftir því hvernig viðrar. „Það er farið inn í krossgang eða örfá skref í opinn sniðgang og byrjað á formlegum fimiæfingum. Undirstaðan er að kenna samspil ábendinga.“

Þegar grunnþjálfun lauk var komið fram í miðjan desember og Króna fékk frí fram yfir áramót. Síðan tók Þorsteinn við henni og hélt þjálfuninni áfram, að þróa gangtegundir og svörun ábendinga og undirbúa hana undir keppni og kynbótadóm.

Haustið eftir tók Króna þátt í áfanganum „þjálfun“ hjá 2. árs nemendum. Fyrsta skrefið var að koma henni aftur í form eftir sumarfríið og síðan að þjálfa ábendingar áfram, í um átta vikur. „Hún tók tvo svoleiðis áfanga hjá sitthvorum þjálfaranum um haustið. Þá er hesturinn tekinn út í byrjun áfanga og síðan er aftur úttekt í lokin. Framfarir eru metnar, hvað batnaði og hvað stóð í stað hvað varðar gangtegundir hjá manni og hesti,“ segir Þorsteinn. „Hér er hún orðin þó nokkuð tamin, en ennþá að þróa sitt samskiptakerfi við okkur og við við hana.“

Eftir áramót hélt Þorsteinn þjálfun Krónu áfram. Þegar hún var á sjötta vetri keppti hún á sínu fyrsta móti. „Við fórum í úrslit. Þetta var mjög góð frumraun. Hún stóð sig vel, var jákvæð og viljug.“ Þorsteinn þjálfaði Krónu fram á næsta sumar og haustið eftir lagði hann áherslu á lengri reiðtúra til að auka úthald og styrk.

Nú var Króna orðin tilbúin til að starfa sem skólahestur fyrir 1. árs nemendur og tók þátt í áfanganum „grunnreiðmennska“. „Þá er fókus á knapann; knapinn er að læra á hest sem kann jafnvel meira en knapinn sjálfur,“ útskýrir Þorsteinn. Hann þjálfaði Krónu áfram inn á milli og keppti á henni. Þau náðu m.a. mjög góðum árangri í gæðingafimi. Enn í dag starfar Króna sem skólahestur.

Bokki frá Hólum

Bokki, leirljós geldingur, fæddist árið 1995 og er aldursforseti Hólaskóla. Hann gekk í gegnum sama tamningar- og þjálfunarferli og Króna, og gegnir núna mjög fjölbreyttu hlutverki sem skólahestur. „Bokki er höfðingshestur. Það er sama hver fer á bak, dóttir mín, sem var fjögurra þegar hún reið honum fyrst, eða toppknapar. Hann gerir það sem hann er beðinn um,“ segir Þorsteinn. „Reiðkennarar skólans kepptu á honum, Þórarinn Eymunds, og Eyjólfur Ísólfs þjálfaði hann. Hann hefur verið notaður í skeiðkeppni af nemendum. Hann er 23 vetra og í toppformi.“ Þorsteini reiknast til að um 300 nemendur hafi riðið Bokka frá því að hann varð skólahestur, sjö eða átta vetra gamall. „Oft á tíðum er hestarnir mjög meðvitaðir um hvað sé ætlast til af þeim. Þeir aðlaga sig að aðstæðunum,“ segir Þorsteinn. „Ég hef mjög mikla trú á því að Bokki hafi gaman af þessu, annars væri hann ekki að leggja sig svona fram ennþá, vinna sömu vinnuna í 15 ár eða eitthvað svoleiðis.“

Dæmigerður dagur í lífi Bokka og annarra skólahesta er eitthvað á þessa leið: Kl. 7 er morgungjöf og síðan er reiðtími, t.d. grunnreiðmennska, skeiðkennsla eða byrjendakennsla þar sem nemar Hólaskóla kenna grunnskólakrökkum reiðmennsku. Í reiðtímum er oft farið út, upp í skóg eða niður að á. Nemendur læra að nýta landslagið til þjálfunar. Hádegisgjöf er kl. 11:30. Síðan eru hestarnir settir úr, þeir viðra sig og slaka á. Stundum er líka kennsla síðdegis og hefst þá reiðtíminn kl. 17. Þá er yfirleitt teyming eða skeið. Kvöldgjöf er á milli kl. 18 og 19 og kl. 22 eru ljósin slökkt í hesthúsinu.

Þorsteinn segir skólahestana endast mjög vel, en að lokum fara þeir á „eftirlaun“ og yngri hestar koma inn. „Þegar við hættum að nota hrossin eru þau sett á útigang. Þau ala upp ungviðið en eru aðallega að éta og hafa það gott.“

Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir

Share: