Heidi Koivula finnst eins og forlögin hafi leitt hana og hryssuna Skjónu saman.
Það rignir í Rauðhólum. Rauðskjótt hryssa töltir léttfætt eftir stígnum. Á baki situr síðhærð álfamær í grárri lopapeysu. Skærgrænn mosinn og ryðrauðir hólarnir breyta umhverfinu í ævintýraveröld. En sagan um það hvernig hryssan og mærin fundu hvora aðra er líka ævintýri líkust. 
 
Heidi Koivula er frá Finnlandi, en kom fyrst til Íslands árið 2011 til þess að vinna á hestabýli í nágrenni við Blönduós. Síðan þá hefur hún verið með annan fótinn á Íslandi. „Ég er núna í fjórtánda skipti á Íslandi,“ segir hún á nær lýtalausri íslensku. Sumarið 2016 vann Heidi við að þjálfa hesta í Víðidal. Meðal þeirra var rauðskjótt hryssa sem hélt sig til hlés og virkaði tortryggin. Heidi fannst hryssan falleg og ákvað að reyna að vinna traust hennar. „Ég hef gaman af áskorunum,“ segir hún brosandi. Heidi vissi hvorki hvað hún hét, né hver eigandi hennar var. Vinnuveitandi hennar þekkti heldur ekki nafn hryssunnar, svo hún kallaði hana Skjónu. 
 
 
„Ég var þriggja ára þegar ég fór fyrst á hestbak og þá vissi ég að það var þetta sem ég vildi gera. Enginn í fjölskyldunni var í hestum, en langafi minn var hestamaður, svo kannski er þetta í blóðinu?“ Fjölskylda Heidi bjó í sveit tveimur og hálfum tíma frá Helsinki. Á nágrannabænum voru hestar og það var þar sem ástríðan kviknaði. Eftir að Heidi og bróður hennar var boðið á bak í fyrsta skipti, vildi hún ólm reyna það aftur. Frá sex ára aldri fékk hún að fara í reiðskóla einu sinni í viku, en hún reið líka út hjá nágrönnunum. „Mamma sagði að ég yrði að vinna fyrir því, svo ég hjálpaði til við að mjólka kýr og fékk að fara á hestbak í staðinn,“ segir Heidi. Síðan rættist stóri draumurinn: „Þegar ég var tíu ára eignaðist ég minn fyrsta hest sem var Shetland Pony.“ Hún fékk líka ýmis önnur dýr og seinna írskan smáhest.
 
Þegar Heidi hafði lokið námi langaði hana að vinna með hesta einhvers staðar í Evrópu. Í gegnum vinkonu sína frétti hún af býli fyrir utan Blönduós sem vantaði hestafólk í vinnu. Til að byrja með var Heidi ekki hrifin af hugmyndinni, en ákvað svo að slá til. „Eftir nokkra daga elskaði ég Ísland, náttúruna – og íslenska hesta.“ Fjölhæfni hrossakynsins heillaði hana. „Það eru alls konar íslenskir hestar til; hestar sem allir geta riðið, en líka mjög viljugir hestar sem eru aðeins fyrir þjálfaða knapa, og allt þar á milli,“ segir hún. „Það er gaman að sjá þá saman að lifa úti, alvöru hestalífi. Hausinn er í góðu lagi út af þessu.“ Hún kann einnig að meta íslenskt samfélag. „Amma mín, sem var mjög mikilvæg fyrir mig, sagði mér frá því að þegar hún var lítil þá var lífið öðruvísi. Nágrannarnir voru að hjálpa hverjum öðrum. Það var rólegt sveitalíf. Enginn þurfti að læsa. Núna finnst mér ég lifa svona lífi.“ Heidi finnst hún eiga heima á Íslandi. „Ég er óvenjuleg í Finnlandi. Þeir plana mikið. Eru skipulagðir. Ég er meira svona: „Þetta kemur í ljós, þetta reddast“ fílósófí.“ Hér á hún góða vini.
 
Þjálfun Skjónu varð Heidi hjartans mál. „Ég vann mikla grunnvinnu og hún byrjaði að treysta mér. Það var hægt að fara á hestbak, en hún var mjög spennt.“ Smám saman náði Heidi meiri árangri. „Eftir tvær vikur varð stór breyting. Það var hægt að ná henni úti. Núna fannst mér ég finna samband. Hún slakaði á og var ekki hrædd við neitt ef ég sagði að það væri í lagi. Hún fór að lyfta mikið og nota líkamann rétt.“ Skjóna reyndist hágengur og skemmtilegur reiðhestur. Heidi tengdist Skjónu tilfinningaböndum og varð því fyrir áfalli þegar hún var allt í einu horfin úr hesthúsinu. „Einn daginn kom ég upp í hesthús og hún var farin. Ég vissi ekki hvert. Ég hélt að ég væri búin að missa hana.“ 
 
 
Tvö og hálft ár liðu. Vinkona Heidi, sem rekur reiðskóla í Finnlandi, bað hana um að hjálpa sér við að kaupa íslenskan hest. Hún birti skilaboð Facebook-síðu sem auglýsti hesta til sölu. „Ég fékk 20-30 skilaboð – ég var í Finnlandi á þessum tíma. Ég skoðaði skilaboð sem var með myndbandi, frá Erlu á Hvoli II, sem var að rækta og þjálfa og var með hesta til sölu.“ Heidi leist vel á gelding nokkurn, mælti með honum við vinkonu sína, sem síðan keypti hann fyrir reiðskólann. „Ég var forvitin að sjá hvaða aðrir hestar voru til sölu á Hvoli II og skoðaði Facebook-síðuna þeirra. Þar sá ég auglýsingu um Hendingu, rauðskjótta meri, sem var alveg eins og Skjóna. Ég hugsaði með mér að þetta væri ekki hægt og fór að skoða upplýsingarnar. Þar stóð einmitt að hún væri spes og hentaði þess vegna ekki fyrir reiðskóla. Ég skoðaði myndir og myndbönd frá 2016 til að athuga hvort liturinn passaði.“ Heidi bað Erlu um frekari upplýsingar og á endanum fékk hún staðfestingu á því að Hending væri Skjóna hennar!
 
Heidi hafði alls ekki áformað að kaupa hest, en nú varð hún staðráðin í að eignast Skjónu. „Líka vegna þess að hún er svona spes, þá vildi ég ekki að einhver annar myndi kaupa hana sem skildi hana ekki.“ Þegar Heidi sagði fólki þessa ótrúlegu sögu, hvöttu allir hana til að láta verða af kaupunum – hún og Skjóna tilheyrðu greinilega hvorri annarri. Vinur Heidi sem átti hesthús í Víðidal, bauðst til að koma með henni að sækja hryssuna og hýsa hana. „Svo ég ákvað að kaupa. 31. desember [2018] kom ég til Íslands og 4. janúar fórum við að ná í tamningahross og líka að Hvoli II til að sækja Skjónu.“ Heidi á erfitt með að lýsa tilfinningum sínum við endurfundina. „Það var eins og hún væri að hugsa: „Þekki ég þig?“ Fyrst passaði hún sig. Svo kom hún hægt að mér. Ég sá að hún þekkti mig einhvern veginn. Nóg til að fylgja mér.“
 
Síðan þá hafa Heidi og Skjóna fylgst að. Er þær ríða aftur heim úr Rauðhólum brýst sólin fram úr skýjunum og varpar geislum sínum á mærina finnsku og merina íslensku, sem forlögin leiddu saman.
 
Texti: Eygló Svala Arnarsdóttir. Myndir: Louisa Hackl.

Gallery

0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0

Share: